mánudagur, 11. október 2010

Að draga andann.

Eins og venjuleg kona ákvað ég að fara á Eat, pray, love með vinkonum mínum. Vinnufélagar einnar þeirra grétu víst yfir myndinni. Ég get nú ekki sagt að mér hafi verið grátur í huga, enda endaði myndin vel eftir að aðalpersónan hafði gengið í gegnum ítarlega sjálfsskoðun og lært að elska sjálfa sig svo hún gæti elskað aðra.

Já já, óttaleg froða en fékk mig til að líta til baka þegar ég hef setið einhversstaðar, heima eða að heiman, í fullkominni kyrrð og sátt við dýr og menn. Og ekki síður, sátt við sjálfa mig.

Lífið hefur liðið áfram síðustu ár án margra slíkra augnablika, margt er í móðu og margir dagar voru ekki beinlínis þrungnir lífsþorsta. Það gekk svo langt að einu sinni sagði vinkona mín sem var í skóla erlendis á þeim tíma og var að fara aftur út eftir páskafrí: ,,Í guðanna bænum, farðu nú ekki að drepa þig á meðan ég er í burtu." Hvað gerir maður án vina sinna á ögurstundum?

Í sumar átti ég hreint og beint yndislega daga í Kenýa þegar að ég fékk að vera ein heima í þrjá daga. Ég var í sjálfboðaliðavinnu og enginn mátti af mér sjá, allir urðu að passa upp á mig og ég, Íslendingurinn sem var vanur að gera hvað sem var, hvenær sem var, var gjörsamlega að kafna. Með undanbrögðum náði ég að losa mig við yfirboðara mína og eyddi þessum hreint yndislegu dögum í að gera hreint, þvo þvott og elda mat. Húsverkin héldu mér upptekinni, tíminn var ekki til og ég fékk að laga mig að hinu daglega lífi án nokkurra afskipta. Það kom fyrir að ég dæsti af ánægju því sá sem hefur verið sviptur frelsinu tímabundið, finnur hvað það er dýrmætt þegar hann öðlast það aftur.

Núna nýt ég þess að sitja heima og lesa bók eða drekka te í einsemd minni. Ég er líka svo heppin að meðleigjandi minn og vinkona hefur mjög þægilega nærveru og við getum setið í sitthvoru horninu og ýmist talað eða þagað, allt hvað hentar hverju sinni. Ég er ekki lengur hrædd við það frelsi sem felst í að vera einn. Ég var einu sinni hrædd við að vera ein með hugsunum mínum sem sögðu mér alltaf að ég ætti að vera að gera þetta og hitt. Þetta gerði það að verkum að ég breytti hugsununum í mók og ýtti frá mér verkefnum. Ég deyfði mig með því að forðast heiminn, forðast lífið og forðast sjálfa mig.

Það er ekki þar með sagt að ég hafi öðlast einskonar ,,nirvana." Líf mitt verður aldrei fólgið í að biðja, borða og elska að hætti Juliu Roberts (þótt þetta komi nú eitthvað við sögu) en vonandi öðlast ég hugarró og það með fullri meðvitund. Nú til dags koma því betur þau augnablik þar sem ég halla mér aftur í stólnum, dreg andann djúpt og þakka fyrir að vera hér. Ein með sjálfri mér.

5 ummæli:

Jóna Rún sagði...

Frábært blogg. Ég skil alveg þessa tilfinningu sem þú ert að tala um, allan skalann sko ;)

Þórunn sagði...

:)

Míms sagði...

Að vera einn með sjálfum sér er vanmetinn lúxus!
Kv. Mímí tveggja barna móðir :-)

Unknown sagði...

Góður pistill!

Halla sagði...

Eins og talað út úr mínu hjarta! Að geta unað sér einn á eigin forsendum er eiginleiki sem ekki allir búa yfir, en er svo góður og gagnlegur til að þroska eigið sjálf. Þeir sem alltaf stóla á aðra eru varla mjög sjálfstæðir, er það? Því er svo mikilvægt að geta stólað á sjálfan sig og þurfa engan annan, nema til eigin ánægju og yndisauka.