mánudagur, 4. október 2010

Merki og borðbúnaður.

Ég vissi ekki að forsætisráðherra ætlaði að halda stefnuræðu í kvöld og nú má hver sem er hneykslast. Það fyrsta sem ég hugsaði var ,,Æi, þetta tekur yfir alla sjónvarpsdagskrána." Svo áttu að vera mótmæli, puff. Við Ásthildur, meðleigjandi minn, skelltum okkur niðrí bæ í þeim tilgangi að kíkja á stemmarann og fá okkkur ís. Við sáum lítið. Reyndar hófst flugeldasýning þegar við vorum vel á veg komnar á Laugaveginum. Svo sáum við eld og einhvern rauðan fána, sem ég giskaði á að væri kommúnistafáninn og ætti að brenna við mikla viðhöfn. Við tókum myndir af okkur, allt í þágu erlendra vina á facebook, thumbs up við löggubíl í Austurstrætinu og enduðum túrinn á ís með súkkulaðidýfu.

Nú heyri ég malið í umræðunum á Alþingi, búin að rífa úr mér heyrnartækin og hugsa minn gang. Þegar ég hafði lokið við að skrifa fyrirsögnina hér að ofan, kallaði Ástý í mig og sagði að fáninn rauði væri faktískt af Che Guevara og síður en svo á leiðinni í eldinn.

Ókei.

Ég ætla svosem ekkert að fara að þusa um hvað Íslendingar eru vitlausir, þeir eru ekki vitlausari en hverjir aðrir. Við erum eins og við erum af ákveðnum ástæðum. Ísland er vel stæð Vesturlandaþjóð, velferðarríki. Ja kannski erum við ekki mjög vel stæð núna, en einhvernveginn virðist nú fólk hafa í sig og á. Ég man þegar að Mímí systir kom frá Kólumbíu um árið eftir eins árs dvöl. Hún sagðist hafa farið í Kringluna og fengið sjokk. Allt fékk aðra merkingu. Þegar hún sá viðtal við konu sem klæddist pels fyrir utan Fjölskylduhjálp og taldi sig eiga um sárt að binda fékk hún líka sjokk. Er það brútal að hneykslast? Ég veit það ekki, ég hef aldrei verið í þeim sporum að þurfa að standa í röð og þiggja matargjafir. En sá möguleiki er fyrir hendi hér á landi. Ríkisstjórnin er vanhæf vegna ummæla síðustu daga. Fyrrverandi stjórnarflokkar eru vanhæfir vegna þess að þeir eru búnir að gleyma að hrunið varð undir þeirra stjórn. Auðvitað er ástandið slæmt, en ekki flagga fána af frelsishetju þjóðar þar sem að blessuð Fjölskylduhjálpin er gott sem engin.

Fyrrnefnd systir mín segist ekki skilja fólk sem hugsar mest um merkjavöru og borðbúnað. Margir Íslendingar hafa áhuga á slíku en fæstir þeirra ættu hinsvegar að hafa efni á því þessa dagana. Ég veit svosem að mótmælendur margir hverjir eru kannski ekki mikið að spá í borðbúnað þessa dagana, en mamma þeirra á kannski Georg Jensen og það hefur alltaf þótt eðlilegt.

Er ekki allt í lagi að hafa ekki efni á óþarfa? Ég meina, allavega í smástund.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Segi nú bara eins og Sasú í Konungi ljónanna: "Orð í tíma töluð!" :-)Ég ætla nú ekki að telja mig neitt betri manneskju en annað fólk. En þegar maður hefur horft upp á lítil börn í límvímu, gamalt fólk og fatlaða betla peninga á götum Bogotá þar sem einkavæðing og kapitalismi ræður ríkjum, þá verður fínn borðbúnaður ansi lítils virði. Og ég leyfi mér líka að finnast fólk asnalegt sem keyrir um á fínum jeppum og gengur í merkjafötum tala um að nú sé mál að hópast niður á Austurvöll til þess að mótmæla bágum kjörum. Ég leyfi mér að finnast það hræsni eins og ég tel hræsni af því sama fólki að vilja endurvekja fyrri stjórnvöld sem komu hinum, sem eiga kannski erindi á Austurvöll, í fjárhagslegar kröggur en makaði sjálft krókinn.
En ég er bara kennarabarn úr sveit sem fór í eitt ár til Kólombíu fyrir löngu og á aðallega borðbúnað úr Þorsteini Bergmann... hvað veit ég? :-)
Hlakka samt til að sjá myndir úr þessari viðburðaríku ísferð :-)

Mímí sagði...

Ég ætla nú seint að kvitta hér nafnlaust! Smá tæknilegir örðuleikar :-) Tek fulla ábyrgð á áðurpóstuðu kommenti :-)

ingibjorgosp sagði...

Ég vildi óska þess að fólk gæti horft meira á raunveruleikann og gleymt óraunveruleikanum um stund. Bara svona til þess að halda geðheilsu!

Raunveruleikinn er sá að það er til matur handa öllum, öll börn fá að fara í skóla og það er til húsaskjól handa öllum.

Óraunveruleikinn er hins vegar sá að fólk á minna eða jafnvel ekkert í húsunum sem það greiddi aldrei fyrir, það á ekki bílana sína og margir hverjir eru með meiri skuldir en þeir geta borgað.

Þennan óraunveruleika er ekki stærri en það að hægt sé að breyta með einu pennastriki. En er það rétt spurja menn og um það er þráttað.

En á meðan lifum við ennþá í raunveruleikanum. Ég held að að sé best að rækta bara garðinn sinn.