sunnudagur, 31. október 2010

Myndhverfingar hjartans

Jæja. Frábært matarboð afstaðið og við Ásthildur borðuðum allan afganginn í dag. Erum sérlega saddar og sælar núna. Það sem setti punktinn yfir i-ið var svo vídjógláp. Il postino varð fyrir valinu. Hún er um ítalska póstmanninn sem verður ástfanginn og fær aðstoð frá chilenska skáldinu Pablo Neruda við að heilla til sín hina fallegu Beatrice, barmikla dökkeyga stúlku með hrokkið hár og ósvífna framkomu. Kvikmyndin fjallar þó fyrst og fremst um sérstak samband rithöfundarins og póstmannsins og þau áhrif sem sá fyrrnefndi hefur á líf þess síðarnefnda, og hvernig skáldskapurinn hefur áhrif á líf okkar.

Neruda hóf að kenna póstmanninum um myndhverfingar. Smám saman fyllast samtöl hans við skáldið og bréf hans til stúlkunnar af fallegum myndhverfingum. Myndin er falleg, um einfaldan mann sem lærir að orða tilfinningar sínar, og lýsa hinni flóknu ást á tungumáli sem allir geta tengt sig við og ímyndað sér. Að hár stúlkunnar sé fullt af stjörnum, að nakinn líkami hennar sé einfaldur líkt og hönd hennar og svo framvegis.

Ég tók fyrir ljóðlist í tíma þegar ég var sjálfboðaliði í grunnskóla í Kenýa í sumar. Ég tók fyrir textann við lag Emiliönu Torrini, Fisherman's Woman. Ég er ekki mjög kunnug ljóðum almennt en fannst ég geta útskýrt þetta þokkalega fyrir þeim, fremur en eitthvað sem væri of háfleygt.
Ástmaður ljóðmælanda er dáinn og ég reyndi að láta þau lesa í það og hið dæmigerða myndmál. Konan þekkir sjómannskonu sem er skylmingarþræll allra sjómannskvenna. Ég útskýrði einnig fyrir þeim orðið grasekkja og tengdi það við innihald textans. Við töluðum um bát mannsins sem andar og blóðrauðan varalit stúlkunnar sem gæti merkt blóð, ástríðu eða líf. Ég veit ekki hvort þau tóku nokkuð af þessu inn, en Paranai mín lagði oft saman tvo og tvo. Hún uppgötvaði að maðurinn sem sungið var um væri dáinn. Hún tengdi við merkingu rauða litarins og var virkilega snjöll þótt hún hefði aldrei lært að hugsa svona óhlutbundið. Seinna sagði hún mér að hún gæti aldrei nokkurn tíma ort svona ljóð. Hún sagði að það væri of fjarri sér, svo draumkennt og skrítið. En ég vona að þessar línur hafi hreyft við þeim. Alltént voru þau andaktug yfir þessu og ég hafði virkilega gaman af.

Hér er Emiliana og söngurinn um konuna sem vildi óska að hún væri sjómannskona:

föstudagur, 29. október 2010

Satie og skjáaulýsingarnar

Endrum og eins koma minningarbrot upp í hugann, oft einhver sem tengjast undarlegu andrúmslofti í hversdeginum. Maður er staddur mitt í þessum gráa hversdagsleika og þá vekja hljóð, myndir eða skynjanir af einhverju tagi upp einhverjar ákveðnar tilfinningar. Þessar tilfinningar láta svo á sér kræla í hvert skipti sem við heyrum, sjáum, brögðum eða finnum lykt af þessum tilteknu hlutum. Og minningin lifnar við aftur, og breytir kannski um mynd.

Það muna allir eftir gömlu góðu skjáauglýsingunum er það ekki? Mér fannst ekkert eins niðurdrepandi í öllum heiminum geiminum og skjáauglýsingar þegar ég var unglingur. Þær minntu mig á mitt auma unglingslíf (því allir eiga sér einhverntímann aumt unglingslíf) þar sem mér fannst ég oft hvorki komast lönd né strönd, hvorki bókstaflega (þar sem ég er alin upp í sveit) né andlega. Einhvernveginn skýtur minningin um skjáauglýsingarnar alltaf upp kollinum af og til. Ég man til dæmis að ég sat í svokallaðri ömmustofu (því amma bjó á neðri hæðinni heima og þar var þessi tiltekna stofa) og horfði út um gluggann undir skjáauglýsingalaginu. Það var skafl fyrir utan, snjór á rúðunni og kolsvarta myrkur úti. Ég horfði út og stundi, og ekki bætti músíkin úr skák; lag leikið á píanó af öllum þeim þunga sem píanóleikarinn átti til. Neðri nóturnar virtust draga þær efri og léttari með sér í hverju tónfalli og ég fann hvernig ég lamaðist að innan. Úff. Ég held að þetta sé mér svo minnisstætt vegna þess að þarna fann ég tilfinningu sem ég átti eftir að finna svo oft seinna og sameinaðist í bullandi þunglyndi og trega. Mennirnir eru nú þannig gerðir að þeir eru misléttlyndir og ég sá þegar ég rakst á lagið á youtube að hjá sumum vekur það góðar tilfinningar: ,,Ég hugsa alltaf um eitthvað fallegt þegar ég hlusta á þetta lag" skrifaði einhver. Ja, ég hef alltaf hugsað um eitthvað drepleiðinlegt þegar ég hlusta á þetta lag, eins og snjóskafla og íslenskt myrkur sem gleypir orku þunglyndissjúklinga um allt land. Gemmér brasilískt bossanova og þá erum við í góðum málum.

Síðar komst ég að því að ógislega skjáaulýsingalagið er eftir Erik Satie, virt tuttugustu aldar tónskáld, þótt sumir hafi nú eitthvað hnýtt í hann og talið hann ómerkilegan. Þessi bútur heitir réttu nafni Gymnopédie No. 1 og er fyrsti þáttur af þremur gymnopédieum Saties. Samkvæmt einhverjum snillingnum þarna á tube-inu, og nú sel ég það ekki dýrara en ég keypti það, hugsaði Satie oft tónlist sína sem einskonar bakgrunnstónlist, ef til vill það sem hefur verið kallað lyftutónlist. Passar vel við hversdagslega hluti eins og skjáauglýsingar, en rífur í sundur á manni hjartað um leið í niðurdrepandi einfaldleika sínum (ókei, þetta var kannski ekki svona dramatískt, en það var stundum erfitt að vera unglingur í sveitaskóla ásamt fimmtíu öðrum nemendum og með Akureyri city í 45 kílómetra fjarlægð. Og eina leiðin til að ferðast þangað sjálfstætt var að fara með rútunni um morguninn og vera kominn heim að ristahliði seinnipartinn).

En ég verð nú að gefa þessari undurblíðu og fallegu músík meira kredit en svo. Ég hef nefnilega sæst við skjáauglýsingalagið. Þið þekkið það öll þegar þið heyrið það. Gjöriði svo vel Gymnopédie No. 1 eftir Erik Satie.


laugardagur, 23. október 2010

Nýjar fréttir.

Ég blogga hér af bókakaffihúsinu Glætunni þar sem að ég háma í mig einfaldan latte með MJÓLK og borða massíva súkkulaðitertu með RJÓMA. Þar sem það þykir sýnt að beint samband sé á milli neyslu mjólkurvara og krabbameins er ég í vondum málum. Það hefur komið í ljós að ég hef erft krabbameinsgen. Líkurnar á að fá krabbamein með þetta gen í farteskinu einhverntímann á ævinni er ca 70%. Lucky me. Engar samúðarkveðjur gott fólk, eða ,,aumingja þú" - ekki gefin fyrir það. Og vil þaðan af síður vorkenna mér því ég hef vorkennt mér svo andskoti mikið í gegnum tíðina.

Ég var sallaróleg yfir þessu til að byrja með. Ég vildi fá að vita þetta þótt mig vanti þrjú ár í ,,krabbameinsaldurinn" s.k., þrjátíu ár. Læknirinn talaði skelfilega mikið. Þetta er áhugamál hjá honum og auðvitað er gott að fólk hafi, ja, gaman að vinnunni sinni, þá vinnur það hana betur. Það er að sjálfsögðu hægt að fá viðtal við sálfræðing. Það er líka hægt að fá viðtal við sálfræðing ef maður greinist ekki með genið, vegna þess að maður getur fengið samviskubit yfir því. Spes.

Mamma mín er núna að fara í sína aðra lyfjameðferð á fjórum árum. Við erum búnar að fara saman í brjóstaleiðangur þar sem að hún fékk ný gervibrjóst og næst á dagskrá er, að ég held, hárkolluleiðangur. Þyrftum nú að vera allar þrjár systur í því af betur sjá augu en auga. Og af því að við höfum svo góðan smekk náttúrulega. Hún var alveg ótrúlega brött eftir brjóstnámið og aðra aðgerð þar sem að teknir voru nokkrir eitlar úr henni. Frænka mín út í Bandaríkjunum sem greindist með mein ekki alls fyrir löngu ( er ekki orðin fertug) er komin með ný brjóst, altså eftir aðgerð, og tókst víst vel í þetta skiptið. Ég samgleðst henni og veit að hún hefur verið ofsalega dugleg. Það er auðvitað mikið áfall að greinast svona ungur.

Og duglega konan hún mamma mín. Og líka ofsalega góð kona. Ég held að það komi henni í gegnum þetta. Hún tók því af ótrúlegu æðruleysi þegar að kom í ljós að meinið hafði breiðst útí eitlana eftir að brjóstin höfðu verið fjarlægð.

Ég held að margir sem beri svona gen finnist að þeir beri ábyrgð á því þegar börn þeirra erfa genið. Því finnst það bera eitur til barnanna sinna, og finnstjafnvel að þeir ekki eiga skilið að eiga börn eða vilja ekki eignast þau eftir að hafa fengið fregnirnar. Við töpum oft skynseminni þegar að tilfinningarnar bera okkur ofurliði og það er ekkert óeðlilegt við slíka tilfinningu. En ég get sagt það að ég elska mömmu mína alveg jafnmikið hvort sem ég erfi eitthvert gen eftir hana eða ekki. Það á við um okkur allar systurnar. Og lífið heldur áfram ekki satt? Og ég vil svo sannarlega eignast börn í framtíðinni, ég skal ekki láta þetta hindra mig.

Ég hélt því fram að fregnirnar hefðu ekki haft nein áhrif á mig. Auðvitað er það ekki satt. Maður tekur ekki alltaf inn það sem manni er sagt fyrr en löngu eftir á. Og ég tók það út í ákveðinni reiði. Og það má sjá á færslu hér fyrir neðan. Það var fyrst þá að ég áttaði mig á að það var sorgin sem sýndi sig.

Það verður fylgst vel með mér eftir þetta og ég fer í fyrstu segulómskoðunina 3. nóvember n.k. Það virðist ekki vera algengt að krabbinn skjóti upp kollinum í fjölskyldu okkar. Auk þess er hægt að gera viðeigandi ráðstafanir ef mein finnst eða breytingar koma í ljós. Það þýðir cutting! Já, það þykir sumum vissara að taka annað eða bæði brjóstin strax af ( hvort sem það finnst mein eða ekki! En það er nú aðallega í Bandó sem konum þykja ástæða til þess að fara út í þær aðgerðir þegar engar breytingar hafa orðið) vitandi af geninu. Þar með má koma í veg fyrir upptöku krabbans þótt það þurfi drastískar aðgerðir til. Að því leyti er maður kannski ,,heppinn" að vera með þetta tiltekna gen því víðtækari varúðarráðstafanir eru íhugaðar og gerðar en ella.

Ég veit það ekki. Vildi bara deila þessu með ykkur til að fá ferskari sýn og fjarlægð á þetta mál. Það eru því miður allt of margir sem fá krabbamein og öll þekkjum við einhvern. Auðvitað skiptir stuðningur fjölskyldu og vina máli. Stundum finnst mér ég ekki hafa nægan skilning á þessu fyrirbæri til að geta stutt mömmu mína af fullum krafti. En ég er að læra. Mestu máli skipta þó viðbrögð manns sjálfs. Það er hægt að áorka miklu með jákvæðum hugsunum. Það er auðvelt að segja það þegar maður hefur ekki kynnst því að vera með krabbamein en eftir að vita að það er meiri líkur á að ég fái það en ella veit ég að viðbrögð mín gagnvart þeim fregnum skipta líka máli. Það var gott að fá útrás í stað þess að loka bara á það. Nú vonast ég bara til að öðlast frekari skilning, í krafti þessara frétta, á hvernig mömmu minni raunverulega líður. Og af henni get ég lært heilmikið og verið þar með betur undir það búin að takast á við þennan sjúkdóm. En að sjálfsögðu vona ég hið besta, fyrir hönd mín og annarrar systur minnar sem einnig hefur greinst með þessa breytingu, auk annarra í fjölskyldunni.

Móðir mín er alltaf í huga mér. Þessi færsla er þó einkum tileinkuð manneskju sem mér er mjög umhugað um þótt samband okkar hafi ekki verið mikið síðastliðin ár. Þessi kona er hjartahlýr dugnaðarforkur og húmoristi. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún tekist á við sjúkdóminn af einurð og að því er virðist óttaleysi. Ég hef aldrei heyrt hana kvarta. Þið sem þekkið til vitið öll um hverja er að ræða.
Fjölskyldan hefur verið henni stoð og stytta og ég dáist að manni hennar, rólegur og æðrulaus sem hann er. Ef hún les þessi fátæklegu orð vil ég að hún viti að ég dáist að henni, að hún veitir mér styrk og mörgum öðrum og við hugsum til hennar. Fleiri en hún getur ímyndað sér.

Jæja, ekki ætla ég að þreyta ykkur meira, því öllu má ofgera. En þessir hlutir þurfa að fá pláss líka, því um það snýst líf okkar: meðbyr og mótbyr og hvað við getum lært og öðlast með þessu tvennu. Við djókum næst. En þangað til ætla ég að leyfa mér að hugsa örlítið um hverfulleika lífsins

föstudagur, 22. október 2010

Lost in Bryan Ferry

Eitthvað við þessa senu er svo fallegt, get ekki lýst því. Og eins og í öllum karókíkeppnum syngur keppandinn frekar illa. En það er bara til að auka á ljómann.


fimmtudagur, 21. október 2010

80's Punk Rock Chick í boði Lauren

Þessi er með nóg af meiköppi og skemmtilegan hreim. Dömur sem hafa gaman af því að walk on the wild side ættu kannski fara í 80's gírinn og skella sér á Kaffibarinn svona...eða bara vera heima við með heví meiköpp og rauðvínsglas í hönd þið ráðið. Ég hugsa að ég kjósi seinni kostinn. Og les svo Cosmo með því.


Niðurskurður á framfærslu í fæðingarorlofi - hvert leiðir það okkur?

Maður reynir að halda í vitið stöku sinnum. Náttúrulega að halda viti en líka að æfa sig í að vera vitur, eða öllu heldur upplýstur, því vitur verður maður ekki fyrr enn maður er orðinn ellismellur í saumó og ryður upp úr sér spakmælunum og góðum ráðum fyrir þá sem vilja hlusta. Líka fyrir þá sem vilja ekki hlusta.

Ég er semsagt að lesa bókina Holdafar-hagfræðileg greining. Ég á auðvitað fullt í fangi með þessi hagfræðilegu hugtök sem koma fyrir í bláum kössum svona inn á milli til aukins skilnings. Ég fékk líka 5 og 6 í þessum tveimur þjóðhagfræðiáföngum sem ég var í í framhaldsskóla. Ég held að þetta snúist um rökgreind. Hún er rosalega slæm hjá mér. Ég held ég sé á mörkunum að þurfa einhverja greiningu. Þetta háir mér töluvert í rökræðum, og mikið í svona pólitísku karpi. En það er nú að mestu vitleysa finnst mér, og svo hefur það reyndar eitthvað að gera með hagfræði sem, eins og ég segi, er ekki mín sterkasta hlið.

Þetta með pólitíkina liggur reyndar töluvert á mér. Ég missi mig aldrei yfir moggablogginu (les það reyndar aldrei) og ég pósta lítið svona pólitískum pistlum á feisbúkk. Það er einna helst þegar einhver fer að kalla einhvern annan hálfvita sem svona fýkur í mig. Og einhver minntist á vin sinn sem hefði til dæmis kallað forsætisráðherrann okkar ,,grásprengda lessu." Hmmm, hún er nú með hvítt hár. Og jú jú, ég hef kannski verið eitthvað fúl út í krullkrúttið Davíð Oddsson, en ég fer nú ekki með það á netið.

Ég tel mér til tekna að vera frekar hjartahlý manneskja. En ég er kannski fávís, ,,og nú spyr ég eins og fávís kona." (SÓ 2003). En maður reynir nú að lesa sér til og vera svoldið eðlilegur. Já og þykjast vita hvað maður er að segja. Ég hef td ekki hugmynd um hvar er best að skera niður í tja, velferðarkerfinu td því þar verður sennilega að skera niður eins og annarsstaðar. Mín hugmynd var faktískt sú að ef fólk fengi minni pening í fæðingarorlof þá hætti það kannski að kaupa 300.000 króna barnavagna og leikteppi sem lætur þig vita ef barnið andar ekki lengur. Auðvitað er ógeðslega dýrt að eiga barn, og ég á engan krakka. Pass. Er samt að hugsa um að gefa nokkra bleyjupakka og þurrkur í næstu sængurgjöf en ekki sætan kjól/skyrtu sem barnið vex upp úr á no time. Að því sögðu, hvað á ég að gefa tveggja ára frænku minni í afmælisgjöf?

þriðjudagur, 19. október 2010

Mér finnst gólfið best

Undanfarið hafa konur póstað undarlegum facebookstatusum þar sem að nefndir eru mismunandi staðir í húsum þeirra sem þeim finnst ,,best" að gera eitthvað. Ég var ekki alveg með á þessu og bað um útskýringu. Systir mín sendir mér því póst sem afhjúpaði leyndarmálið:

Manstu eftir leiknum sem við fórum í á síðasta ári? Þessi þar sem við sögðum í hvað lit á brjóstahaldara við værum í í augnablikinu? Markmiðið með þessum leik var að opna umræðu um brjóstakrabbamein í október. Leikurinn gekk mjög vel og við fréttum af fjölda karlmanna velta því fyrir sér hvað við værum eiginlega að gera. Hvað þessar litameldingar okkar þýddu eiginlega. Það var jafnvel skrífað um það í fréttum.Leikurinn í ár gengur út á handtöskuna þína eða veskið, hvort sem þú notar. Hvar leggur þú það frá þér þegar þú kemur heim? Þá getur þú sagt t.d. Mér finnst svefnherbergið best, þ.e.a.s. ef þú ferð oftast með veskið þangað. Settu bara þitt svar í status hjá þér og ekkert annað.
Klipptu þetta síðan út hér og sendu þetta bréf áfram til vinkvenna þinna hér á facebook. Leikurinn frá því í fyrra komst i fréttirnar. Sjáum hvað við komumst langt núna.
ATH. EKKI SETJA SVARIÐ ÞITT Í "REPLY" HÉR - SETTU ÞAÐ Á STATUSINN HJÁ ÞÉR. SENDU ÞETTA TIL ALLRA KVENNA SEM ÞÚ ÞEKKIR.
P.s. ekki segja karlkyninu frá þessu:-)

Að sjálfsögðu komu allar þessar meldingar á statusunum út eins og konunum þætti best að stunda kynlíf á viðkomandi stöðum. Nú er mér spurn hvernig í ósköpunum þetta tengist krabbameini? Þetta hljómar eins og: Við erum ungar og heilbrigðar konur (því ég held að yngri konur standi á bak við þennan gjörning) sem finnst gaman að stríða köllunum okkar með því að búa til forleik á feisbúkk fyrir villt kynlíf á gólfinu heima hjá okkur og við erum að styðja við bakið á konum sem hafa fengið brjóstakrabbamein í leiðinni.

Skil'etta ekki. Eins ganga statusar um að hvort sem brjóstin eru stór eða lítil (og meðfylgjandi teikningar) ætti að bjarga þeim öllum. Mér finnst þetta bara vísa til smekks karla á brjóstastærðum og hvað þykir tilhlýðilegt í þeim efnum, og nú má hver sem er vera ósammála mér.

Ég las erlenda grein sem ég hef nú týnt niður, sem vill meina að það sé ekkert krúttlegt við krabbamein. Auðvitað er sjálfsagt að sýna systurhug þarf þetta að snúast um "hí hí hí, konur að stríða köllunum sínum-samhug" Við erum ekki bara að bjarga brjóstum og sexúalíteti kvenna með því að styðja við krabbameinsrannsókinir. Við erum í sumum tilfellum að bjarga lífi þeirra.

Mottumars var skemmtilegur og vakti heilmikla athygli. Ég held að ég myndi svei mér þá vilja frekar rottumars svokallaðan (þar sem að skapahár kvennanna væru ekki fjarlægð í mánuð) til að verkja athygli á brjóstakrabbameini. Það snýst allavega ekki um að gera karlana þína spennta fyrir þér!

Það þarf ekki að vera með grát og gnístran tanna í baráttunni við brjóstakrabbamein, en reynum að halda okkur við efnið. Það er ekkert sexí við krabbamein og baráttan þarf að virða það.

föstudagur, 15. október 2010

Ærslafullar, eldri lesbíur að leik.

Ég er að fara að gera verkefni úr einni af minni uppáhaldsbók, Fröken Peabody hlotnast arfur. Verkið hefur ekki farið hátt á Íslandi, en því betur er Rúnar Helgi Vignisson, þýðandi, duglegur að þýða bækur allstaðar úr heiminum og hefur þýtt þessa áströlsku skáldsögu snilldarvel fyrir okkur Íslendinga. Höfundur verksins, Elizabeth Jolley, er upprunalega frá Englandi en fluttist ung til Ástralíu og nam þar hjúkrun. Hún eignaðist síðar fjölskyldu og einhvern slatta af börnum að mig minnir og var fyrirmyndarhúsmóðir. Sýn Jolley á lífið og tilveruna var þó ólík flestum. Hún Skrifar mikið um samkynhneigð, og þá sérstaklega lesbíur. Fröken Peabody hlotnast arfur er bráðsmellin lýsing á lesbíum á besta aldri í kringum 1980. Maður getur rétt ímyndað sér hversu mikið umræðan um samkynhneigð hefur breyst og Jolley tæpir raunar á tveimur tabúum: Lesbíum og kynlífi fólks komnu yfir fimmtugt. Útkoman eru því lýsingar á sjóðheitu kynlíf harðfullorðinna lesbía, sem verða þó aldrei algerlega berorðar.

Orðið lesbía kemur aldrei fyrir í bókinni. Reyndar þykir manni dálítið skrýtið að vinkonurnar þrjár, Fröken Thorne, fröken Edgely og fröken Snowdon hafi allar lesbískar tilhneigingar en kannski trúir Jolley á að fólk sé missamkynhneigt. Rúnar hitti Jolley og tók viðtal við hana og sagði að manni fyndist erfitt að trúa því að þessi vingjarnlega gráhærða kona gæti skrifað með þessum hætti. En Jolley er greinilega ekki öll þar sem að hún er séð og þrátt fyrir að gegna hefðbundnu kynhlutverki og vera móðir, tekur hún fyrir tilfinningar lesbíu sem finnst hún ekki eiga tilkall til móðurhlutverksins og reynir að beina ungum stúlkum á brautir menntunar og meninngar, allavega að allt öðru en móðurhlutverkinu. Um leið dáist hún að þeim konum sem eiga fjölskyldu og gagnkynhneigt líf. Jolley setur því spurningarmerki við hvort það sé ekki hægt að sameina fjölskyldulíf og það að vera samkynhneigður. Textinn er þó launfyndinn og það er augljóst að söguhöfundur nýtur þess að gera grín að konunum í bókinni. Mörgum gæti þótt sumir kaflar þeirra á mörkum þess að vera ósiðlegir, þar sem að fröken Thorne lætur ekki sitt eftir liggja þegar kemur að því að girnast kornunga nemendur sína í stúlknaskólanum sem hún stýrir. Við höfum öll séð myndina um Lolitu (ekki hef ég lesið bókina!), það var kominn tími á eitthvað nýtt!

Það eru tveir rauðir þræðir í bókinni að mínu mati, þótt einnig megi nefna samræðu texta og lesanda um skáldskap og menningu. Annarsvegar er það samkynhneigð og sú útskúfun sem þeir upplifa og hinsvegar nýlenda vs nýlenduherrar. Þarna skapast grundvöllur fyrir umræðu um svokölluð eftirlendufræði, http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=6135, (sorrý, man ekki lengur hvernig á að gera hyperlink!). Ástralir hafa löngum vegsamað allt frá heimalandinu, Englandi, þeir eru svolítið eins og Íslendingar, með minnimáttarkennd en reyna þó að spila sig stóra. Að eiga enga fortíð, geta ekki rakið ættir sínar nema takmarkað, hvílir þungt á þjóðinni; að vera kominn af nafnlausum föngum hjálpar ekki upp á sjálfsmynd þjóðarinnar. Fröken Thorne elskar allt sem evrópskt er og hún raunar elskar hið hefðbundna. Vandinn er bara sá að hún veit innst inni að þjóðerni hennar og kynhneigð stríðir gegn hinu svokallaða normi.

En þið verðið bara að lesa bókina og hér kemur ,,teaser" æsispennandi erótískt sturtu-/baðatriði á milli fröken Thorne og fröken Snowdon:

-Ó æðislegt Prickles!
Fröken Snowdon notar oft málfar skólastelpna þegar hún er með fröken Thorne [...]

-Ó frábært Prickles! Í vatnsslag! O, svo sannarlega! Komdu! Ég verð á undan þér!

-Þetta eru mjög laglegar flísar hérna á baðinu. Góður kraftur á vatninu líka.
-Mmm já. Kynæsandi. Heldur betur. Þetta er vitfirring mín kæra!

-Vitfirring! En gerðu það, haltu áfram!

-Höfum vatnið pínulítið heitara. Ah! þetta er allt annað. Ó, sjúkt! Prickles! Á ég að þvo þér?

-Auðvitað máttu gera það aftur. Eins og oft og þú vilt. Þú dýrlega dónalega. Oh ósiðlega dýrlegt.

Svo mörg voru þau orð!

mánudagur, 11. október 2010

Að draga andann.

Eins og venjuleg kona ákvað ég að fara á Eat, pray, love með vinkonum mínum. Vinnufélagar einnar þeirra grétu víst yfir myndinni. Ég get nú ekki sagt að mér hafi verið grátur í huga, enda endaði myndin vel eftir að aðalpersónan hafði gengið í gegnum ítarlega sjálfsskoðun og lært að elska sjálfa sig svo hún gæti elskað aðra.

Já já, óttaleg froða en fékk mig til að líta til baka þegar ég hef setið einhversstaðar, heima eða að heiman, í fullkominni kyrrð og sátt við dýr og menn. Og ekki síður, sátt við sjálfa mig.

Lífið hefur liðið áfram síðustu ár án margra slíkra augnablika, margt er í móðu og margir dagar voru ekki beinlínis þrungnir lífsþorsta. Það gekk svo langt að einu sinni sagði vinkona mín sem var í skóla erlendis á þeim tíma og var að fara aftur út eftir páskafrí: ,,Í guðanna bænum, farðu nú ekki að drepa þig á meðan ég er í burtu." Hvað gerir maður án vina sinna á ögurstundum?

Í sumar átti ég hreint og beint yndislega daga í Kenýa þegar að ég fékk að vera ein heima í þrjá daga. Ég var í sjálfboðaliðavinnu og enginn mátti af mér sjá, allir urðu að passa upp á mig og ég, Íslendingurinn sem var vanur að gera hvað sem var, hvenær sem var, var gjörsamlega að kafna. Með undanbrögðum náði ég að losa mig við yfirboðara mína og eyddi þessum hreint yndislegu dögum í að gera hreint, þvo þvott og elda mat. Húsverkin héldu mér upptekinni, tíminn var ekki til og ég fékk að laga mig að hinu daglega lífi án nokkurra afskipta. Það kom fyrir að ég dæsti af ánægju því sá sem hefur verið sviptur frelsinu tímabundið, finnur hvað það er dýrmætt þegar hann öðlast það aftur.

Núna nýt ég þess að sitja heima og lesa bók eða drekka te í einsemd minni. Ég er líka svo heppin að meðleigjandi minn og vinkona hefur mjög þægilega nærveru og við getum setið í sitthvoru horninu og ýmist talað eða þagað, allt hvað hentar hverju sinni. Ég er ekki lengur hrædd við það frelsi sem felst í að vera einn. Ég var einu sinni hrædd við að vera ein með hugsunum mínum sem sögðu mér alltaf að ég ætti að vera að gera þetta og hitt. Þetta gerði það að verkum að ég breytti hugsununum í mók og ýtti frá mér verkefnum. Ég deyfði mig með því að forðast heiminn, forðast lífið og forðast sjálfa mig.

Það er ekki þar með sagt að ég hafi öðlast einskonar ,,nirvana." Líf mitt verður aldrei fólgið í að biðja, borða og elska að hætti Juliu Roberts (þótt þetta komi nú eitthvað við sögu) en vonandi öðlast ég hugarró og það með fullri meðvitund. Nú til dags koma því betur þau augnablik þar sem ég halla mér aftur í stólnum, dreg andann djúpt og þakka fyrir að vera hér. Ein með sjálfri mér.

mánudagur, 4. október 2010

Merki og borðbúnaður.

Ég vissi ekki að forsætisráðherra ætlaði að halda stefnuræðu í kvöld og nú má hver sem er hneykslast. Það fyrsta sem ég hugsaði var ,,Æi, þetta tekur yfir alla sjónvarpsdagskrána." Svo áttu að vera mótmæli, puff. Við Ásthildur, meðleigjandi minn, skelltum okkur niðrí bæ í þeim tilgangi að kíkja á stemmarann og fá okkkur ís. Við sáum lítið. Reyndar hófst flugeldasýning þegar við vorum vel á veg komnar á Laugaveginum. Svo sáum við eld og einhvern rauðan fána, sem ég giskaði á að væri kommúnistafáninn og ætti að brenna við mikla viðhöfn. Við tókum myndir af okkur, allt í þágu erlendra vina á facebook, thumbs up við löggubíl í Austurstrætinu og enduðum túrinn á ís með súkkulaðidýfu.

Nú heyri ég malið í umræðunum á Alþingi, búin að rífa úr mér heyrnartækin og hugsa minn gang. Þegar ég hafði lokið við að skrifa fyrirsögnina hér að ofan, kallaði Ástý í mig og sagði að fáninn rauði væri faktískt af Che Guevara og síður en svo á leiðinni í eldinn.

Ókei.

Ég ætla svosem ekkert að fara að þusa um hvað Íslendingar eru vitlausir, þeir eru ekki vitlausari en hverjir aðrir. Við erum eins og við erum af ákveðnum ástæðum. Ísland er vel stæð Vesturlandaþjóð, velferðarríki. Ja kannski erum við ekki mjög vel stæð núna, en einhvernveginn virðist nú fólk hafa í sig og á. Ég man þegar að Mímí systir kom frá Kólumbíu um árið eftir eins árs dvöl. Hún sagðist hafa farið í Kringluna og fengið sjokk. Allt fékk aðra merkingu. Þegar hún sá viðtal við konu sem klæddist pels fyrir utan Fjölskylduhjálp og taldi sig eiga um sárt að binda fékk hún líka sjokk. Er það brútal að hneykslast? Ég veit það ekki, ég hef aldrei verið í þeim sporum að þurfa að standa í röð og þiggja matargjafir. En sá möguleiki er fyrir hendi hér á landi. Ríkisstjórnin er vanhæf vegna ummæla síðustu daga. Fyrrverandi stjórnarflokkar eru vanhæfir vegna þess að þeir eru búnir að gleyma að hrunið varð undir þeirra stjórn. Auðvitað er ástandið slæmt, en ekki flagga fána af frelsishetju þjóðar þar sem að blessuð Fjölskylduhjálpin er gott sem engin.

Fyrrnefnd systir mín segist ekki skilja fólk sem hugsar mest um merkjavöru og borðbúnað. Margir Íslendingar hafa áhuga á slíku en fæstir þeirra ættu hinsvegar að hafa efni á því þessa dagana. Ég veit svosem að mótmælendur margir hverjir eru kannski ekki mikið að spá í borðbúnað þessa dagana, en mamma þeirra á kannski Georg Jensen og það hefur alltaf þótt eðlilegt.

Er ekki allt í lagi að hafa ekki efni á óþarfa? Ég meina, allavega í smástund.

sunnudagur, 3. október 2010

Brúðkaup og jarðarfarir

Stundum erum við svo hrædd um að lífið skilji okkur eftir í einsemd okkar að við missum af aðalatriðum þess. Já eða kannske hinu smáa sem einkennir það. Gömul klisja og vel þekkt en hvers vegna ekki að minnast hennar af og til. Ég horfði á hina vel þekktu, og jú svolítið klisjukenndu (en klisjur eru góðar og í rauninni sannar, þess vegna koma þær svona oft fyrir) með öðru auganu í gær. Þar er Hugh Grant í því hlutverki sem hann síðar festist í áður en hann umbreyttist í hlutverki skíthælsins, semsagt feiminn og undirleitur en óneitanlega sjarmerandi í vandræðagangi sínum. Hann verður ástfanginn af hinni afar ósjarmerandi Carrie, sem er ábyrgðarlaus með öllu og teymir hann á asnaeyrunum allan tímann, en hún er samt gellan í myndinni og hlýtur hinn seinheppna Hugh Grant að lokum. Á meðan má hin kuldalega en ógeðslega töff Kristin-Scott Thomas, í hlutverki Fionu, lúta í lægra haldi fyrir þessari amerísku drós, en hún hefur verið ástfangin af Charles í fleiri ár. Reyndar er rosa gott að þau tóku ekki saman því hún þarf öllu ákveðnari mann og hressilegri.

Ó, en hversu fallegir eru ekki hinir karakterarnir, hin leitandi og svoldið lost Scarlett, áðurnefnd Fiona, hinn seinheppni en raunsæi David og síðast en ekki síst, parið Matthew og Gareth sem eru þeir einu af vinunum í upphafi myndarinnar sem hafa fundið sanna ást í hvor (Hvorum? Endilega leiðréttið) öðrum. Að sjálfsögðu þarf sú ást að líða fyrir fráfalls hins gassalega og bráðskemmtilega Gareths, sem hlýtur bíræfna en afskaplega fallega athöfn fyrir tilstilli maka hans, Matthew.

Eins og allir aðdáendur myndarinnar muna er tilfinningaþrungnasta atriði hennar þegar Matthew fer með ljóð W.H. Auden, Funeral Blues, í jarðarför Gareths. Hér kemur ljóðið í heild sinni í fallegri golu þessa sunnudags. Sorrý hvað ég er væmin, það gerir þessi kvikmynd sem allir verða að sjá, líka þeir sem halda sig of kaldhæðna og listræna til þess.

Funeral Blues

Stop all the clocks, cut off the telephone,
Prevent the dog from barking with a juicy bone,
Silence the pianos and with a muffled drum
Bring out the coffin, let the mourners come.

Let aeroplanes circle moaning overhead
Scribbling in the sky the message He Is Dead,
Put crêpe bows round the white necks of the public doves,
Let the traffic policemen wear black cotton gloves.

He was my North, my South, my East and West,
My working week and my Sunday rest,
My noon, my midnight, my talk, my song;
I thought that love would last forever: I was wrong.

The stars are not wanted now; put out everyone;
Pack up the moon and dismantle the sun;
Pour away the ocean and sweep up the wood;
For nothing now can ever come to any good.