sunnudagur, 23. janúar 2011

Samskiptaleysi.

Þetta er væmið en sænskt gæðapopp. Á ákaflega vel við þessa dagana.



Konurnar á bak við tjöldin.

Ég hef svosem ekkert nýtt fram að færa. Nema, ég er byrjuð í heimspeki og mér finnst það gebbað. Verst er að ég er þegar komin eftir á í lestri vegna vinnu og sá mér því ekki annað fært en að hætta í rökfræði. Hún lofaði reyndar góðu, þótt ég hefði þurft að eyða massívum tíma i hana því að hugsa svona er svo gersamlega framandi fyrir mér. Mér finnst samt mótsagnarrökfræðin alveg merguð. Þá geturðu bara bullað einhverja vitleysu og samt er niðurstaðan rökfræðilega rétt.
Dæmi:Þórunni langar að læra rökfræði en langar samt ekki að læra rökfræði.
Niðurstaða: Það er bleikur fíll í forstofunni.

Fyrst forsendurnar meika ekki sens geta þær leitt af sér hvað sem er. Gaman af þessu.

Ég er meira að segja farin að sækja Soffíubúð, kaffistofu stúdenta, þar sem hægt er að fá sjúklega ódýrt kaffi og hanga í sóffanum, bullandi út í eitt. Svo eru kennararnir svona bráðmyndarlegir og skemmtilegir. Lífið gæti vart verið betra.

En letin lætur svosem ekki að sér hæða. Á náttborðinu eru að minnsta kosti fimm bækur: Halastjarna múmínálfanna, Dalai Lama; Lífshamingja í hrjáðum heimi, Hreinsun og Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð. Þá eru ótaldar námsbækurnar eftir Platón, Aristóteles og Decartes. Annars dó víst greyið Decartes því hann þurfti að fara svo snemma á fætur á seinni árum. Hann hafði vanist því að hanga í rúminu fram eftir degi og hafa það gott. Mikill kósýheita maður Decartes. Svo fékk hann starf við hirð Svíadrottningar og þar þurfti hann að fara á fætur klukkan fimm á morgnana til að kenna drottningunni. Það var ekki að sökum að spyrja, þetta rústaði heilsu hans og hann lést úr lungnakvefi skömmu seinna. Frakkar segja því að Svíar hafi drepið Decartes. Jiii!

Eins og ég segi, þetta er mergjað og obboslega gaman að fá smá ævisögulegan vinkil á þessa kalla, enda finnst mér afskaplega gaman að spá í líf annarra og hvers vegna þeir eru nú einu sinni eins og þeir eru. Einhverskonar mannfræðiáhugi þarna á ferðinni.

Ekki síst er skemmtilegt að spá í það fólk sem maður hefði kannski ekki talið sérstaklega merkilegt eða gegna miklu hlutverki í heimssögunni. Hjákonur mikilmenna (ef hægt er að kalla þá það, það er náttúrulega smekksatriði) eru sérstaklega áhugaverðar og hafa án efa átt sínn þátt í að hafa áhrif á þessa menn. Ein er í uppáhaldi hjá mér, hún Lady Ottoline Morrel. Hún átti meðal annars í ástarsambandi við hann Berta Russel, rökfræðing nota bene, og málarana August John og Henry Lamb. Allt framhjáhald að sjálfsögðu. Það er áhugavert að skoða konur á borð við hana því oftast eru þær á skjön við það samfélag sem þær alast upp í, eru listelskar og greindar og láta ástríður sínar taka völdin. Það er líka áhugavert hve oft þessar sjálfstæðu konur, sem oft eru þekktar á eigin forsendum, líkt og Frida Kahlo,, áttu í ástarsamböndum við konur, sem að sjálfsögðu var algjört tabú og gekk gegn öllum gildum samfélagsins.

Sjálfsævisögulegir vinklar geta því gefið okkur hugmynd um hvernig fólk hefur mótast af uppeldi sínu, ástarsamböndum og annarri lífsreynslu. Þeir varpa öðru ljósi á hugmyndafræði manna, þótt að sjálfsögðu eigi þetta allt að vera svo hlutlægt og óháð öllum tilfinningum. Fræði og listaverk eru ekki bara fræði og listaverk, þær eru maðurinn og konan á bakvið þau. Svo sannarlega gömul sannindi og ný, en vert að hugsa um af og til.

mánudagur, 17. janúar 2011

Takk!

Heil og sæl,

Þá er markaðurinn afstaðinn og tókst svona líka frábærlega. Samtals söfnuðust 27.000 kr., í gær bættust tíuþúsund við og von er á meiru. Takk fyrir frábæra fólk sem sýnduð stuðning, með því að gefa föt, styðja framtakið og hjálpa til. Þetta var ómetanlegt. Svo er líka svo ljómandi gaman að halda svona markað, rosa stemmning. Fyrir þá sem vilja leggja inn á styrktarreikning Paranai, þó ekki væri nema örfáar krónur, geta lagt inn á þennan reikning:
Reikningsnúmer: 1110-26-2508
Kennitala: 250883-5019


Ég hef verið að reyna að vinna í heimasíðu um Paranai en er ekki alveg sú sleipasta á tæknisviðinu, þótt ég hafi reyndar komist ótrúlega langt;) Ætla að narra vinkonu mína til að hjálpa mér svo þeir sem vilja geti fylgst með stelpunni.

Á laugardagskvöldið fékk ég svo tölvupóst frá Paranai. Hún er komin með eigið netfang og allt, og virðist hafa lært heilmikið í fingrasetningu af lengd bréfsins að dæma. Hún var næsthæst í bekknum og komst inn í sama skóla og sá hæsti, Silas, sem er með virkilega góðar einkunnir (og ég efast ekki um að einkunnir Paranai séu neitt slor). Hún sagði að henni fyndist þetta ótrúlegur árangur miðað við að faðir hennar lést í haust og því fylgdi óneitanlega sorg og erfiðleikar. Samkvæmt bróður Parnai voru þau í Nairobi, höfuðborginni, og væru að halda heim aftur. Hann ætlaði að skrifa mér um skólann í dag og ég bíð spennt eftir upplýsingum. Allt bendir til þess að Paranai komist í góðan skóla, og það sennilega í Nairobi fyrst þau voru þar í síðustu viku. Það var líka draumur Paranai að komast í skóla í Nairobi, enda bestu skólarnir þar og umhverfið spennandi fyrir litla Masaistúlku sem varla hefur ferðast neitt að ráði. Hún verður þó sennilega í mjög vernduðu umhverfi þar, á heimavist og verður sennilega að læra allan sólarhringinn að Kenýabúa sið.

Ég verð að segja að ég varð ansi spennt, enda hef ég ekki heyrt frá Paranai sjálfri síðan ég fór. Það var mér mikið í mun að hún vissi að ég hugsaði til hennar.

Annars er þetta allt frábært bara :) Ég lenti svo á mikilli kjaftatörn um hjálparstarf í gær, kosti þeirra og galla, og hve margt íslenskt fólk væri raunar að vinna að allskyns verkefnum, bæði samtökum og sjálfstætt. Það er virkilega ánægjulegt að margir eru að vinna sjálfstætt að hjálparstarfi, þekkja aðstæður vel og vita hvernig á raunverulega að hjálpa því mörg hjálparsamtök hirða ógn og skelfing af fólki sem vill ekkert gera nema hjálpa, ekki borga undir flugfar á fyrsta farrými fyrir stjórnendur stórra hjálparsamtaka. Að sjálfsögðu eru svo ýmis samtök af þessu tagi að vinna gott starf, eins og ABC og Rauði krossinn. Einhversstaðar verður maður að byrja og þegar maður kynnist innfæddum og þekkir aðstæður betur getur maður farið að móta sína eigin stefnu og unnið að einstökum verkefnum sem eru manni sérstaklega hugleikin. Það er fínt að byrja í hjálparstarfi á vegum samtaka ef maður stefnir í þessa átt að ég held. Annars er ég enginn sérfræðingur en gaman væri að vita af fólki sem er að vinna að eigin verkefnum og fræðast af þeim um hvað hægt er að gera og hvernig. Allar ábendingar vel þegnar :)

Bless í bili og takk :)

föstudagur, 14. janúar 2011

Markaðurinn

Allt um markaðinn á morgun má sjá hér

mánudagur, 10. janúar 2011

Markaður þann 15, janúar til styrktar Paranai!

Ákveðið hefur verið að markaður verði haldinn laugardaginn 15. janúar næstkomandi til styrktar hinni fjórtán ára, kenýsku Paranai Keteri svo hún komist í framhaldsskóla. Markaðurinn verður á Factory, þar sem að Grand Rokk var og þar verða fleiri með bása svo það er um að gera að koma og líta á úrvalið. Heimasíða um Paranai verður aðgengileg innan tíðar þar sem hægt er að skoða myndir af henni og fræðast um hennar hagi.

Ég vona að sjá ykkur sem flest. Ýmislegt verður til sölu, svosem föt, skór, leikföng, bækur og fleira. Ef þið viljið arfleiða mig, til dæmis, að fötum (þetta er víst fatamarkaður) sem þið eruð hætt að nota og eru í sæmilega heilu lagi, endilega hafið samband við mig:

Email: thth4@hi.is
Sími: 8470761

Endilega komið, styrkið gott málefni og gerið góð kaup, "this time for Africa" ;)

Bæjó í bili :)

þriðjudagur, 4. janúar 2011

You can say I'm a dreamer.

,,Paranaiverkefnið" fer senn af stað. Ætlunin er að halda basar seinna í mánuðinum, eða byrjun febrúar. Þeir sem hafa áhuga geta lagt söfnuninni lið með því að gefa föt, leikföng, bækur, eða jafnvel baka kökur eða brauð og koma því til mín fyrir söfnun, en vitaskuld liggja upplýsingar um dagsetningu og fleira á borðinu vonandi sem fyrst.

Eins og áður segir snýst þetta svokallaða verkefni ekki einungis um eina manneskju heldur er ætlunin að við stöldrum aðeins við og hugsum um hvað skiptir máli. Vonandi hvetur það ykkur til að koma á fleirum slíkum verkefnum, ekki síst til að styrkja fólk hér á Íslandi, og þá meina ég ekki endilega með fé heldur einnig aukinni samfélagsvitund og vilja til góðra verka.

Ég virðist kannski vera heldur mikið upp í skýjunum með þetta allt saman, en hvað með það? Það hlýtur að koma eitthvað gott út úr þessu.

Bless og takk,
ekkert snakk ;)