miðvikudagur, 27. júlí 2011

Voðaverk í kjölfar voðaverka.

Hryllilegur harmleikur hefur átt sér stað í nágrannalandi okkar, Noregi.
Það er ljóst að Íslendingar eru slegnir og ég ákvað að taka mér mínútu
þögn á mánudaginn og hugsa til ættingja og vina þeirra látnu, svo og
þeirra sem lifðu hörmungarnar af. Við skulum ekki gleyma því að þetta
verður sennilega ör á sálu þeirra allt þeirra líf.

Orðræðan á Íslandi hefur ekki farið varhluta af heimskum og grófum
athugasemdum þar sem gert er lítið úr fórnarlömbum árásarinnar. Ég tel
það þó gert óafvitandi. Staðreyndin er sú að margir Íslendingar hafa að
einhverju leyti tileinkað sér undarlega lífsskoðun, sem snýst ekki um
kærleik í garð náungans heldur valdagræðgi og fáfræði. Þeir hafa þá
sannfæringu að eitthvað annað ætti að stýra mönnunum heldur en kærleikur
og innræta öðrum að það sé þeim fyrir bestu að bjarga eigin skinni í
öllum aðstæðum og hirða ekki um aðra.

Mikið hefur verið skrifað um vefinn amx.is að undanförnu, sem telur sig
stunda vandaða fréttamiðlun. Vefurinn er augljóslega hlutdrægur og
miðar að því að salla niður náungann, réttara sagt þá sem bera kærleika í
hjarta og berjast fyrir jafnrétti. Fyrst var talið að Anders Breivik væri
nýnasisti en fljótlega var talað um að hann væri öfga hægrimaður. Amx menn
komu með harða gagnrýni á þá sem telja nasisma vera hægri öfgastefnu og
sögðu hann raunar runninn undan rifjum sósíalisma. Mér skilst hinsvegar að
nasismi eigi ekkert skylt við sósíalisma nema að þeir kölluðu flokkinn
National Social Party.

Látum liggja á milli hluta hvort nasismi er hægri öfgastefna eður ei.
Anders Breivik hefur sagt sig vera menningarlegan íhaldssinna. Hann leggur
semsagt ofuráherslu á að litlar sem engar breytingar eigi sér stað í
vestrænni menningu, meðal annars að haldið sé í grunngildi kristninnar og
hefðbundin kynhlutverk séu í hávegum höfð. Eins og áður segir hefur verið
deilt um hvort Breivik sé á hægri vængnum. Lítum á skilgreiningu
alfræðiorðabókarinnar á íhaldsstefnu:

„[íhaldsstefna er] viðhorf sem beinist að því að viðhalda ríkjandi þjóðfélagsskipan
Þannig að allar breytingar á félags-, efnahags-, og stjórnkerfinu verði sem minnstar
eða þá hægfara og ekki of tíðar […]. “
Seinna er talað um hefðbundna íhaldsstefnu Burkes:

„Sú íhaldsstefna felur m.a. í sér virðingu fyrir rótgrónum stofnunum, s.s. kirkju og fjölskyldu, og leggur jafnframt áherslu á einkaeignarrétt, frjálst markaðshagkerfi og takmörkuð afskipti ríkisins af einstaklinum og efnahagsstarfssemi.“

Hér sjáum við að íhaldsstefna er hægri stefna. Hugtök almennrar hægri
stefnu eru einfaldlega þau sömu og síðustu þrjú atriðin sem talin eru upp
í lok tilvitnarinnar. Þetta er staðreynd, sama hversu sár hún
er fyrir hægri menn, og þótt menn reyni að finna hugtök í máli Breiviks
sem vísa til vinstri er hún óumdeilanleg. Þess ber að minnast að öfga
vinstrimenn hafa svo sannarlega látið til sín í mannkynssögunni. Öfgamenn
til vinstri finnast sjálfsagt hér á Íslandi, en ég get ekki séð að það sé
jafn áberandi.

Margir hægrimenn eru ágætir og meira en það. Ég á vini í þeirra hópi og
þeir hafa svo sannarlega ekki sama hugsunarhátt og fjöldamorðinginn
Breivik. En það að nýta sér fjöldamorð sem tylliástæðu til að ráðast á
pólitíska andstæðinga sína er með öllu ólíðanlegt. Grein Karls Th.
Birgissonar, sem ræðst meðal annars að Hannesi Hólmsteini er einnig ólíðanleg, þótt ekki verji ég flestar athugasemdir sem birtast við þá færslu. Orðræða vinstri manna verður að vera málefnaleg ef þeir ætla að kveða niður skoðanir hægrimanna. Það sem mér finnst þó undarlegast er að enginn hægrimaður, að mér vitandi, hefur komið fram opinberlega og fordæmt skrif amx liða. Þeir verða einnig að vera gagnrýnir á öfgastefnu innan sinna herbúða.

Hvar er kærleikurinn í þessu landi? Ég veit að flestum Íslendingum finnst
hann skipta máli, en svo sannarlega ekki öllum.

Þeir afneita honum um leið og þeir byrja að níða hvern annað niður með
ómálefnalegri gagnrýni. Þeir vilja ekki vera þeir sem bera hann í brjósti
og fæða hann svo hann verði ennþá sterkari. Þeir trúa heldur ekki á
fyrirgefningu.

Í Kenýa fá skólabörn í efstu bekkjum grunnskóla fræðslu um siðferðileg
gildi og hvernig má verða sem bestur þjóðfélagsþegn. Þetta er gert undir
kristnum formerkjum og það eru prestar sem sjá um þessa fræðslu. Nú veit ég
að mörgum hrýs hugur við þessu, enda trúarbrögð eitur í beinum ófárra Íslendinga
(ég sjálf er trúuð og ætti þá kannski eftir skilgreiningum sumra að vera
hægriöfgamaður og sýni hræsni fyrir bragðið með því að þegja þessa einu mínútu í byrjun vikunnar).
Ég er heldur ekki að segja að slík fræðsla hér heima ætti
endilega að vera í höndum presta. Vissulega eru siðferðisbrestir, og meira
en það í Afríkulöndum. En þeir eru einnig hér, þótt frekar sé á orði en í
borði. Penninn er máttugur og skerpir jafnvel sverðið svo úr verða árásir og morð.
Kenýamenn reyna þó, en mér virðist oft að Íslendingar hafi gefist upp. Hér
ætti að kenna gagnrýna hugsun bæði í grunnskóla og framhaldsskóla. Hér
ætti að láta börn berjast fyrir sínu og veita þeim viðeigandi aga og gott
uppeldi, ekki síst vegna þess að við höfum alla burði til þess. Við höfum
öll tæki til að verða siðað samfélag. Við sjáum það best á Breivik hvernig
hann hefur nýtt sér yfirborðsmennsku vestrænna samfélaga. Hann fór í
lýtaaðgerðir og ljósabekki, keypti sér dýr föt og markaðssetti sjálfan sig
til að verða traustverður einstaklingur. Berum við virkilega bara traust
til þess fólks sem lifir á yfirborðinu? Já, það gerum við, við erum sek um
það öll. Ein besta og vandaðasta manneskja,sem svo sannarlega á eftir að
gera þjóð- og samfélagi gott í sínu heimalandi, Kenýa, gekk í rifnum
fötum. En hún var dugleg og henni tók flestum fram í
siðferði og góðmennsku.

Við Amx liða vil ég segja að það myndi gera ykkur gott að fara aðeins út í heim, já eða bara hinumegin við hornið og hitta almennilegt fólk sem myndi kenna
ykkur muninn á réttu og röngu. Ef þið haldið áfram á þessari braut á það
eftir að koma niður á ykkur og það vona ég svo sannarlega því það gerir
ykkur að betri mönnum.

Um Breivik vil ég segja. Maðurinn er ekki skrímsli
þrátt fyrir voðaverk sín. Hann er heldur ekki geðveikur því hann gat
skipulagt verk sín og var í fullkomnu jafnvægi þegar hann framdi þau. Raunar er það móðgun við geðsjúka einstaklinga að kenna hann við þá. Anders Breivik
varð fórnarlamb hugsunar sem gegnsýrir samfélagið og hún fer ekki
í flokkaálit. Við getum einungis reynt að læra af þessari hörmung og hafa
kærleikann að leiðarljósi. Það er ekki mikið flóknara en það.

sunnudagur, 17. júlí 2011

Heima.

Ég er á leið heim. Ekki í enn eina leiguíbúðina, heldur heim. Mazdan bryður mölina þegar ég ek upp heimreiðina eftir vinnudaginn. Nokkrar vinkonur hafa safnað sér saman í túninu og líta letilega upp þegar bíllinn nálgast, en spyrjandi jarm leiðir þær til afkvæma sinna fjær veginum. Það er sólskin, eins og alltaf í minningunni
um sumrin sem ég upplifði í æsku og hóllinn minn blasir við mér með hárið gulleitt og rytjulegt eftir snjóinn sem dvaldi langdvölum þetta vorið.

Maður tekur æskuslóðirnar með sér hvert sem maður fer, en þær gleymast
stundum í hversdeginum, og það er ekki fyrr en maður finnur lykt af
nýslegnu grasi og skuggar trjánna mynda verndandi hjúp um mann, að
maður endurupplifir, þótt ekki sé nema eitt andartak, tilfinninguna fyrir
að eiga heima einhversstaðar og vita um leið að þessi tilfinning er
samofin heimilinu. Hún er heimilið sjálft.

Ég þurfti svolítinn tíma til að ná mér niður eftir veruna í höfuðborginni
þegar ég kom aftur. Ég vissi ekki hvort ég myndi bilast af því að hafa
ekki vinkonurnar í næsta húsi til að skreppa með á kaffihús en vissi innst
inni að þetta var nákvæmlega það sem ég þurfti að gera. Þess vegna sótti ég
um vinnu á Húsavík í sumar, fékk hana og flaug norður við fyrsta tækifæri
til að takast á við sauðburðinn. Svo bilaðist ég svolítið á honum
og eftir fjórar vikur skellti ég mér til kóngsins Köbenhavn að heimsækja
Kristínu Maríu frænku, alveg eins og ég gerði þegar ég var sjö ára. Í
þetta skiptið slepptum við þó tívolíinu og dáðumst í staðinn að fallega tveggja
mánaða drengnum hennar, sem varð mánuðinum eldri í síðustu viku. Allt í einu eigum við að heita fullorðnar en samt er minningin um þegar við svifum á Töfrateppinu svo nálæg, eða þegar við skreyttum borðið í drullubúinu með rifnum dúk og hrafnaklukkum og sóleyjum í vasa.

Núna lullar Mazdan til Húsavíkur og aftur til baka alla virka daga, og ég rigsa inn á skrifstofu í háum hælum (læt þó vera að keyra í þeim) eins og ég hafi
aldrei gert annað. Ég skipulegg ég máltíðir í gríð og erg og við pabbi borðum saman á hverju kvöldi, oftast eftir veðurfréttir. Vanalegar spurningar, eins og hvernig
hafi verið í vinnunni og hvort ég hafi heyrt í mömmu, skapa reglubundinn
takt samræðna sem svo leiðast kannski út í eitthvað annað, eins og um þennan
fádæma vitleysisgang við Múlakvísl og hvernig Íslendingar hafi gleymt
því að þeir stjórna ekki náttúruöflunum. Ég veit fyrir víst að ég var
mestan part búin að gleyma landslaginu innan í mér. Hugur minn er byrjaður að tölta aftur á jöfnum hraða þótt það að villast upp í Mývatnssveit með tvo belgíska puttalinga þegar maður ætlaði aðeins með þá hálfa leið upp í Reykjadal, setji daginn örlítið úr skorðum.

Ég legg Mözdunni eins mjúklega og ég get og hlusta á þreytulegt andvarp hennar þegar ég sný lyklinum í svissinum. Ég geispa svolítið og stend upp úr bílnum, teyga að mér loftið og hristi úr mér norðangarrann. Ærnar hafa fært sig nær hlaðinu og horfa löngunaraugum á grasið í garðinum. Ég renni augunum snöggt rúntinn: Staðarfell, Hrifla, Lækjamót, Borgartún og svo framvegis. Allt er á sínum stað og hugsanir mínar eru fullkomlega öruggar hérna upp í hlíðinni. Það er gott að vera komin heim.