laugardagur, 25. desember 2010

Kærleikur í verki.

Óska öllum lesendum gleðilegra jóla, friðar og gleði á næstkomandi ári. Takk fyrir lesninguna og ég vona að sem flestir kíki við árið 2011, sem verður mega ár. Bloggið kemur áfram við á vettvangi sjálfskoðunar, enda mikið áhugamál hjá mér, það er að segja ég sjálf, einnig er ætlunin að koma við á ýmsum stöðum hugvísinda, aðallega það sem við getum rakið beint til breytni okkar mannfólksins. Það er að segja hagnýta lífsspeki ;)

Ég ætla að gefa ykkur hugmynd um hugmynd sem verður vonandi að veruleika núna strax á nýju ári. Ætlunin er að halda söfnun fyrir stelpuna mína hana Paranai, sem bjó með mér úti í Kenýa þegar ég dvaldi þar síðastliðið sumar. Hún er fjórtán ára gömul og byrjar í framhaldsskóla núna í febrúar og ætlunin er að styrkja hana til náms. Ég ætla að deila með ykkur sögu Paranai og reynslu minni af kynnum mínum við hana. Hún er einstök stúlka sem á allt gott skilið. Vonandi kemst hún hingað til Íslands einhverntíma svo einhver ykkar getið fengið að kynnast henni.

Söfnunin verður með ýmsum hætti og vona ég að sem flestir taki þátt, hvort sem þeir auglýsi hana, gefi ýmsa muni, sem ætlunin er að selja á sérstökum basar, eða styrki stúlkuna beint með peningagjöfum. Ætlunin er um leið að vekja fólk til umhugsunar um kröpp kjör fólks um allan heim, sem mun vonandi leiða huga okkar frá eigin vandræðum og hvetja okkur til að rétta þeim sem eru mun verr staddir hjálparhönd. Breyttur hugsunarháttur í þessa hátt mun hjálpa okkur Íslendingum að ég held. Við öðlumst vitneskju um hvað er mikilvægt og hvað ekki og hvernig við getum, með því að lesa litla sögu af lítilli stúlku með stórt hjarta, farið að hugsa um hvert annað. Þrátt fyrir okkar kreppu eigum við svo miklu meiri von en margir þarna úti og með okkar frægu sjálfsbjargarviðleitni ættu allar dyr að standa okkur opnar. Gleymum því ekki hvað við erum heppin.

Með þessum hugleiðingum sendi ég jólakveðjur til ykkar allra. Geymum jólaandann í hjörtum okkar allt árið, líka í janúar og febrúar þótt kreditkortareikningurinn láti ekki að sér hæða ;)Ekki er allt metið til fjár og hægt er að taka þátt í söfnuninni með ýmsum hætti.

Takk fyrir árið 2010. Hlakka til að heyra í ykkur á næsta ári.

Þórunn

mánudagur, 13. desember 2010

Jólafrí bloggsins.

Nú fer bloggið mitt í smá jólafrí en kemur sterkt inn á nýju ári með ýmsum nýjungum, svo ég tali nú ekki um minni sjálfsvorkunn. Húrra fyrir 2011!

Kveðja,
Lóbuskott.

föstudagur, 10. desember 2010

Hvað sem má segja um Boy George...

Inni í snjókúlunni.

Stundum verðum við svo smá. Svo smá að við komumst fyrir í litlu kúlunum sem við hristum svo yfir allt fellur snjór. Þar sitjum við föst inni þar sem að snjóar af og til þegar einhver hristir kúluna og okkur líður eins og Sigurði Guðmundssyni og félögunum í Memfismafíunni. Snjórinn sest á kinnar okkar og umbreytist í tár sem við getum ekki þerrað því snjórinn heldur áfram að falla, miskunnarlaust, og sest á hár okkar og axlir.

Ég er hávaxin kona og ætti að ganga háreist og stolt yfir að vera sú sem ég er, yfir að hafa áorkað svo miklu, yfir að hafa sigrast á sorgum mínum. En svo kemur ný sorg og mér finnst eins og ég þurfi að byrja allt upp á nýtt. Eins og grunnurinn hafi ekki verið nógu og sterkur til að byrja með. Svo hugsa ég um ábyrgð mína sem vinur, sem starfsmaður, sem dóttir og systir og mér finnst ég ekki standa mig sérstaklega vel þar heldur því ég er föst í mínum eigin vandamálum, sem þegar á botninn er hvolft eru svo agnarsmá.

Hef ég rétt á að gráta? Hef ég rétt á að gefast upp fyrir sjálfri mér? Mér finnst ekki, ekki þessa stundina. Því vakna ég á réttum tíma, mæti til vinnu og geri það sem til af mér er ætlast. Ég tek þjófavarnarkerfið af, kveiki ljósin og kveiki á tölvunum. Ég skipti gömlum blöðum út fyrir ný í möppunum og helli upp á kaffi. Ég byrja daginn upp á nýtt þrátt fyrir hjartasár og höfnun. Ég verð að halda áfram og gera viðeigandi ráðstafanir til að verða ekki særð aftur. Þess vegna langar mig að loka hjarta mínu um sinn. Ég veit að það er kannski ekki ráðlegt en þó ætla ég að halda því opnu fyrir fjölskyldu mína. Hún á það skilið, því hún er alltaf hjá mér.

Ég kveki því ljósin og á tölvunum, helli upp á kaffi og rýni út í rökkvaðan morguninn. Ég lifi daginn.

sunnudagur, 5. desember 2010

Minnihlutajólastemmningin.

Last Christmas kom áðan í útvarpinu, Ásthildur bakar smákökur og ég búin að skreyta ofurbleika, gay jólatréð sem mér áskotnaðist eina menningarnóttina úr gömlum lager í blómabúð. Það vekur alltaf gleði í hjarta það get ég sagt enda táknar það í mínum huga jól minnihlutans, þeirra sem hafa að einhverju leyti lent utan normsins og langar að njóta jólanna á sinn hátt. Mér þykir mjög vænt um bleika jólatréð mitt.

Eins og áður hefur komið fram er ég enginn sérstakur aðdáandi jólanna. Jólin eru helvíti þunglyndissjúklinganna. Þá er mesta myrkrið og minnst við að vera nema að vera þunglyndur og éta. Auðvitað eru margir rosa ofvirkir og fara kannski á skíði og spila geðveikt mikið en ekki ég. Mig langar samt innst inni alveg ógeðslega mikið að vera svoleiðis! Sé þetta í hyllingum, með blessuð börnin hlaupandi í kringum tréð, eins og á jólatónleikum Bo í gær. Já, ég fór á jólatónleika með Bo í gær! Vinkonur mínar voru svo elskulegar að bjóða mér. Reyndar af því að systir mín sem hafði borgað fyrir miðann var veik haha. En þetta var bara þessi fínasta markaðssetta jólastemmning og ég var geðveikt að fíla Helga Björns í Ef ég nenni!

Ég held að ég muni að endingu taka jólin alveg í sátt þegar/ef ég eignast mína eigin krakka. Þá lifir maður þetta alveg í gegnum þau. En neysluna mun ég aldrei gúddera, ég verð bara að segja það og hugsa með hryllingi til alls draslsins sem börnin munu fá! En það er auðvitað gert af góðmennsku einni, og hvern langar ekki að eiga svosem eins og eina fjarstýrða spacecraftship flugvél og einn hárgreiðsluhaus.

En jesús, ég ætla ekki að segja að fjölskyldan mín sé ekki hreint frábær og það eru engin jól án þeirra. Ég veit bara stundum ekkert hvað ég á að gera á jólunum, og þau minna mig stundum á eitthvað leiðinlegt. Ég mun sakna fjölskyldunnar, æsispenningsins í karlpeningnum (jafn hjá yngri sem eldri) yfir flugeldunum og einni af mörgum stórveislum hjá Völu systur og mömmu. En ég næ jólunum sjálfum, afmælinu hjá Helgu systurdóttur minni og jólaboðinu hjá ömmu. Mig hefur alltaf langað til að eyða gamlárskvöldi í útlöndum og hef því ákveðið, eins og áður segir, að heimsækja Arngrím vin minn í Árósum.

Ég ætla annars að baka piparkökur í kvöld og fá smá kanillykt í íbúðina, sem er orðin shiny fyrir tilstilli Ásthildar (hvað er þetta, ég hef nú skúrað doldið í vetur ;)). Ég óska ykkur gleðilegrar aðventu á seinni skipunum.

Jóla-Ble

miðvikudagur, 1. desember 2010

Amma og Lennon.

Héðan er allt gott að frétta. Ég er jólabarn lítið en fer reyndar til Danmerkur um jólin að hitta minn ástkæra vin Arngrím, og ef til vill endurnýja ég kynnin við hina ástkæru H&M verslun, hver veit.

Ef jólaljósin í Köben og Ásrósum fá mig ekki til að gleðjast eilítið í mínu dapra hjarta þá er guð minn vondur/vond. Nei hann/hún er það ekki, ég talaði við guð í gær, í fyrsta skipti í langan tíma. Þegar ég var unglingur var ég skeptísk á guð en trúði engu að síður á annan heim. Síðar gerðist ég aðdáandi heimspekingsins Spinoza, sem taldi guð vera yfir og allt um kring. Það fannst mér falleg hugsun.

Eftir að amma mín dó fór ég að tala við hana. Það líður enn ekki sá dagur sem ég hugsa til hennar og ef ekki með meðvitund þá í undirmeðvitundinni. Hún var best, hún var góð. Hún kenndi mér að búa til dísætt kakó og lét mig pikka með gaffli í hafrakökurnar áður en hún setti þær í ofninn. Hún lét sokkana mína á ofninn þegar ég kom heim úr ímynduðum leikjum í garðinum og stillti á útvarpið en pabbi var með þætti um íslenskt mál á Útvarpi Norðurlandi sem við hlustuðum andaktugar á. Ég beið alltaf eftir spes kveðju sem hljómað þá eitthvað á þá leið að pabbi kvaddi þá sem á hlýddu og þá sérstaklega dóttur sína sem héti Þórunn ;)

Samhliða ömmubænum bað ég til John Lennon. Margir segja að hann hafi verið fífl en svo var ekki í mínum augum. Hann talaði til mín þar sem hann var misskilinn og einmana; "No one I think is in my tree/I mean it must me high og low." Ólíkari manneskjur hefði ég sennilega ekki getað valið mér til að beina bænum mínum að úr öllum þeim englum sem söfnuðust saman í því sem kallað er himnaríki, ef Lennon hefur þá farið til himnaríkis. Hann sagði nú einu sinni að Bítlarnir væru vinsælli er Jesús!

,,Þú átt alltaf að búast við hinu versta" sagði heimspekingur einn. Þá myndi maður ekki verða fyrir jafn miklum vonbrigðum sjáðu. Þetta vildi ég tileinka mér á menntaskólaaldri. Ég ákvað að ég ætti að hafa hægt um mig. Í dagbók mína skrifaði ég eitthvað á þá leið: ,,Engin farði, svört látlaus föt og engar væntingar í lífinu." ég var búin með kvótann. Áfall lífs míns hafði riðið yfir og von um gleði og hamingju átti ekki lengur rétt á sér.

Ég bið ekki lengur til Lennon, en amma er alltaf þarna, innan um uppáhaldsblómin sín, hrafnaklukkur, með bros á vör og margar sortir á borðinu. Kannski situr Lennon til borðs með henni og afa mínum og hámar í sig hafrakökur.
Þegar ég tala við krabbalækninn hennar mömmu dynja á mér upplýsingar um eitt og annað varðandi krabbameinsgenið blessaða. Það sem ég hélt að væri afneitun og kæruleysi kallaði hann æðruleysi við mömmu. ,,Ég held að yngsta dóttir þín sé svo lífsreynd að hún getur tekið þessum upplýsingum með æðruleysi."

Fallegt.

Það er markmið mitt núna, því mér finnst æðruleysið einmitt skorta hjá mér og óþolinmæði og vorkunnsemi gagnvart sjálfri mér spila enn stóra rullu. En stundum gerist eitthvað í sjálfum okkur, það er að segja við öðlumst eiginleika fyrir tilstilli reynslu okkar, þegar við höfum þroskast við áföll jafnt sem gleðilega atburði og kunnað að meta böl jafnt sem blessun. Einhver hluti af mér hefur öðlast æðruleysi og ég er stolt af því, Nú er að halda áfram að biðja til æðrulausrar ömmu minnar sem á stóran þátt í að gefa mér styrk og von um það sem koma skal.