föstudagur, 15. október 2010

Ærslafullar, eldri lesbíur að leik.

Ég er að fara að gera verkefni úr einni af minni uppáhaldsbók, Fröken Peabody hlotnast arfur. Verkið hefur ekki farið hátt á Íslandi, en því betur er Rúnar Helgi Vignisson, þýðandi, duglegur að þýða bækur allstaðar úr heiminum og hefur þýtt þessa áströlsku skáldsögu snilldarvel fyrir okkur Íslendinga. Höfundur verksins, Elizabeth Jolley, er upprunalega frá Englandi en fluttist ung til Ástralíu og nam þar hjúkrun. Hún eignaðist síðar fjölskyldu og einhvern slatta af börnum að mig minnir og var fyrirmyndarhúsmóðir. Sýn Jolley á lífið og tilveruna var þó ólík flestum. Hún Skrifar mikið um samkynhneigð, og þá sérstaklega lesbíur. Fröken Peabody hlotnast arfur er bráðsmellin lýsing á lesbíum á besta aldri í kringum 1980. Maður getur rétt ímyndað sér hversu mikið umræðan um samkynhneigð hefur breyst og Jolley tæpir raunar á tveimur tabúum: Lesbíum og kynlífi fólks komnu yfir fimmtugt. Útkoman eru því lýsingar á sjóðheitu kynlíf harðfullorðinna lesbía, sem verða þó aldrei algerlega berorðar.

Orðið lesbía kemur aldrei fyrir í bókinni. Reyndar þykir manni dálítið skrýtið að vinkonurnar þrjár, Fröken Thorne, fröken Edgely og fröken Snowdon hafi allar lesbískar tilhneigingar en kannski trúir Jolley á að fólk sé missamkynhneigt. Rúnar hitti Jolley og tók viðtal við hana og sagði að manni fyndist erfitt að trúa því að þessi vingjarnlega gráhærða kona gæti skrifað með þessum hætti. En Jolley er greinilega ekki öll þar sem að hún er séð og þrátt fyrir að gegna hefðbundnu kynhlutverki og vera móðir, tekur hún fyrir tilfinningar lesbíu sem finnst hún ekki eiga tilkall til móðurhlutverksins og reynir að beina ungum stúlkum á brautir menntunar og meninngar, allavega að allt öðru en móðurhlutverkinu. Um leið dáist hún að þeim konum sem eiga fjölskyldu og gagnkynhneigt líf. Jolley setur því spurningarmerki við hvort það sé ekki hægt að sameina fjölskyldulíf og það að vera samkynhneigður. Textinn er þó launfyndinn og það er augljóst að söguhöfundur nýtur þess að gera grín að konunum í bókinni. Mörgum gæti þótt sumir kaflar þeirra á mörkum þess að vera ósiðlegir, þar sem að fröken Thorne lætur ekki sitt eftir liggja þegar kemur að því að girnast kornunga nemendur sína í stúlknaskólanum sem hún stýrir. Við höfum öll séð myndina um Lolitu (ekki hef ég lesið bókina!), það var kominn tími á eitthvað nýtt!

Það eru tveir rauðir þræðir í bókinni að mínu mati, þótt einnig megi nefna samræðu texta og lesanda um skáldskap og menningu. Annarsvegar er það samkynhneigð og sú útskúfun sem þeir upplifa og hinsvegar nýlenda vs nýlenduherrar. Þarna skapast grundvöllur fyrir umræðu um svokölluð eftirlendufræði, http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=6135, (sorrý, man ekki lengur hvernig á að gera hyperlink!). Ástralir hafa löngum vegsamað allt frá heimalandinu, Englandi, þeir eru svolítið eins og Íslendingar, með minnimáttarkennd en reyna þó að spila sig stóra. Að eiga enga fortíð, geta ekki rakið ættir sínar nema takmarkað, hvílir þungt á þjóðinni; að vera kominn af nafnlausum föngum hjálpar ekki upp á sjálfsmynd þjóðarinnar. Fröken Thorne elskar allt sem evrópskt er og hún raunar elskar hið hefðbundna. Vandinn er bara sá að hún veit innst inni að þjóðerni hennar og kynhneigð stríðir gegn hinu svokallaða normi.

En þið verðið bara að lesa bókina og hér kemur ,,teaser" æsispennandi erótískt sturtu-/baðatriði á milli fröken Thorne og fröken Snowdon:

-Ó æðislegt Prickles!
Fröken Snowdon notar oft málfar skólastelpna þegar hún er með fröken Thorne [...]

-Ó frábært Prickles! Í vatnsslag! O, svo sannarlega! Komdu! Ég verð á undan þér!

-Þetta eru mjög laglegar flísar hérna á baðinu. Góður kraftur á vatninu líka.
-Mmm já. Kynæsandi. Heldur betur. Þetta er vitfirring mín kæra!

-Vitfirring! En gerðu það, haltu áfram!

-Höfum vatnið pínulítið heitara. Ah! þetta er allt annað. Ó, sjúkt! Prickles! Á ég að þvo þér?

-Auðvitað máttu gera það aftur. Eins og oft og þú vilt. Þú dýrlega dónalega. Oh ósiðlega dýrlegt.

Svo mörg voru þau orð!

1 ummæli:

ingibjorgosp sagði...

Spurningin um hvort það sé hægt að sameina fjölskyldulíf og það að vera samkynhneigður er líka rauður þráður í minni bók!