fimmtudagur, 21. október 2010

Niðurskurður á framfærslu í fæðingarorlofi - hvert leiðir það okkur?

Maður reynir að halda í vitið stöku sinnum. Náttúrulega að halda viti en líka að æfa sig í að vera vitur, eða öllu heldur upplýstur, því vitur verður maður ekki fyrr enn maður er orðinn ellismellur í saumó og ryður upp úr sér spakmælunum og góðum ráðum fyrir þá sem vilja hlusta. Líka fyrir þá sem vilja ekki hlusta.

Ég er semsagt að lesa bókina Holdafar-hagfræðileg greining. Ég á auðvitað fullt í fangi með þessi hagfræðilegu hugtök sem koma fyrir í bláum kössum svona inn á milli til aukins skilnings. Ég fékk líka 5 og 6 í þessum tveimur þjóðhagfræðiáföngum sem ég var í í framhaldsskóla. Ég held að þetta snúist um rökgreind. Hún er rosalega slæm hjá mér. Ég held ég sé á mörkunum að þurfa einhverja greiningu. Þetta háir mér töluvert í rökræðum, og mikið í svona pólitísku karpi. En það er nú að mestu vitleysa finnst mér, og svo hefur það reyndar eitthvað að gera með hagfræði sem, eins og ég segi, er ekki mín sterkasta hlið.

Þetta með pólitíkina liggur reyndar töluvert á mér. Ég missi mig aldrei yfir moggablogginu (les það reyndar aldrei) og ég pósta lítið svona pólitískum pistlum á feisbúkk. Það er einna helst þegar einhver fer að kalla einhvern annan hálfvita sem svona fýkur í mig. Og einhver minntist á vin sinn sem hefði til dæmis kallað forsætisráðherrann okkar ,,grásprengda lessu." Hmmm, hún er nú með hvítt hár. Og jú jú, ég hef kannski verið eitthvað fúl út í krullkrúttið Davíð Oddsson, en ég fer nú ekki með það á netið.

Ég tel mér til tekna að vera frekar hjartahlý manneskja. En ég er kannski fávís, ,,og nú spyr ég eins og fávís kona." (SÓ 2003). En maður reynir nú að lesa sér til og vera svoldið eðlilegur. Já og þykjast vita hvað maður er að segja. Ég hef td ekki hugmynd um hvar er best að skera niður í tja, velferðarkerfinu td því þar verður sennilega að skera niður eins og annarsstaðar. Mín hugmynd var faktískt sú að ef fólk fengi minni pening í fæðingarorlof þá hætti það kannski að kaupa 300.000 króna barnavagna og leikteppi sem lætur þig vita ef barnið andar ekki lengur. Auðvitað er ógeðslega dýrt að eiga barn, og ég á engan krakka. Pass. Er samt að hugsa um að gefa nokkra bleyjupakka og þurrkur í næstu sængurgjöf en ekki sætan kjól/skyrtu sem barnið vex upp úr á no time. Að því sögðu, hvað á ég að gefa tveggja ára frænku minni í afmælisgjöf?

9 ummæli:

Júlí sagði...

Þórunn mín þó þetta sé kallað fæðingarorlof þá er það ekki einungis ætlað til að framfleyta barninu, heldur kemur það í staðinn fyrir laun viðkomandi á meðan hann er heima að sinna barninu. Ég hef ekki trú á því að nokkur sem þarf að lifa á fæðingarorlofinu geti leyft sér að kaupa 300.000 kr. barnavagn, en ég er að fá hámarksfæðingarorlof, en er samt að fá helmingi minna útborgað núna heldur en áður en ég fór í fæðingarorlof eða um 160.000 kr. ég reyndar dreifði mínu 6 mánaða fæðingarorlofi á 9 mánuði, en hefði verið að fá um 220.000 kr ef ég hefði ekki gert það. Á þessum kr. þarf ég að framfleyta 4 manna fjölskyldu og hefur þetta því talsverð áhrif á fjárhag heimilisins þar sem innkoman minnkar um helming þar sem ég er eina fyrirvinnan, en útgjöldin eru þau sömu, auk kostnaðar við bleyjur og blautklúta. Ég kvarta þó ekki því ég er það heppin að hafa ávallt verið skynsöm í fjármálum og bý svo vel að vera ekki með himinhá húsnæðislán eða háa leigu til að borga og við náðum að koma okkur upp smá varasjóð áður en Daníel fæddist svo við náum að halda okkur á floti, en það má ekki mikið koma upp á. En það eru alls ekki allir sem búa svo vel að eiga varasjóð og ódýrt húsnæði, því það er bara mjög sjaldgæft í dag og því ansi margir sem geta ekki lifað á fæðingarorlofinu einu saman og hvað þá ef það á að fara að skerða það enn frekar, en þess má geta að það hefur verið skert árlega síðan 2007 og því tel ég tímabært að leita niðurskurðar annars staðar.

Mímí sagði...

Held að rökgreindin hafi alls ekki lent hjá mér! Þetta háir mér líka talsvert í öllum pólitískum umræðum, það virðist nefnilega ekki vera nóg að segja alltaf bara "já en mér bara finnst það" sem er þó auðvitað kjarni málsins ekki satt? En á hinn bóginn tel ég að með mikilli rökgreind þá tapirðu annarri greind og verðir bara einhver Sigurður Kári með endalausa Morfís-takta og það þolir náttúrlega enginn maður.... já eða ekki ég allavega.... og af hverju... jú af því að mér finnst það bara! :-)

Varðandi fæðingarorlof þá þykir mér einna leiðinlegast að með því að skera það niður þá tapast ákveðinn sigur sem okkur hafði áunnist varðandi að feður sinntu loksins skyldum sínum og vildu, já eða höfðu loks efni á að, fara í fæðingarorlof. Á hinn bóginn ef nauðsyn þykir að skera þar niður þá er eðlilegast að skera niður fyrst hjá þeim sem mest hafa og ég verð að segja Júlí að 220 þús á mánuði í fæðingarorlofi er ekki slæmt! Það að vera eina fyrirvinnan í fæðingarorlofi með 220 þús á mánuði dreift á 9 mánuði er val ekki satt?
Verst þykir mér að þurfa að vera skera niður yfirleitt í velferðarkerfinu en þegar fólk kýs yfir sig fégráðugt, sjálfselskt lið með enga samvisku sem hleður undir rassinn á samskonar fólki aftur og aftur þá er þetta útkoman!

Annars yrði tveggja ára frænkan glöð með hvað sem er og hún leggur lítið upp úr merkjum og kostnaði :-)

Þórunn sagði...

Já, ég á náttúrulega ekki börn eins og ég segi, og ber ekki ábyrgð á neinu. Ég slæ þessu kannski fram eins og ég sé barnaleg og einföld og hafi enga samúð með barnafólki, en það er nóg af börnum í kringum mig til að ég átti mig nokkurnveginn á að vegna þeirra þarf ýmsu að fórna og þau þarf að fæða og klæða. Hinsvegar hef ég heyrt frá foreldri sem finnst þessi niðurskurður ekki það fráleitur. En hér koma einungis fram hugmyndir um eitt og annað sem engin rannsókn hefur farið fram á sérstaklega, bara það sem mér finnst blasa við hverju sinni, þ.e. í huga mínum. Því miður verður að skera niður allstaðar, spurningin er bara hvar. Það eina sem ég á við er að ef til vill mun fólk hugsa sig tvisvar um áður en það tekur 100% íbúðalán (sem er nottla ekki í boði núna) og steypir sér í skuldir og ákveða svo að eignast barn ofan á allt saman. Auðvitað er barn einstök gjöf og fólksfjölgun er ekki síður hagfræðilega ábatasöm. Mig langar bara að fólk átti sig á forgangsröðuninni stundum. Þjóðfélagið krefst harkalegra breytinga núna og þar kemur niður á flestu. Allur niðurskurður er mjög sár og nú verður ráðist á mörg heilög vé. Hvar sem niðurskurðurinn verður þá verður sjúkleg reiði og svo kannski viðhorfsbreyting. Það sem ég velti fyrir mér í allri bölsýninni; munu einhverjar jákvæðar breytingar eiga sér stað á viðhorfi fólks sem leiða til þess að þjóðfélaginu verði breytt innan frá? Það tek ég skýrt fram að það sem ég segi núna gæti mælst alveg mjög illa fyrir, enda tala ég almennt og alls ekki um ykkur tvær ;) en... stundum er ég hrædd um að eigingirni fólks leiði til ótímabærra barneigna. Þetta kemur kannski fæðingarorlofi ekkert við, heldur meira því að vera undirbúinn fjárhagslega undir það að annast lifandi veru. Fólk langar oft svo í börn og fallegt heimili og yndislegan maka að það gleymir að til þess þarf sterka undirstöðu, andlega sem og fjárhagslega. Það hugsar bara að það langi sjúklega í barn, þegar það vantar kannski lífsfyllingu á meðan það kemur undir sig fótunum.
Eins og ég segi þá er ég ekki vel að mér í stjórnmálum og lögum. Ég einbeiti mér mest að mentaliteti og því að það sem reynist neikvætt leiði til heilbrigðara viðhorfs.

Þórunn sagði...

Og jú Júlí, þú varst skynsöm að koma þér upp varasjóði en því miður gera það víst ekki allir :/

Júlí sagði...

Já það er mikið rétt það þarf því miður að skera ýmislegt niður og ef rétt þykir að skera fæðingarorlofið niður í 4 sinn á jafnmörgum árum, þá verður svo að vera. En mér fannst eins og þú teldir að fæðingarorlofið væri himinhátt og vel til þess fallið að missa sig í eyðslu á alls kyns óþarfa og vildi því leiðrétta þann misskilning :) Það eru auðvitað alltaf einhverjir sem missa sig í eyðslu á alls kyns vitleysu, en ég held að lækkun á fæðingarorlofinu muni nú ekki bjarga miklu þar, því í dag þarf ekkert að eiga fyrir neinu, þú borgar bara með visa og þegar reikningurinn kemur þá læturðu skipta honum á nokkra mánuði eða hækkar bara yfirdráttinn til að borga reikninginn og þegar yfirdrátturinn verður orðinn of hár þá tekurðu bara lán til að borga hann niður og byrjar svo ruglið upp á nýtt. Ég tek það fram að ég hef aldrei lifað svona og ætla mér ekki, enda vil ég almennt eiga fyrir því sem ég kaupi mér og ekki stofna til óþarfa skulda. En þegar ég vann í bankanum sá ég sorglega mikið af fólki sem hagaði sér svona.

Ég tek svo undir með Mímí að það er sorglegt að með þessum eilífa niðurskurði á fæðingarorlofinu þá eru margir feður sem nýta sér ekki rétt sinn til fæðingarorlofs og þar með tapast ákveðinn áfangi í jafnréttisbaráttunni. En það má heldur ekki gleyma því að margar mæður fara líka fyrr út á vinnumarkaðinn en ella þar sem þær hafa ekki efni á því að lengja fæðingarorlofið og njóta þess að vera lengur heima með, því það eru ekki allir jafn heppnir og ég og þurfa því að reyna að koma barninu fyrir hjá dagmömmu aðeins 6 mánaða gömlu (sem er held ég ekki leikur einn).

En auðvitað er þetta alltaf val og ef maður er að skipuleggja barneignir þá þarf að hugsa fram í tímann og reyna að haga því þannig að maður hafi tök á því að sinna krílinu þegar það mætir á svæðið og gerði ég það. Enda kvarta ég ekki en það eru ekki allir svo vel settir. Því börnin eiga það til að koma óvænt undir og þá er ekki mikill tími til að koma sér upp varasjóð. Svo verður líka að taka með í reikninginn að stundum er fólk búið að skipuleggja hlutina miðað við ákveðnar forsendur sem svo breytast, t.d. hefur það gerst að fæðingarorlofið hefur verið skert með stuttum fyrirvara, en sú ákvörðun var held ég tekin í nóvember og tók gildi í janúar og hefur eflaust sett plön margra úr skorðum því það er erfitt að hætta við þegar maður er komin einhverja mánuði á leið ;) En sama hvernig fer með þetta blessaða orlof þá mun ég nú ekki láta það koma í veg fyrir að ég stofni fjölskyldu, en það gæti þó kannski stöðvað einhverja og við endað eins og sumar þjóðir í dag sem eru farnar að styrkja fólk fjárhagslega til að eiga börn því fæðingartíðnin er orðin svo lág, því það má ekki gleyma að eins og þú segir þá er fólksfjölgun hagfræðilega ábatasöm. :)

Þórunn sagði...

Vel athugað Júlí. Málin geta svo sannarlega snúist við og allt breyst og svo er spurning hvort að fólk sem sér hvort sem er ekki fram úr skuldunum sjái að sér. Nú vil ég bara fá fleiri í umræðuna ;)

Halla sagði...

Mér finnst allt í lagi að skerða fæðingarorlof upp að vissu marki. Eftir þann frábæra áfanga að geta veitt feðrum meiri fæðingarorlofsrétt, þá hálftæmdist fæðingarorlofssjóður, því auðvitað fengu þeir 80% af meðallaunum sínum 6 mánuði aftur í tímann og sumir hverjir voru á afar háum launum. Mér finnst ekki í lagi að veita fólki sem er að fá mjög háar tekjur þennan fæðingarorlofsrétt, þ.e. 80% af tekjum (eða er prósentan þá orðin lægri, eða hvað?), mér finnst nauðsynlegt að hafa einhvern hatt á því, að strik sé sett við einhverja tölu, t.d. 4-500 þús eða eitthvað slíkt. Þá er ég að meina að allir fengju fæðingarorlof, óháð tekjum, en ekki hærra en einhver ákveðin upphæð. Nú átta ég mig þó á þeirri staðreynd að fólk með hærri tekjur er þá gjarnan með hærri greiðslubyrði í takt við það, getur leyft sér að skipta lánum á styttri tíma o.s.frv. en engu að síður, þá er það einstaklingsins að bjarga, en ekki þjóðarinnar. Er ekki fæðingarorlofssjóður annars á vegum ríkisins, hvernig er það?

Júlí, ég fékk 80 þús kr. á mánuði í fæðingarorlof árið 2003, var mjög heppin að búa ódýrt og vera ekki með neinar skuldir á herðunum. Mitt barn kom svona skemmtilega óvænt og ég hafði ekki tök á því að safna mér fyrir einu eða neinu. Ég er sammála því að fólk mætti oft hugsa lengra fram í tímann varðandi barneignir, Íslendingar virðast bara lifa allsvakalega mikið eftir mottóinu: Þetta reddast! Það er samt af því að þjóðfélagið býður upp á það. Það er mjög lítið mál að fá hærri yfirdrátt, dreifa VISA- reikningum, fá raðgreiðslulán o.s.frv. og þar með er mjög þægilegt að skella sér í þessa skuldasúpu og það er ekki einu sinni neitt sem fólk skammast sín fyrir, því það eru allir aðrir líka skuldugir upp fyrir haus. Ég er sjálf vel skuldug og á þó engar eignir, sem er allsvakalega sorglegt!

Þórunn sagði...

Mjög gott innlegg Halla. Mér finnst einmitt að eitt mætti ganga yfir alla. Og æi, ég vorkenni ekkifólki sem er með geðveikt háa greiðslubyrði af því að það er svo gráðugt! Okei ég skal ekki vera svona svarthvít og fordómafull, ég er sjálf skuldug upp fyrir haus en ég eyddi mínum peningum (eða ekki peningum!)í lífsreynslu og því sé ég ekki eftir. Mér finnst bara lífsgæðahlaupið svo sorglega mikið stundum og finnst eins og það að eiga barna sé lífsstíll sumra, eins og að eiga Benz og fullt af Iittala hlutum. Mér finnst reyndar Iittala mjög flott...

Ég hef alltaf dáðst að þér Halla mín með hann Jónatan og hvað þú virðist seiglast við að ná endum saman. Þú kemur auga á skemmtilegar og ódýrar lausnir þegar kemur að gjöfum til dæmis og ert dugleg að elda og baka og oft ekki úr alltof dýrum hráefnum. Mig langar bara að sjá annan hugsunarhátt, en auðvitað þarf fólk að fæða sig og klæða. Svo vil ég ekki predika nema til hálfs, en finnst gaman að fá mismunandi skoðanir ;)

Halla sagði...

Takk Þórunn, ég gæti nú reyndar staðið mig betur, get verið frekar mikill hræsnari stundum, að mér finnst...kvarta yfir peningaleysi en skelli mér svo á djammið...hmmm, en það er þó ekki svo oft...