laugardagur, 25. desember 2010

Kærleikur í verki.

Óska öllum lesendum gleðilegra jóla, friðar og gleði á næstkomandi ári. Takk fyrir lesninguna og ég vona að sem flestir kíki við árið 2011, sem verður mega ár. Bloggið kemur áfram við á vettvangi sjálfskoðunar, enda mikið áhugamál hjá mér, það er að segja ég sjálf, einnig er ætlunin að koma við á ýmsum stöðum hugvísinda, aðallega það sem við getum rakið beint til breytni okkar mannfólksins. Það er að segja hagnýta lífsspeki ;)

Ég ætla að gefa ykkur hugmynd um hugmynd sem verður vonandi að veruleika núna strax á nýju ári. Ætlunin er að halda söfnun fyrir stelpuna mína hana Paranai, sem bjó með mér úti í Kenýa þegar ég dvaldi þar síðastliðið sumar. Hún er fjórtán ára gömul og byrjar í framhaldsskóla núna í febrúar og ætlunin er að styrkja hana til náms. Ég ætla að deila með ykkur sögu Paranai og reynslu minni af kynnum mínum við hana. Hún er einstök stúlka sem á allt gott skilið. Vonandi kemst hún hingað til Íslands einhverntíma svo einhver ykkar getið fengið að kynnast henni.

Söfnunin verður með ýmsum hætti og vona ég að sem flestir taki þátt, hvort sem þeir auglýsi hana, gefi ýmsa muni, sem ætlunin er að selja á sérstökum basar, eða styrki stúlkuna beint með peningagjöfum. Ætlunin er um leið að vekja fólk til umhugsunar um kröpp kjör fólks um allan heim, sem mun vonandi leiða huga okkar frá eigin vandræðum og hvetja okkur til að rétta þeim sem eru mun verr staddir hjálparhönd. Breyttur hugsunarháttur í þessa hátt mun hjálpa okkur Íslendingum að ég held. Við öðlumst vitneskju um hvað er mikilvægt og hvað ekki og hvernig við getum, með því að lesa litla sögu af lítilli stúlku með stórt hjarta, farið að hugsa um hvert annað. Þrátt fyrir okkar kreppu eigum við svo miklu meiri von en margir þarna úti og með okkar frægu sjálfsbjargarviðleitni ættu allar dyr að standa okkur opnar. Gleymum því ekki hvað við erum heppin.

Með þessum hugleiðingum sendi ég jólakveðjur til ykkar allra. Geymum jólaandann í hjörtum okkar allt árið, líka í janúar og febrúar þótt kreditkortareikningurinn láti ekki að sér hæða ;)Ekki er allt metið til fjár og hægt er að taka þátt í söfnuninni með ýmsum hætti.

Takk fyrir árið 2010. Hlakka til að heyra í ykkur á næsta ári.

Þórunn

mánudagur, 13. desember 2010

Jólafrí bloggsins.

Nú fer bloggið mitt í smá jólafrí en kemur sterkt inn á nýju ári með ýmsum nýjungum, svo ég tali nú ekki um minni sjálfsvorkunn. Húrra fyrir 2011!

Kveðja,
Lóbuskott.

föstudagur, 10. desember 2010

Hvað sem má segja um Boy George...

Inni í snjókúlunni.

Stundum verðum við svo smá. Svo smá að við komumst fyrir í litlu kúlunum sem við hristum svo yfir allt fellur snjór. Þar sitjum við föst inni þar sem að snjóar af og til þegar einhver hristir kúluna og okkur líður eins og Sigurði Guðmundssyni og félögunum í Memfismafíunni. Snjórinn sest á kinnar okkar og umbreytist í tár sem við getum ekki þerrað því snjórinn heldur áfram að falla, miskunnarlaust, og sest á hár okkar og axlir.

Ég er hávaxin kona og ætti að ganga háreist og stolt yfir að vera sú sem ég er, yfir að hafa áorkað svo miklu, yfir að hafa sigrast á sorgum mínum. En svo kemur ný sorg og mér finnst eins og ég þurfi að byrja allt upp á nýtt. Eins og grunnurinn hafi ekki verið nógu og sterkur til að byrja með. Svo hugsa ég um ábyrgð mína sem vinur, sem starfsmaður, sem dóttir og systir og mér finnst ég ekki standa mig sérstaklega vel þar heldur því ég er föst í mínum eigin vandamálum, sem þegar á botninn er hvolft eru svo agnarsmá.

Hef ég rétt á að gráta? Hef ég rétt á að gefast upp fyrir sjálfri mér? Mér finnst ekki, ekki þessa stundina. Því vakna ég á réttum tíma, mæti til vinnu og geri það sem til af mér er ætlast. Ég tek þjófavarnarkerfið af, kveiki ljósin og kveiki á tölvunum. Ég skipti gömlum blöðum út fyrir ný í möppunum og helli upp á kaffi. Ég byrja daginn upp á nýtt þrátt fyrir hjartasár og höfnun. Ég verð að halda áfram og gera viðeigandi ráðstafanir til að verða ekki særð aftur. Þess vegna langar mig að loka hjarta mínu um sinn. Ég veit að það er kannski ekki ráðlegt en þó ætla ég að halda því opnu fyrir fjölskyldu mína. Hún á það skilið, því hún er alltaf hjá mér.

Ég kveki því ljósin og á tölvunum, helli upp á kaffi og rýni út í rökkvaðan morguninn. Ég lifi daginn.

sunnudagur, 5. desember 2010

Minnihlutajólastemmningin.

Last Christmas kom áðan í útvarpinu, Ásthildur bakar smákökur og ég búin að skreyta ofurbleika, gay jólatréð sem mér áskotnaðist eina menningarnóttina úr gömlum lager í blómabúð. Það vekur alltaf gleði í hjarta það get ég sagt enda táknar það í mínum huga jól minnihlutans, þeirra sem hafa að einhverju leyti lent utan normsins og langar að njóta jólanna á sinn hátt. Mér þykir mjög vænt um bleika jólatréð mitt.

Eins og áður hefur komið fram er ég enginn sérstakur aðdáandi jólanna. Jólin eru helvíti þunglyndissjúklinganna. Þá er mesta myrkrið og minnst við að vera nema að vera þunglyndur og éta. Auðvitað eru margir rosa ofvirkir og fara kannski á skíði og spila geðveikt mikið en ekki ég. Mig langar samt innst inni alveg ógeðslega mikið að vera svoleiðis! Sé þetta í hyllingum, með blessuð börnin hlaupandi í kringum tréð, eins og á jólatónleikum Bo í gær. Já, ég fór á jólatónleika með Bo í gær! Vinkonur mínar voru svo elskulegar að bjóða mér. Reyndar af því að systir mín sem hafði borgað fyrir miðann var veik haha. En þetta var bara þessi fínasta markaðssetta jólastemmning og ég var geðveikt að fíla Helga Björns í Ef ég nenni!

Ég held að ég muni að endingu taka jólin alveg í sátt þegar/ef ég eignast mína eigin krakka. Þá lifir maður þetta alveg í gegnum þau. En neysluna mun ég aldrei gúddera, ég verð bara að segja það og hugsa með hryllingi til alls draslsins sem börnin munu fá! En það er auðvitað gert af góðmennsku einni, og hvern langar ekki að eiga svosem eins og eina fjarstýrða spacecraftship flugvél og einn hárgreiðsluhaus.

En jesús, ég ætla ekki að segja að fjölskyldan mín sé ekki hreint frábær og það eru engin jól án þeirra. Ég veit bara stundum ekkert hvað ég á að gera á jólunum, og þau minna mig stundum á eitthvað leiðinlegt. Ég mun sakna fjölskyldunnar, æsispenningsins í karlpeningnum (jafn hjá yngri sem eldri) yfir flugeldunum og einni af mörgum stórveislum hjá Völu systur og mömmu. En ég næ jólunum sjálfum, afmælinu hjá Helgu systurdóttur minni og jólaboðinu hjá ömmu. Mig hefur alltaf langað til að eyða gamlárskvöldi í útlöndum og hef því ákveðið, eins og áður segir, að heimsækja Arngrím vin minn í Árósum.

Ég ætla annars að baka piparkökur í kvöld og fá smá kanillykt í íbúðina, sem er orðin shiny fyrir tilstilli Ásthildar (hvað er þetta, ég hef nú skúrað doldið í vetur ;)). Ég óska ykkur gleðilegrar aðventu á seinni skipunum.

Jóla-Ble

miðvikudagur, 1. desember 2010

Amma og Lennon.

Héðan er allt gott að frétta. Ég er jólabarn lítið en fer reyndar til Danmerkur um jólin að hitta minn ástkæra vin Arngrím, og ef til vill endurnýja ég kynnin við hina ástkæru H&M verslun, hver veit.

Ef jólaljósin í Köben og Ásrósum fá mig ekki til að gleðjast eilítið í mínu dapra hjarta þá er guð minn vondur/vond. Nei hann/hún er það ekki, ég talaði við guð í gær, í fyrsta skipti í langan tíma. Þegar ég var unglingur var ég skeptísk á guð en trúði engu að síður á annan heim. Síðar gerðist ég aðdáandi heimspekingsins Spinoza, sem taldi guð vera yfir og allt um kring. Það fannst mér falleg hugsun.

Eftir að amma mín dó fór ég að tala við hana. Það líður enn ekki sá dagur sem ég hugsa til hennar og ef ekki með meðvitund þá í undirmeðvitundinni. Hún var best, hún var góð. Hún kenndi mér að búa til dísætt kakó og lét mig pikka með gaffli í hafrakökurnar áður en hún setti þær í ofninn. Hún lét sokkana mína á ofninn þegar ég kom heim úr ímynduðum leikjum í garðinum og stillti á útvarpið en pabbi var með þætti um íslenskt mál á Útvarpi Norðurlandi sem við hlustuðum andaktugar á. Ég beið alltaf eftir spes kveðju sem hljómað þá eitthvað á þá leið að pabbi kvaddi þá sem á hlýddu og þá sérstaklega dóttur sína sem héti Þórunn ;)

Samhliða ömmubænum bað ég til John Lennon. Margir segja að hann hafi verið fífl en svo var ekki í mínum augum. Hann talaði til mín þar sem hann var misskilinn og einmana; "No one I think is in my tree/I mean it must me high og low." Ólíkari manneskjur hefði ég sennilega ekki getað valið mér til að beina bænum mínum að úr öllum þeim englum sem söfnuðust saman í því sem kallað er himnaríki, ef Lennon hefur þá farið til himnaríkis. Hann sagði nú einu sinni að Bítlarnir væru vinsælli er Jesús!

,,Þú átt alltaf að búast við hinu versta" sagði heimspekingur einn. Þá myndi maður ekki verða fyrir jafn miklum vonbrigðum sjáðu. Þetta vildi ég tileinka mér á menntaskólaaldri. Ég ákvað að ég ætti að hafa hægt um mig. Í dagbók mína skrifaði ég eitthvað á þá leið: ,,Engin farði, svört látlaus föt og engar væntingar í lífinu." ég var búin með kvótann. Áfall lífs míns hafði riðið yfir og von um gleði og hamingju átti ekki lengur rétt á sér.

Ég bið ekki lengur til Lennon, en amma er alltaf þarna, innan um uppáhaldsblómin sín, hrafnaklukkur, með bros á vör og margar sortir á borðinu. Kannski situr Lennon til borðs með henni og afa mínum og hámar í sig hafrakökur.
Þegar ég tala við krabbalækninn hennar mömmu dynja á mér upplýsingar um eitt og annað varðandi krabbameinsgenið blessaða. Það sem ég hélt að væri afneitun og kæruleysi kallaði hann æðruleysi við mömmu. ,,Ég held að yngsta dóttir þín sé svo lífsreynd að hún getur tekið þessum upplýsingum með æðruleysi."

Fallegt.

Það er markmið mitt núna, því mér finnst æðruleysið einmitt skorta hjá mér og óþolinmæði og vorkunnsemi gagnvart sjálfri mér spila enn stóra rullu. En stundum gerist eitthvað í sjálfum okkur, það er að segja við öðlumst eiginleika fyrir tilstilli reynslu okkar, þegar við höfum þroskast við áföll jafnt sem gleðilega atburði og kunnað að meta böl jafnt sem blessun. Einhver hluti af mér hefur öðlast æðruleysi og ég er stolt af því, Nú er að halda áfram að biðja til æðrulausrar ömmu minnar sem á stóran þátt í að gefa mér styrk og von um það sem koma skal.

mánudagur, 22. nóvember 2010

Góður dagur.

Ef einhver veit um dagvinnu handa mér fyrir hádegi til ca 2 yrði ég mjög þakklát. Ég er að verða despó :(

Ég þarf að geta borgað fyrir hana Paranai mína, stelpuna sem ég bjó hjá úti í Kenýa, og gömul námslán, úff! annars ætla ég að reyna að selja einhverja garma af sjálfri mér og skartgripi frá Kenýa til að hala upp í kostnaðinn. Hún verður að komast í framhaldsskóla stelpan. Hún er svo ofsalega klár!
Ég á mér líka þann draum að hún komi og verði au-pair hjá mér þegar/ef blessuð börnin koma. Ég held það yrði mega stuð!

Lífið er rólegt og gott núna. Friður í sálu en því er nú verr og miður að ekki sé friður á jörðu. Það er alveg spurning um að skúra eldhúsgólfið. Kannski er það of gróft. En matur verður eldaður. Því ég er svo heilbrigð í dag.

Góðar mánudagsstundir :)

laugardagur, 20. nóvember 2010

Trúðurinn

Þegar ég var sautján ára gerðist eitthvað inn í mér sem ég gat ekki útskýrt fyrir sjálfri mér. Ég hafði ekki hugmynd um hvernig einkenni þunglyndis eða kvíða birtust. Ég vissi ekkert hvað þetta var. Auðvitað gerðist þetta ekki á einum degi og ég held að ég hafi þróað með mér svo sterka varnarhætti gagnvart lífinu allt frá barnæsku að einn daginn gat ég bara ekki meir. Ég man eftir að hafa lokað mig inn í herbergi þegarég var lítil ef það komu gestir sem ég þekkti ekki. Ég meikaði bara ekki félagsleg samskipti og hef raunar aldrei gert.

En í kjölfar ýmissa geðrænna kvilla reisti ég annan múr sem var jafnvel enn erfiðara að eiga við. Ég hafði ekki hugmynd um lengur hver ég var í þessu nýja hlutverki einhverskonar sjúklings, eða það að vera í sjúklegu ástandi í því sem mér fannst vera heilbrigt umhverfi kátra krakka í menntaskóla þar sem að þú gast ekki annað en verið hress og tekið þátt í félagslífinu til að vera viðurkenndur sem manneskja. Ég tók því til þess bragðs að búa til ákveðin persónueinkenni sem höfðu raunar ekkert með mig sem persónu að gera og jukust svo að vexti í framkomu minni eftir tvítugt. Ég varð opin, stundum um of miðað við að ég er frekar lokaður karakter að upplagi. Ég sveifst einskis í því að skemmta mér og öðrum (að ég hélt), ég kom mér æ ofan í æ í einhver strákavandræði. Ég ýmist varð ástfangin af kolröngum aðila, ástin var ekki endurgoldin og viðkomandi aðili fór á endanum illa með mig, eða að ég fór illa með þá sem létu heillast að mér, oft á alveg ömurlegan hátt sem skapaðist af sérhlífni og óheiðarleika gagnvart þeim og sjálfri mér.

Allt snerist þetta um að flýja þetta hrædda og ofurviðkvæma barn sem ég var, sem ég skammaðist mín svo fyrir. Ég skammaðist mín svo hrikalega fyrir hver ég raunverulega er. Síðustu tvö árin hef ég róast töluvert. Oft finn ég hvernig ég fell gjörsamlega í mitt raunverulega sjálf þegar ég er fyrir norðan hjá fjölskyldunni eða ein með sjálfri mér að gera það sem ég gerði svo oft þegar ég var yngri, að syngja, skrifa, lesa, pæla og hlusta á tónlist. Svo þegar að eitthvað gerist, þegar mér finnst ég ekki hafa stjórn á tilfinningum mínum stekk ég í varnarhaminn. Ég segi það sem mér sýnist, er oft með eitthvert tómt kjaftæði, blekki sjálfa mig og beiti svo mikilli kaldhæðni að allt verður að einhverri allsherjar skopstælingu, sem er svo tilgerðarleg í eðli sínu að hún nær ekki einu sinni að virka rétt. Ég verð eiginlega að Jóni Gnarr.

Ég er búin að vera afskaplega melódramatísk síðustu vikurnar yfir ýmsu og segi svo margt sem ég meina kannski ekki. Eða ég veit það ekki. Ég held að fólk ruglist stundum í ríminu með mig. Það nær ekki að fylgja eftir vitleysunni í mér, það veit ekki hvort ég er að grínast eða ekki, veit ekki hvort það á að hlæja eða gráta yfir (tilbúnum) vandræðum mínum. En ég get ekki talað fyrir munn annarra og kannski tek ég of hart á mér núna. Kannski er ég í sömu vitleysunni bara, haha.

Og ég ímynda mér að mér líði vel, að ég sé sjálfsörugg að ég sé í eigin skinni. Er þetta allt helber misskilningur. Á ég að viðurkenna og sættast við þessa hlið á mér, jafnvel þykja vænt um hana. Því ég túlka hana sem veikleikamerki og ég er óskaplega viðkvæm fyrir að vera viðkvæm og veik en mjög svag fyrir að vera róleg og skynsöm. Að mér verði ekki haggað. Og þegar ég þarf að taka á öllu mínu til að birtast heil frammi fyrir einhverjum sem ég virði, sem mér er mikið í mun að sýna að ég sé traustvekjandi manneskja, ritskoða ég hvert orð sem ég læt út úr mér eftir á, les í alla varnarhættina og rýni í allar glufur sem sýna viðkvæmnina og veikleikana, veikindin sem hafa hrjáð mig, sem hafa sett mark á mig sem manneskju og allt mitt daglega líf.

Og ég efast í sífellu um að berskjalda mig hér. Samkvæmt eðlinu ætti ég að vera lokuð og dularfull, ekki láta neitt uppi, ekki ,,niðurlægja" mig á þennan hátt´.

En ég hef breyst. Og ég get ekki falið galla mína því ég hef þurft að takast svo oft á við þá, meira en ég hef kært mig um. Í hvert sinn sem ég set upp þessa undarlegu galsafullu varnargrímu, fer í trúðsbúninginn, þarf ég að horfast í augu við sjálfa mig eftir á og þá skömm sem ég finn fyrir að láta svona. Og það er það sem gerir þennan gjörning þess virði. Ef ég væri fullkomin væri ekkert gaman af þessu sennilega.

Ég er hætt núna, ég fer sennilega og set á mig rauða nefið einhversstaðar. Því stundum þarf ég þess, þótt ekki sé nema til að láta mér líða betur um stund.

fimmtudagur, 18. nóvember 2010

Emiliana Torrini - Today Has Been Okay

Drama II

Hummm, dramað er hætt. Ég er heil...í bili. Samt hættir dramað aldrei alveg. Þá væri lífið ekkert skemmtilegt og ekkert til að gera grín að.

Svona heilt á litið er ég frekar barnaleg. Já eiginlega mjög, en það hefur lagast mikið. Frænka mín og vinkona, sem er í læknisfræði, sagði mér skýrt og skorinort að frumubreytingar væru ekkert til að hafa áhyggjur af, þetta væri það algengasta í heimi og krabbamein verður ekki til nema fyrir tilstilli hinnar ágætu HPV veiru, sem ég held nú alveg örugglega að ég sé ekki með.

Skólaverkefnið er búið, tjekk, atvinna er ekki fundin og þaðan af síður framtíðin. Elsku framtíðin. En það er gott að geta vaknað (ekki alltaf á morgnana samt, meira svona um hádegið!) og horft út í grámygluna og hugsað með sér ,,Ég er á lífi, þetta verður allt í lagi..." Svo heldur maður áfram, fer út í gaddinn í leikskólann og lífið og kallar ,,Auðmundur Hólmar!" (frumsamið nafn nb), ,,viltu gjöra svo vel og setjast á teppið!" Svo fer maður á bókasafnið og raðar soldið og hugsar og hlustar á fólk spyrja hvort það geti ,,framlengt bókinni" í staðinn fyrir að segja ,,bókina" og tekur kannski 90's breska spólu á safninu sem maður setur í tækið og tekur fram útsauminn. Og öll ævintýri (og ástarævintýri þar á meðal) geta bara beðið, hér stend ég og get ekki annað.

Og allar þessar vinkonur, jedúddamía. Hvað gerði maður án þeirra og Ölstofunnar og Næsta og ég veit ekki hvað og hvað. Því hvað auðgar meira andann en rauðvínsglas og gott spjall á þessum mætu stöðum og suss það er ekki ómerkilegra að gera þetta en hvað annað. Eins og ég sé ekki búin að sálgreina íslenskt samfélag og Tolstoj í bland í allt kvöld! Nei nú kemur helgin og þá allsherjarafslappelsi. Þá ætti ég að vera að lesa undir heimapróf en mér finnst mjög líklegt að ég geri eitthvað annað, já eða ekki neitt. Getur maður nokkuð gert eftir þvílíkt drama?

þriðjudagur, 16. nóvember 2010

Drama I

Ég er með hjartsláttartruflanir af einhverju stressi og óráðsíu. Í gær virtist ég þó öðlast einhvern part af skynseminni aftur en það kemur ekki í veg fyrir það að ég er að fara að skila skólaverkefni á síðustu stundu. Vinur minn er með gráðu í dramastjórnun frá bréfaskóla, að hans eigin sögn, og hann mun vonandi taka mig í þerapíu. Ég drekk samt kaffi og kók. Í gær drakk ég latte og svona einn lítra af kóki. Þegar hjartslátturinn var kominn upp í, tja ég veit ekki hvað, þá fór ég að taka til í herberginu mínu af miklum ofsa og leitaði svo afslöppunar til systur minnar og fjölskyldu hennar um kvöldið. Þar var það helst fréttnæmt að kötturinn á bænum hafði skitið upp á haus og bjuggust þau við að fara með hann i sturtu. Ég forðaði mér áður en það hófst!

Dramað má sumpart rekja til þess að ég fer í frekari krabbameinsskoðun á morgun eða einhverja speglun. Ég er búin að ákveða, svona í undirmeðvitundinni að ég sé með krabbamein í eggjastokkunum af því að það er líklegra að ég sé með það en aðrir út af blessaða geninu mínu. Ef svo er verð ég bara að bíta í það súra en það þýðir nú ekkert annað að vera bjartsýnn. Hvað á ég svosem líka að vera að barma mér á netinu um eitthvað sem hefur mjög lílega ekki átt sér stað. En ég er kannski ekki enn komin í tilfinningalegt jafnvægi!

Fjárhagur, atvinnuleysi, skólaleiði og mér finnst langt þangað til ég get farið að gera eitthvað skemmtó. Hverrnig á ég líka að klára MA í hagnýtri menningarmiðlun, BA í heimspeki og kennsluréttindi með allan þennan skólaleiða? Hvernig á ég að safna peningum fyrir Kenýaferð tvö? Hvað á ég að verða eiginlega? Verð ég einhverntíma eitthvað?

Hér hefur verið kvartað í dag. Sálarmeinum dagsins hefur verið komið á framfæri takk fyrir. Og hversu smávægileg þau mein eru miðað við allt annað ég veit. En öll höfum við okkar vandræði, stór og smá. Velkomin í drama tvö á morgun.

Verið þið blessuð og sæl!

sunnudagur, 14. nóvember 2010

Hin sanna og góða trú, eða hvað?

Er guð algóður? Er guð til af því að við trúum? Er trú bábilja og vitleysa fundin upp til að ráðskast með fólk, rugla það, jafnvel afvegaleiða frá röklegri tilveru?

Er til rökleg tilvera?

Nú er ég öll í rússneska rithöfunda Tolstoj því ég er að gera verkefni þar sem hann og trúarkreppa hans koma við sögu. Þar styðst ég við útvarpsþátt Árna Bergmanns en hann má finna hér

Tolstoj segir: trúin er ekki til góðs af þvi hún er sönn, hún sönn vegna þess að hún er góð. En nú er spurningin hvort að trúin sé yfirhöfuð góð, eða að fólk verði gott af því að iðka hana. Vantrúarmenn eru vantrúaðir. Það má sjá hér

Þegar ég dvaldi í Kenýa fór trúarhitinn óskaplega í taugarnar á mér, enda má lesa færslu hér frá dvölinni. Smám saman komst ég þó að því að það er ástæða fyrir trúnni og þótt það megi segja að vestræn kirkja hafi notfært sér bága aðstöðu Afríku til að komast til valda, komst ég í kynni við siðferðisvitund hjá kenýskum bbörnum sem ég hef aldrei kynnst í þeim íslensku. Ég fór sjálf að finna tengingu við eitthvað sem gæti kallast æðri máttur (þótt ég sé ekki fyllilega sannfærð) þegar ég fann að hann varð að mætti til að lifa af fyrir þetta fólk og að vera þakklátur fyrir það litla sem maður hefur. Tolstoj segir ennfremur að meirihluti mannkyns, eða allir fyrir utan nokkra hvíta karlmenn í forréttindahópi á Vesturlöndum (á þeim tíma) beri ekki bara byrðir sínar, heldur einnig hinna ríku og máttugu. Fólkið í Afríku þarf að þjást fyrir græðgi Vesturlanda, sem sankar að sér auðlindum þeirra. Það þjáist jafnvel fyrir hjálparstarf Vesturlanda, sem oft er heimskulega skipulagt og eyðileggur framfarir og sjálfsbargarviðleitni viðkomandi þjóða. Þetta er sú byrði sem meðal annars fólkið sem ég dvaldi hjá þurfti að bera. Ef ekki væri fyrir þetta fólk hefði ég kannski aldrei getað veitt mér þann munað að ferðast til landsins. Og þau voru þakklát fyrir komu mína, að ég léti svo lítið að heimsækja þau. Ég var talin gjöf guðs til Paranai, stelpunnar sem ég bjó með! Þau gáfu mér allt sem þau áttu til, góðvild og kærleika og alltaf var viðkvæðið að örlög okkar væru í höndum æðri mátts, þau vonuðu að hann veitti okkur þá ánægju að ég gæti hitt þau aftur.

Hvort trúin sé sönn og góð má eflaust deila um, en ég get samt ekki annað séð en að trúin á guð leiði til góðra verka í sumum tilvikum. Vissulega þótti manni hræðilegt að upplifa viðhorf til samkynhneigðar þarna suður frá enda talar Tolstoj um að því miður sé kirkjan ekki jafn fús til fyrirgefningar á öllum hlutum.

Er hægt að taka bara valda kafla úr biblíunni og trúa þeim eða fara eftir fordæmi hennar í ákveðnum málum? Það er spurning sem brennur á mörgum. Allt snýst það um hvort sumir kaflar hennar stangist á við manns eigin sannfæringu um hvað er gott og rétt. Því betur hefur þó kannski lestur hennar um aldir alda vakið upp spurningar um hvað er gott og hvað er slæmt. Hvernig getum við breytt rétt, hver er siðferðilegur mælikvarði mannkynsins? Því miður komumst við varla til botns í þessum málum en umræða síðustu vikna mun vonandi opna fyrir víðsýni og sókn fólks í upplýsingar um trú. Hvers virði hún er fyrir samfélag okkar og hvort hún komi að gagni.

Ég veit ekki hversu langt á að ganga í því að banna trúarlíf í skólum. Hvað ef að barn í skóla deyr? Mega prestar, sem eru sumpart menntaðir í sálgæslu, koma í skólann og tala við krakkana um líf og dauða? Hversu hlutlaust á það tal að vera? Eigum við frekar að fá heimspeking eða sálfræðing? Eða allt í einum pakka?

Ég vil endilega fræðast meira um trú til að öðlast lítilsháttar skilning á fyrirbærinu. Sumir menn trúa ekki aðeins á guð, það eru líka þeir sem trúa á sjálfa sig. Svo eru það þeir sem trúa á peninga. En hvað tekur við þegar musteri Mammons fellur? Til dæmis skapast reiði, gríðarleg reiði. Og við beinum reiðinni að guði, því hann hefur ekki staðið sig við að veita okkur hjálp. Því miður er ekki bara hægt að trúa þegar manni hentar. Þjóðin verður að taka afstöðu til þess hvort hún sýni trú umburðarlyndi eða ekki, sama hvaða trú er um að ræða. Við munum alltaf hafa mismunandi gildi og viðmið. Mestu máli skiptir að lifa í sátt við hvert annað.

þriðjudagur, 9. nóvember 2010

Upptalning.

-Að setja í vél.
-að brjóta saman þvottinn.
-að fara í leghálsspeglun.
-að gera skólaverkefni.
-að fá sorglegar frétti frá fólki sem manni þykir vænt um.
-að passa börn.
-að raða bókum.
-að fara í segulómskoðun.
-að fara í klippingu.
-að takast á við höfnun.
-að takast á við sjálfan sig.
-að elda núðlur.
-að verða reið yfir misrétti heimsins.
-að hringja í mömmu.
-að hringja í pabba.
-að horfa á veðurspána.
-Að leika við systrabörn sín.
-að vera.

Að vera lifandi.

mánudagur, 8. nóvember 2010

Stattu þig stelpa, og strákur.

Stundum er mikilvægt að standa á sínu. Reyndar er það alltaf mikilvægt en ég hef ekki alltaf gert það.

En þegar ég gerði það var það bara geðveikt og það gaf mér nýja orku. Það kom mér á óvart þegar við vinkonurnar vorum að tala saman um daginn og hún talaði um að sumt fólk stundaði einfaldlega ekki sjálfsskoðun. Ha?! Ertu ekki að grínast, ég byrjaði í vöggunni. Og sjálfsskoðunin hefur falið í sér sjálfsgagnrýni oft á tíðum og skömm yfir að vera eins og ég er. Ég afsaka mig ennþá stundum, alltof oft reyndar. En ég fattaði um daginn að ég er frábær! Alveg hreint einstakt eintak haha. Og svo er ég líka mjög sæt ;) Taka aðeins hégómann á þetta!

Að taka af skarið. Skelfilega er það erfitt. Að tala hreint út. Ekki nokkur leið. Að standa á sínu. Alveg hreint voðalegt!

Ég er eins og ég er. Það snýst allt um það. Meðal þeirra galla sem ég tel mig hafa er sjálfsniðurrif. Ég er líka stundum of gassaleg og óþolinmóð, sérstaklega gagnvart öðru fólki. Svo er ég feimin, ótrúlegt en satt og fjandanum viðkvæmari. Ég á erfitt með að fá heildarsýn og er of eftirgefanleg. Ég er löt og gefst oft upp fyrir sjálfri mér.

En mér finnst gaman að dansa. Ég á auðvelt með að vera ein...og dansa. Ég er góð manneskja, stundum of góð. Ég er nokkuð næm á tilfinningar annarra og nærgætin. Og svo uppgötvaði ég að ég er sterk og læt ekki bjóða mér neitt kjaftæði. Og þegar ég hafði neitað kjaftæðinu var ég svo glöð að ég setti í þvottavélina í fyrsta skipti í þrjár vikur. Og býst við að byrja á spennandi verkefni strax í kvöld.

Ég á svo helling af góðu fólki í kringum mig. Fjölskyldu sem á sér enga aðra líka og vinkonur og vini sem eru alltaf til staðar og peppa mig upp.

En aðalatriðið er: ég fann einhvern styrk í sjálfri mér sem ég vissi ekki að ég hafði og ég veit að himinn og jörð munu ekki farast þótt hlutirnir gangi ekki alltaf upp. Ég hef reyndar fundið þennan styrk áður þegar allt var á vonarvöl en hann kom ekki jafn greinilega fram heldur hægt og bítandi.

Að vera með sjálfsmeðvitund án þess að illa fari er mikil list. Það er að segja að vera meðvitaður um sjálfan sig sem góða manneskju sem með hverju áfalli og hverjum sigri nær að þroska sjálfan sig og hafa áhrif á annað fólk í kringum sig. Það er ég að læra og þakka það ekki síst Afríkuferð minni nú í sumar.

Ég er ekki bölsýn í dag en það getur vel verið að ég verði það á morgun. Þið vitið þetta með dans á rósum. Ekki alltaf þannig. Djöfull getur maður líka dansað á grjótinu, það er alveg víst. En þá er að bíta á jaxlinn og halda áfram því maður er svo gáfaður og sniðugur og skemmtilegur...og þið vitið.

Að lokum: ég er að hugsa um að vera með rauðan varalit í kvöld.

sunnudagur, 7. nóvember 2010

Aðgát skal höfð í nærveru karlmanna.

Það er svo ljómandi að lesa Cosmo stundum! Já ég viðurkenni það alveg. Ég gríp eitt og eitt blað með mér af bókasafninu einstaka sinnum til að glugga í á köldum kvöldum þar sem að gefin eru sjóðheit ráð fyrir sjóðheitt kynlíf. Yfir hverju á piparjónkan ég annars að gleðjast?

Og auðvitað er þetta spennandi stúdía, bæði framsetning og þau viðhorf sem koma fram gagnvart samlífi karls og konu, því auðvitað er aldrei fjallað um lesbísk sambönd, tja, nema lesbískir tilburðir geri karlinn óðan.

Svo rakst ég á skemmtilega grein þar sem að gerð er grein fyrir því hvernig konur geti fengið fullnægingu án þess að særa stolt bólfélagans. Já, það er nefnlega alkunna að það er frekar erfitt fyrir konur að fá fullnægingu í venjulegu samlífi. Í fyrsta lagi er það líffræðilega erfitt að fá leggangafullnægingu og er fremur sjaldgæft meðal kvenna. Í öðru lagi kann karlinn ekki nægilega mikið fyrir sér til að fullnægja konu! Já, það er nánast sagt beinum orðum í þessari grein en það er nú ekki bara á þann veginn heldur gildir það um bæði kynin því kynlíf er ekki bara það að ná hæsta tindi hamingjunnar. Það snýst víst einnig um að vera ,,góð hvort við annað", eins og útvarpsmennirnir segja, en meina ,,hvert annað" en förum ekki út í málfræði á þessu stigi málsins.

Greinin gengur út á það að leiða karlmennina áfram í gegnum ástarleikinn með því markmiði að hverfa á vit unaðar eilífðarinnar. Þetta verður þó að gera með nærgætni en ekki hranalegum skipunum svo að karlmaðurinn missi ekki sjálfstraustið. Byrja verður á því að hemja ákafa hans því upplifun konunnar verður þá: "as sensual as walking through an automatic car wash."! Æ, æ, æ, ekki byrjar það vel. Kossarnir verða að vera hægir og dýpka svo eftir því sem á líður. Hann á að geta hermt eftir konunni, til dæmis þegar hún kyssir hann eins og hún vill vera kysst ,,þarna niðri." Hvernig sá koss gengur fyrir sig (það er þar sem hún sýnir honum tæknina) gengur fyrir sig veit ég ekki. Ekki eru gagnkynhneigðar konur mikið að kyssa aðrar konur á milli fótanna!

Hvetja verður karlmanninn áfram með orðum, til dæmis: "I'm about to have the orgasm of my life!" Hinsvegar á að þegja ef atlotin eru ekki að gera sig. Það verður að láta hann vita að maður sé við það að "hitting the peak" og það sé honum að þakka, eða mestmegnis. Eftir samfarirnar á að fara munnlega yfir allt sem manni fannst gott svo þetta stimplist nú ærlega inn í hausinn á manninum og hann gleymi ekki trixunum.

Er greinin ekki niðurlægjandi í heild sinni fyrir karlmenn? Tja, ég er á þeirri skoðun. Nú úir og grúir allt af hjálparhellum í formi kynlífssjálfshjálparbóka sem veita innsýn inn í hugarfylgsni beggja kynja og hvaða blettir líkamans eru næmastir hjá hvoru fyrir sig. Getur ekki verið að karlmenn lesi sér til um þetta líka? Ræða þeir þetta við vini sína kannski? Hafa þeir ekki einhvern snefil af hugmyndaflugi og næmni fyrir því að konan er öðruvísi uppbyggð? Ég held að við verðum að gefa karlmönnum meira kredit en þetta. Og ég held að engin kona fái fullnægingu lífs síns ef hún þarf að leggja svona mikið á sig til þess. Ég meina yrði maður ekki þokkalega meðvitaður um hverja einustu hreyfingu? Þótt kynlíf eigi sér stað í huganum líka ætti nú ekki að þurfa að hugsa svona andskoti mikið um það á meðan því stendur! Eða hvað?

mánudagur, 1. nóvember 2010

Skortur á almennri bölsýni.

Agalega er bloggið búið að vera væmið hjá mér upp á síðkastið. Ég get aldrei verið svona jákvæð með góðri samvisku. Þetta fer í endurskoðun, definately.

sunnudagur, 31. október 2010

Myndhverfingar hjartans

Jæja. Frábært matarboð afstaðið og við Ásthildur borðuðum allan afganginn í dag. Erum sérlega saddar og sælar núna. Það sem setti punktinn yfir i-ið var svo vídjógláp. Il postino varð fyrir valinu. Hún er um ítalska póstmanninn sem verður ástfanginn og fær aðstoð frá chilenska skáldinu Pablo Neruda við að heilla til sín hina fallegu Beatrice, barmikla dökkeyga stúlku með hrokkið hár og ósvífna framkomu. Kvikmyndin fjallar þó fyrst og fremst um sérstak samband rithöfundarins og póstmannsins og þau áhrif sem sá fyrrnefndi hefur á líf þess síðarnefnda, og hvernig skáldskapurinn hefur áhrif á líf okkar.

Neruda hóf að kenna póstmanninum um myndhverfingar. Smám saman fyllast samtöl hans við skáldið og bréf hans til stúlkunnar af fallegum myndhverfingum. Myndin er falleg, um einfaldan mann sem lærir að orða tilfinningar sínar, og lýsa hinni flóknu ást á tungumáli sem allir geta tengt sig við og ímyndað sér. Að hár stúlkunnar sé fullt af stjörnum, að nakinn líkami hennar sé einfaldur líkt og hönd hennar og svo framvegis.

Ég tók fyrir ljóðlist í tíma þegar ég var sjálfboðaliði í grunnskóla í Kenýa í sumar. Ég tók fyrir textann við lag Emiliönu Torrini, Fisherman's Woman. Ég er ekki mjög kunnug ljóðum almennt en fannst ég geta útskýrt þetta þokkalega fyrir þeim, fremur en eitthvað sem væri of háfleygt.
Ástmaður ljóðmælanda er dáinn og ég reyndi að láta þau lesa í það og hið dæmigerða myndmál. Konan þekkir sjómannskonu sem er skylmingarþræll allra sjómannskvenna. Ég útskýrði einnig fyrir þeim orðið grasekkja og tengdi það við innihald textans. Við töluðum um bát mannsins sem andar og blóðrauðan varalit stúlkunnar sem gæti merkt blóð, ástríðu eða líf. Ég veit ekki hvort þau tóku nokkuð af þessu inn, en Paranai mín lagði oft saman tvo og tvo. Hún uppgötvaði að maðurinn sem sungið var um væri dáinn. Hún tengdi við merkingu rauða litarins og var virkilega snjöll þótt hún hefði aldrei lært að hugsa svona óhlutbundið. Seinna sagði hún mér að hún gæti aldrei nokkurn tíma ort svona ljóð. Hún sagði að það væri of fjarri sér, svo draumkennt og skrítið. En ég vona að þessar línur hafi hreyft við þeim. Alltént voru þau andaktug yfir þessu og ég hafði virkilega gaman af.

Hér er Emiliana og söngurinn um konuna sem vildi óska að hún væri sjómannskona:

föstudagur, 29. október 2010

Satie og skjáaulýsingarnar

Endrum og eins koma minningarbrot upp í hugann, oft einhver sem tengjast undarlegu andrúmslofti í hversdeginum. Maður er staddur mitt í þessum gráa hversdagsleika og þá vekja hljóð, myndir eða skynjanir af einhverju tagi upp einhverjar ákveðnar tilfinningar. Þessar tilfinningar láta svo á sér kræla í hvert skipti sem við heyrum, sjáum, brögðum eða finnum lykt af þessum tilteknu hlutum. Og minningin lifnar við aftur, og breytir kannski um mynd.

Það muna allir eftir gömlu góðu skjáauglýsingunum er það ekki? Mér fannst ekkert eins niðurdrepandi í öllum heiminum geiminum og skjáauglýsingar þegar ég var unglingur. Þær minntu mig á mitt auma unglingslíf (því allir eiga sér einhverntímann aumt unglingslíf) þar sem mér fannst ég oft hvorki komast lönd né strönd, hvorki bókstaflega (þar sem ég er alin upp í sveit) né andlega. Einhvernveginn skýtur minningin um skjáauglýsingarnar alltaf upp kollinum af og til. Ég man til dæmis að ég sat í svokallaðri ömmustofu (því amma bjó á neðri hæðinni heima og þar var þessi tiltekna stofa) og horfði út um gluggann undir skjáauglýsingalaginu. Það var skafl fyrir utan, snjór á rúðunni og kolsvarta myrkur úti. Ég horfði út og stundi, og ekki bætti músíkin úr skák; lag leikið á píanó af öllum þeim þunga sem píanóleikarinn átti til. Neðri nóturnar virtust draga þær efri og léttari með sér í hverju tónfalli og ég fann hvernig ég lamaðist að innan. Úff. Ég held að þetta sé mér svo minnisstætt vegna þess að þarna fann ég tilfinningu sem ég átti eftir að finna svo oft seinna og sameinaðist í bullandi þunglyndi og trega. Mennirnir eru nú þannig gerðir að þeir eru misléttlyndir og ég sá þegar ég rakst á lagið á youtube að hjá sumum vekur það góðar tilfinningar: ,,Ég hugsa alltaf um eitthvað fallegt þegar ég hlusta á þetta lag" skrifaði einhver. Ja, ég hef alltaf hugsað um eitthvað drepleiðinlegt þegar ég hlusta á þetta lag, eins og snjóskafla og íslenskt myrkur sem gleypir orku þunglyndissjúklinga um allt land. Gemmér brasilískt bossanova og þá erum við í góðum málum.

Síðar komst ég að því að ógislega skjáaulýsingalagið er eftir Erik Satie, virt tuttugustu aldar tónskáld, þótt sumir hafi nú eitthvað hnýtt í hann og talið hann ómerkilegan. Þessi bútur heitir réttu nafni Gymnopédie No. 1 og er fyrsti þáttur af þremur gymnopédieum Saties. Samkvæmt einhverjum snillingnum þarna á tube-inu, og nú sel ég það ekki dýrara en ég keypti það, hugsaði Satie oft tónlist sína sem einskonar bakgrunnstónlist, ef til vill það sem hefur verið kallað lyftutónlist. Passar vel við hversdagslega hluti eins og skjáauglýsingar, en rífur í sundur á manni hjartað um leið í niðurdrepandi einfaldleika sínum (ókei, þetta var kannski ekki svona dramatískt, en það var stundum erfitt að vera unglingur í sveitaskóla ásamt fimmtíu öðrum nemendum og með Akureyri city í 45 kílómetra fjarlægð. Og eina leiðin til að ferðast þangað sjálfstætt var að fara með rútunni um morguninn og vera kominn heim að ristahliði seinnipartinn).

En ég verð nú að gefa þessari undurblíðu og fallegu músík meira kredit en svo. Ég hef nefnilega sæst við skjáauglýsingalagið. Þið þekkið það öll þegar þið heyrið það. Gjöriði svo vel Gymnopédie No. 1 eftir Erik Satie.


laugardagur, 23. október 2010

Nýjar fréttir.

Ég blogga hér af bókakaffihúsinu Glætunni þar sem að ég háma í mig einfaldan latte með MJÓLK og borða massíva súkkulaðitertu með RJÓMA. Þar sem það þykir sýnt að beint samband sé á milli neyslu mjólkurvara og krabbameins er ég í vondum málum. Það hefur komið í ljós að ég hef erft krabbameinsgen. Líkurnar á að fá krabbamein með þetta gen í farteskinu einhverntímann á ævinni er ca 70%. Lucky me. Engar samúðarkveðjur gott fólk, eða ,,aumingja þú" - ekki gefin fyrir það. Og vil þaðan af síður vorkenna mér því ég hef vorkennt mér svo andskoti mikið í gegnum tíðina.

Ég var sallaróleg yfir þessu til að byrja með. Ég vildi fá að vita þetta þótt mig vanti þrjú ár í ,,krabbameinsaldurinn" s.k., þrjátíu ár. Læknirinn talaði skelfilega mikið. Þetta er áhugamál hjá honum og auðvitað er gott að fólk hafi, ja, gaman að vinnunni sinni, þá vinnur það hana betur. Það er að sjálfsögðu hægt að fá viðtal við sálfræðing. Það er líka hægt að fá viðtal við sálfræðing ef maður greinist ekki með genið, vegna þess að maður getur fengið samviskubit yfir því. Spes.

Mamma mín er núna að fara í sína aðra lyfjameðferð á fjórum árum. Við erum búnar að fara saman í brjóstaleiðangur þar sem að hún fékk ný gervibrjóst og næst á dagskrá er, að ég held, hárkolluleiðangur. Þyrftum nú að vera allar þrjár systur í því af betur sjá augu en auga. Og af því að við höfum svo góðan smekk náttúrulega. Hún var alveg ótrúlega brött eftir brjóstnámið og aðra aðgerð þar sem að teknir voru nokkrir eitlar úr henni. Frænka mín út í Bandaríkjunum sem greindist með mein ekki alls fyrir löngu ( er ekki orðin fertug) er komin með ný brjóst, altså eftir aðgerð, og tókst víst vel í þetta skiptið. Ég samgleðst henni og veit að hún hefur verið ofsalega dugleg. Það er auðvitað mikið áfall að greinast svona ungur.

Og duglega konan hún mamma mín. Og líka ofsalega góð kona. Ég held að það komi henni í gegnum þetta. Hún tók því af ótrúlegu æðruleysi þegar að kom í ljós að meinið hafði breiðst útí eitlana eftir að brjóstin höfðu verið fjarlægð.

Ég held að margir sem beri svona gen finnist að þeir beri ábyrgð á því þegar börn þeirra erfa genið. Því finnst það bera eitur til barnanna sinna, og finnstjafnvel að þeir ekki eiga skilið að eiga börn eða vilja ekki eignast þau eftir að hafa fengið fregnirnar. Við töpum oft skynseminni þegar að tilfinningarnar bera okkur ofurliði og það er ekkert óeðlilegt við slíka tilfinningu. En ég get sagt það að ég elska mömmu mína alveg jafnmikið hvort sem ég erfi eitthvert gen eftir hana eða ekki. Það á við um okkur allar systurnar. Og lífið heldur áfram ekki satt? Og ég vil svo sannarlega eignast börn í framtíðinni, ég skal ekki láta þetta hindra mig.

Ég hélt því fram að fregnirnar hefðu ekki haft nein áhrif á mig. Auðvitað er það ekki satt. Maður tekur ekki alltaf inn það sem manni er sagt fyrr en löngu eftir á. Og ég tók það út í ákveðinni reiði. Og það má sjá á færslu hér fyrir neðan. Það var fyrst þá að ég áttaði mig á að það var sorgin sem sýndi sig.

Það verður fylgst vel með mér eftir þetta og ég fer í fyrstu segulómskoðunina 3. nóvember n.k. Það virðist ekki vera algengt að krabbinn skjóti upp kollinum í fjölskyldu okkar. Auk þess er hægt að gera viðeigandi ráðstafanir ef mein finnst eða breytingar koma í ljós. Það þýðir cutting! Já, það þykir sumum vissara að taka annað eða bæði brjóstin strax af ( hvort sem það finnst mein eða ekki! En það er nú aðallega í Bandó sem konum þykja ástæða til þess að fara út í þær aðgerðir þegar engar breytingar hafa orðið) vitandi af geninu. Þar með má koma í veg fyrir upptöku krabbans þótt það þurfi drastískar aðgerðir til. Að því leyti er maður kannski ,,heppinn" að vera með þetta tiltekna gen því víðtækari varúðarráðstafanir eru íhugaðar og gerðar en ella.

Ég veit það ekki. Vildi bara deila þessu með ykkur til að fá ferskari sýn og fjarlægð á þetta mál. Það eru því miður allt of margir sem fá krabbamein og öll þekkjum við einhvern. Auðvitað skiptir stuðningur fjölskyldu og vina máli. Stundum finnst mér ég ekki hafa nægan skilning á þessu fyrirbæri til að geta stutt mömmu mína af fullum krafti. En ég er að læra. Mestu máli skipta þó viðbrögð manns sjálfs. Það er hægt að áorka miklu með jákvæðum hugsunum. Það er auðvelt að segja það þegar maður hefur ekki kynnst því að vera með krabbamein en eftir að vita að það er meiri líkur á að ég fái það en ella veit ég að viðbrögð mín gagnvart þeim fregnum skipta líka máli. Það var gott að fá útrás í stað þess að loka bara á það. Nú vonast ég bara til að öðlast frekari skilning, í krafti þessara frétta, á hvernig mömmu minni raunverulega líður. Og af henni get ég lært heilmikið og verið þar með betur undir það búin að takast á við þennan sjúkdóm. En að sjálfsögðu vona ég hið besta, fyrir hönd mín og annarrar systur minnar sem einnig hefur greinst með þessa breytingu, auk annarra í fjölskyldunni.

Móðir mín er alltaf í huga mér. Þessi færsla er þó einkum tileinkuð manneskju sem mér er mjög umhugað um þótt samband okkar hafi ekki verið mikið síðastliðin ár. Þessi kona er hjartahlýr dugnaðarforkur og húmoristi. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún tekist á við sjúkdóminn af einurð og að því er virðist óttaleysi. Ég hef aldrei heyrt hana kvarta. Þið sem þekkið til vitið öll um hverja er að ræða.
Fjölskyldan hefur verið henni stoð og stytta og ég dáist að manni hennar, rólegur og æðrulaus sem hann er. Ef hún les þessi fátæklegu orð vil ég að hún viti að ég dáist að henni, að hún veitir mér styrk og mörgum öðrum og við hugsum til hennar. Fleiri en hún getur ímyndað sér.

Jæja, ekki ætla ég að þreyta ykkur meira, því öllu má ofgera. En þessir hlutir þurfa að fá pláss líka, því um það snýst líf okkar: meðbyr og mótbyr og hvað við getum lært og öðlast með þessu tvennu. Við djókum næst. En þangað til ætla ég að leyfa mér að hugsa örlítið um hverfulleika lífsins

föstudagur, 22. október 2010

Lost in Bryan Ferry

Eitthvað við þessa senu er svo fallegt, get ekki lýst því. Og eins og í öllum karókíkeppnum syngur keppandinn frekar illa. En það er bara til að auka á ljómann.


fimmtudagur, 21. október 2010

80's Punk Rock Chick í boði Lauren

Þessi er með nóg af meiköppi og skemmtilegan hreim. Dömur sem hafa gaman af því að walk on the wild side ættu kannski fara í 80's gírinn og skella sér á Kaffibarinn svona...eða bara vera heima við með heví meiköpp og rauðvínsglas í hönd þið ráðið. Ég hugsa að ég kjósi seinni kostinn. Og les svo Cosmo með því.


Niðurskurður á framfærslu í fæðingarorlofi - hvert leiðir það okkur?

Maður reynir að halda í vitið stöku sinnum. Náttúrulega að halda viti en líka að æfa sig í að vera vitur, eða öllu heldur upplýstur, því vitur verður maður ekki fyrr enn maður er orðinn ellismellur í saumó og ryður upp úr sér spakmælunum og góðum ráðum fyrir þá sem vilja hlusta. Líka fyrir þá sem vilja ekki hlusta.

Ég er semsagt að lesa bókina Holdafar-hagfræðileg greining. Ég á auðvitað fullt í fangi með þessi hagfræðilegu hugtök sem koma fyrir í bláum kössum svona inn á milli til aukins skilnings. Ég fékk líka 5 og 6 í þessum tveimur þjóðhagfræðiáföngum sem ég var í í framhaldsskóla. Ég held að þetta snúist um rökgreind. Hún er rosalega slæm hjá mér. Ég held ég sé á mörkunum að þurfa einhverja greiningu. Þetta háir mér töluvert í rökræðum, og mikið í svona pólitísku karpi. En það er nú að mestu vitleysa finnst mér, og svo hefur það reyndar eitthvað að gera með hagfræði sem, eins og ég segi, er ekki mín sterkasta hlið.

Þetta með pólitíkina liggur reyndar töluvert á mér. Ég missi mig aldrei yfir moggablogginu (les það reyndar aldrei) og ég pósta lítið svona pólitískum pistlum á feisbúkk. Það er einna helst þegar einhver fer að kalla einhvern annan hálfvita sem svona fýkur í mig. Og einhver minntist á vin sinn sem hefði til dæmis kallað forsætisráðherrann okkar ,,grásprengda lessu." Hmmm, hún er nú með hvítt hár. Og jú jú, ég hef kannski verið eitthvað fúl út í krullkrúttið Davíð Oddsson, en ég fer nú ekki með það á netið.

Ég tel mér til tekna að vera frekar hjartahlý manneskja. En ég er kannski fávís, ,,og nú spyr ég eins og fávís kona." (SÓ 2003). En maður reynir nú að lesa sér til og vera svoldið eðlilegur. Já og þykjast vita hvað maður er að segja. Ég hef td ekki hugmynd um hvar er best að skera niður í tja, velferðarkerfinu td því þar verður sennilega að skera niður eins og annarsstaðar. Mín hugmynd var faktískt sú að ef fólk fengi minni pening í fæðingarorlof þá hætti það kannski að kaupa 300.000 króna barnavagna og leikteppi sem lætur þig vita ef barnið andar ekki lengur. Auðvitað er ógeðslega dýrt að eiga barn, og ég á engan krakka. Pass. Er samt að hugsa um að gefa nokkra bleyjupakka og þurrkur í næstu sængurgjöf en ekki sætan kjól/skyrtu sem barnið vex upp úr á no time. Að því sögðu, hvað á ég að gefa tveggja ára frænku minni í afmælisgjöf?

þriðjudagur, 19. október 2010

Mér finnst gólfið best

Undanfarið hafa konur póstað undarlegum facebookstatusum þar sem að nefndir eru mismunandi staðir í húsum þeirra sem þeim finnst ,,best" að gera eitthvað. Ég var ekki alveg með á þessu og bað um útskýringu. Systir mín sendir mér því póst sem afhjúpaði leyndarmálið:

Manstu eftir leiknum sem við fórum í á síðasta ári? Þessi þar sem við sögðum í hvað lit á brjóstahaldara við værum í í augnablikinu? Markmiðið með þessum leik var að opna umræðu um brjóstakrabbamein í október. Leikurinn gekk mjög vel og við fréttum af fjölda karlmanna velta því fyrir sér hvað við værum eiginlega að gera. Hvað þessar litameldingar okkar þýddu eiginlega. Það var jafnvel skrífað um það í fréttum.Leikurinn í ár gengur út á handtöskuna þína eða veskið, hvort sem þú notar. Hvar leggur þú það frá þér þegar þú kemur heim? Þá getur þú sagt t.d. Mér finnst svefnherbergið best, þ.e.a.s. ef þú ferð oftast með veskið þangað. Settu bara þitt svar í status hjá þér og ekkert annað.
Klipptu þetta síðan út hér og sendu þetta bréf áfram til vinkvenna þinna hér á facebook. Leikurinn frá því í fyrra komst i fréttirnar. Sjáum hvað við komumst langt núna.
ATH. EKKI SETJA SVARIÐ ÞITT Í "REPLY" HÉR - SETTU ÞAÐ Á STATUSINN HJÁ ÞÉR. SENDU ÞETTA TIL ALLRA KVENNA SEM ÞÚ ÞEKKIR.
P.s. ekki segja karlkyninu frá þessu:-)

Að sjálfsögðu komu allar þessar meldingar á statusunum út eins og konunum þætti best að stunda kynlíf á viðkomandi stöðum. Nú er mér spurn hvernig í ósköpunum þetta tengist krabbameini? Þetta hljómar eins og: Við erum ungar og heilbrigðar konur (því ég held að yngri konur standi á bak við þennan gjörning) sem finnst gaman að stríða köllunum okkar með því að búa til forleik á feisbúkk fyrir villt kynlíf á gólfinu heima hjá okkur og við erum að styðja við bakið á konum sem hafa fengið brjóstakrabbamein í leiðinni.

Skil'etta ekki. Eins ganga statusar um að hvort sem brjóstin eru stór eða lítil (og meðfylgjandi teikningar) ætti að bjarga þeim öllum. Mér finnst þetta bara vísa til smekks karla á brjóstastærðum og hvað þykir tilhlýðilegt í þeim efnum, og nú má hver sem er vera ósammála mér.

Ég las erlenda grein sem ég hef nú týnt niður, sem vill meina að það sé ekkert krúttlegt við krabbamein. Auðvitað er sjálfsagt að sýna systurhug þarf þetta að snúast um "hí hí hí, konur að stríða köllunum sínum-samhug" Við erum ekki bara að bjarga brjóstum og sexúalíteti kvenna með því að styðja við krabbameinsrannsókinir. Við erum í sumum tilfellum að bjarga lífi þeirra.

Mottumars var skemmtilegur og vakti heilmikla athygli. Ég held að ég myndi svei mér þá vilja frekar rottumars svokallaðan (þar sem að skapahár kvennanna væru ekki fjarlægð í mánuð) til að verkja athygli á brjóstakrabbameini. Það snýst allavega ekki um að gera karlana þína spennta fyrir þér!

Það þarf ekki að vera með grát og gnístran tanna í baráttunni við brjóstakrabbamein, en reynum að halda okkur við efnið. Það er ekkert sexí við krabbamein og baráttan þarf að virða það.

föstudagur, 15. október 2010

Ærslafullar, eldri lesbíur að leik.

Ég er að fara að gera verkefni úr einni af minni uppáhaldsbók, Fröken Peabody hlotnast arfur. Verkið hefur ekki farið hátt á Íslandi, en því betur er Rúnar Helgi Vignisson, þýðandi, duglegur að þýða bækur allstaðar úr heiminum og hefur þýtt þessa áströlsku skáldsögu snilldarvel fyrir okkur Íslendinga. Höfundur verksins, Elizabeth Jolley, er upprunalega frá Englandi en fluttist ung til Ástralíu og nam þar hjúkrun. Hún eignaðist síðar fjölskyldu og einhvern slatta af börnum að mig minnir og var fyrirmyndarhúsmóðir. Sýn Jolley á lífið og tilveruna var þó ólík flestum. Hún Skrifar mikið um samkynhneigð, og þá sérstaklega lesbíur. Fröken Peabody hlotnast arfur er bráðsmellin lýsing á lesbíum á besta aldri í kringum 1980. Maður getur rétt ímyndað sér hversu mikið umræðan um samkynhneigð hefur breyst og Jolley tæpir raunar á tveimur tabúum: Lesbíum og kynlífi fólks komnu yfir fimmtugt. Útkoman eru því lýsingar á sjóðheitu kynlíf harðfullorðinna lesbía, sem verða þó aldrei algerlega berorðar.

Orðið lesbía kemur aldrei fyrir í bókinni. Reyndar þykir manni dálítið skrýtið að vinkonurnar þrjár, Fröken Thorne, fröken Edgely og fröken Snowdon hafi allar lesbískar tilhneigingar en kannski trúir Jolley á að fólk sé missamkynhneigt. Rúnar hitti Jolley og tók viðtal við hana og sagði að manni fyndist erfitt að trúa því að þessi vingjarnlega gráhærða kona gæti skrifað með þessum hætti. En Jolley er greinilega ekki öll þar sem að hún er séð og þrátt fyrir að gegna hefðbundnu kynhlutverki og vera móðir, tekur hún fyrir tilfinningar lesbíu sem finnst hún ekki eiga tilkall til móðurhlutverksins og reynir að beina ungum stúlkum á brautir menntunar og meninngar, allavega að allt öðru en móðurhlutverkinu. Um leið dáist hún að þeim konum sem eiga fjölskyldu og gagnkynhneigt líf. Jolley setur því spurningarmerki við hvort það sé ekki hægt að sameina fjölskyldulíf og það að vera samkynhneigður. Textinn er þó launfyndinn og það er augljóst að söguhöfundur nýtur þess að gera grín að konunum í bókinni. Mörgum gæti þótt sumir kaflar þeirra á mörkum þess að vera ósiðlegir, þar sem að fröken Thorne lætur ekki sitt eftir liggja þegar kemur að því að girnast kornunga nemendur sína í stúlknaskólanum sem hún stýrir. Við höfum öll séð myndina um Lolitu (ekki hef ég lesið bókina!), það var kominn tími á eitthvað nýtt!

Það eru tveir rauðir þræðir í bókinni að mínu mati, þótt einnig megi nefna samræðu texta og lesanda um skáldskap og menningu. Annarsvegar er það samkynhneigð og sú útskúfun sem þeir upplifa og hinsvegar nýlenda vs nýlenduherrar. Þarna skapast grundvöllur fyrir umræðu um svokölluð eftirlendufræði, http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=6135, (sorrý, man ekki lengur hvernig á að gera hyperlink!). Ástralir hafa löngum vegsamað allt frá heimalandinu, Englandi, þeir eru svolítið eins og Íslendingar, með minnimáttarkennd en reyna þó að spila sig stóra. Að eiga enga fortíð, geta ekki rakið ættir sínar nema takmarkað, hvílir þungt á þjóðinni; að vera kominn af nafnlausum föngum hjálpar ekki upp á sjálfsmynd þjóðarinnar. Fröken Thorne elskar allt sem evrópskt er og hún raunar elskar hið hefðbundna. Vandinn er bara sá að hún veit innst inni að þjóðerni hennar og kynhneigð stríðir gegn hinu svokallaða normi.

En þið verðið bara að lesa bókina og hér kemur ,,teaser" æsispennandi erótískt sturtu-/baðatriði á milli fröken Thorne og fröken Snowdon:

-Ó æðislegt Prickles!
Fröken Snowdon notar oft málfar skólastelpna þegar hún er með fröken Thorne [...]

-Ó frábært Prickles! Í vatnsslag! O, svo sannarlega! Komdu! Ég verð á undan þér!

-Þetta eru mjög laglegar flísar hérna á baðinu. Góður kraftur á vatninu líka.
-Mmm já. Kynæsandi. Heldur betur. Þetta er vitfirring mín kæra!

-Vitfirring! En gerðu það, haltu áfram!

-Höfum vatnið pínulítið heitara. Ah! þetta er allt annað. Ó, sjúkt! Prickles! Á ég að þvo þér?

-Auðvitað máttu gera það aftur. Eins og oft og þú vilt. Þú dýrlega dónalega. Oh ósiðlega dýrlegt.

Svo mörg voru þau orð!

mánudagur, 11. október 2010

Að draga andann.

Eins og venjuleg kona ákvað ég að fara á Eat, pray, love með vinkonum mínum. Vinnufélagar einnar þeirra grétu víst yfir myndinni. Ég get nú ekki sagt að mér hafi verið grátur í huga, enda endaði myndin vel eftir að aðalpersónan hafði gengið í gegnum ítarlega sjálfsskoðun og lært að elska sjálfa sig svo hún gæti elskað aðra.

Já já, óttaleg froða en fékk mig til að líta til baka þegar ég hef setið einhversstaðar, heima eða að heiman, í fullkominni kyrrð og sátt við dýr og menn. Og ekki síður, sátt við sjálfa mig.

Lífið hefur liðið áfram síðustu ár án margra slíkra augnablika, margt er í móðu og margir dagar voru ekki beinlínis þrungnir lífsþorsta. Það gekk svo langt að einu sinni sagði vinkona mín sem var í skóla erlendis á þeim tíma og var að fara aftur út eftir páskafrí: ,,Í guðanna bænum, farðu nú ekki að drepa þig á meðan ég er í burtu." Hvað gerir maður án vina sinna á ögurstundum?

Í sumar átti ég hreint og beint yndislega daga í Kenýa þegar að ég fékk að vera ein heima í þrjá daga. Ég var í sjálfboðaliðavinnu og enginn mátti af mér sjá, allir urðu að passa upp á mig og ég, Íslendingurinn sem var vanur að gera hvað sem var, hvenær sem var, var gjörsamlega að kafna. Með undanbrögðum náði ég að losa mig við yfirboðara mína og eyddi þessum hreint yndislegu dögum í að gera hreint, þvo þvott og elda mat. Húsverkin héldu mér upptekinni, tíminn var ekki til og ég fékk að laga mig að hinu daglega lífi án nokkurra afskipta. Það kom fyrir að ég dæsti af ánægju því sá sem hefur verið sviptur frelsinu tímabundið, finnur hvað það er dýrmætt þegar hann öðlast það aftur.

Núna nýt ég þess að sitja heima og lesa bók eða drekka te í einsemd minni. Ég er líka svo heppin að meðleigjandi minn og vinkona hefur mjög þægilega nærveru og við getum setið í sitthvoru horninu og ýmist talað eða þagað, allt hvað hentar hverju sinni. Ég er ekki lengur hrædd við það frelsi sem felst í að vera einn. Ég var einu sinni hrædd við að vera ein með hugsunum mínum sem sögðu mér alltaf að ég ætti að vera að gera þetta og hitt. Þetta gerði það að verkum að ég breytti hugsununum í mók og ýtti frá mér verkefnum. Ég deyfði mig með því að forðast heiminn, forðast lífið og forðast sjálfa mig.

Það er ekki þar með sagt að ég hafi öðlast einskonar ,,nirvana." Líf mitt verður aldrei fólgið í að biðja, borða og elska að hætti Juliu Roberts (þótt þetta komi nú eitthvað við sögu) en vonandi öðlast ég hugarró og það með fullri meðvitund. Nú til dags koma því betur þau augnablik þar sem ég halla mér aftur í stólnum, dreg andann djúpt og þakka fyrir að vera hér. Ein með sjálfri mér.

mánudagur, 4. október 2010

Merki og borðbúnaður.

Ég vissi ekki að forsætisráðherra ætlaði að halda stefnuræðu í kvöld og nú má hver sem er hneykslast. Það fyrsta sem ég hugsaði var ,,Æi, þetta tekur yfir alla sjónvarpsdagskrána." Svo áttu að vera mótmæli, puff. Við Ásthildur, meðleigjandi minn, skelltum okkur niðrí bæ í þeim tilgangi að kíkja á stemmarann og fá okkkur ís. Við sáum lítið. Reyndar hófst flugeldasýning þegar við vorum vel á veg komnar á Laugaveginum. Svo sáum við eld og einhvern rauðan fána, sem ég giskaði á að væri kommúnistafáninn og ætti að brenna við mikla viðhöfn. Við tókum myndir af okkur, allt í þágu erlendra vina á facebook, thumbs up við löggubíl í Austurstrætinu og enduðum túrinn á ís með súkkulaðidýfu.

Nú heyri ég malið í umræðunum á Alþingi, búin að rífa úr mér heyrnartækin og hugsa minn gang. Þegar ég hafði lokið við að skrifa fyrirsögnina hér að ofan, kallaði Ástý í mig og sagði að fáninn rauði væri faktískt af Che Guevara og síður en svo á leiðinni í eldinn.

Ókei.

Ég ætla svosem ekkert að fara að þusa um hvað Íslendingar eru vitlausir, þeir eru ekki vitlausari en hverjir aðrir. Við erum eins og við erum af ákveðnum ástæðum. Ísland er vel stæð Vesturlandaþjóð, velferðarríki. Ja kannski erum við ekki mjög vel stæð núna, en einhvernveginn virðist nú fólk hafa í sig og á. Ég man þegar að Mímí systir kom frá Kólumbíu um árið eftir eins árs dvöl. Hún sagðist hafa farið í Kringluna og fengið sjokk. Allt fékk aðra merkingu. Þegar hún sá viðtal við konu sem klæddist pels fyrir utan Fjölskylduhjálp og taldi sig eiga um sárt að binda fékk hún líka sjokk. Er það brútal að hneykslast? Ég veit það ekki, ég hef aldrei verið í þeim sporum að þurfa að standa í röð og þiggja matargjafir. En sá möguleiki er fyrir hendi hér á landi. Ríkisstjórnin er vanhæf vegna ummæla síðustu daga. Fyrrverandi stjórnarflokkar eru vanhæfir vegna þess að þeir eru búnir að gleyma að hrunið varð undir þeirra stjórn. Auðvitað er ástandið slæmt, en ekki flagga fána af frelsishetju þjóðar þar sem að blessuð Fjölskylduhjálpin er gott sem engin.

Fyrrnefnd systir mín segist ekki skilja fólk sem hugsar mest um merkjavöru og borðbúnað. Margir Íslendingar hafa áhuga á slíku en fæstir þeirra ættu hinsvegar að hafa efni á því þessa dagana. Ég veit svosem að mótmælendur margir hverjir eru kannski ekki mikið að spá í borðbúnað þessa dagana, en mamma þeirra á kannski Georg Jensen og það hefur alltaf þótt eðlilegt.

Er ekki allt í lagi að hafa ekki efni á óþarfa? Ég meina, allavega í smástund.

sunnudagur, 3. október 2010

Brúðkaup og jarðarfarir

Stundum erum við svo hrædd um að lífið skilji okkur eftir í einsemd okkar að við missum af aðalatriðum þess. Já eða kannske hinu smáa sem einkennir það. Gömul klisja og vel þekkt en hvers vegna ekki að minnast hennar af og til. Ég horfði á hina vel þekktu, og jú svolítið klisjukenndu (en klisjur eru góðar og í rauninni sannar, þess vegna koma þær svona oft fyrir) með öðru auganu í gær. Þar er Hugh Grant í því hlutverki sem hann síðar festist í áður en hann umbreyttist í hlutverki skíthælsins, semsagt feiminn og undirleitur en óneitanlega sjarmerandi í vandræðagangi sínum. Hann verður ástfanginn af hinni afar ósjarmerandi Carrie, sem er ábyrgðarlaus með öllu og teymir hann á asnaeyrunum allan tímann, en hún er samt gellan í myndinni og hlýtur hinn seinheppna Hugh Grant að lokum. Á meðan má hin kuldalega en ógeðslega töff Kristin-Scott Thomas, í hlutverki Fionu, lúta í lægra haldi fyrir þessari amerísku drós, en hún hefur verið ástfangin af Charles í fleiri ár. Reyndar er rosa gott að þau tóku ekki saman því hún þarf öllu ákveðnari mann og hressilegri.

Ó, en hversu fallegir eru ekki hinir karakterarnir, hin leitandi og svoldið lost Scarlett, áðurnefnd Fiona, hinn seinheppni en raunsæi David og síðast en ekki síst, parið Matthew og Gareth sem eru þeir einu af vinunum í upphafi myndarinnar sem hafa fundið sanna ást í hvor (Hvorum? Endilega leiðréttið) öðrum. Að sjálfsögðu þarf sú ást að líða fyrir fráfalls hins gassalega og bráðskemmtilega Gareths, sem hlýtur bíræfna en afskaplega fallega athöfn fyrir tilstilli maka hans, Matthew.

Eins og allir aðdáendur myndarinnar muna er tilfinningaþrungnasta atriði hennar þegar Matthew fer með ljóð W.H. Auden, Funeral Blues, í jarðarför Gareths. Hér kemur ljóðið í heild sinni í fallegri golu þessa sunnudags. Sorrý hvað ég er væmin, það gerir þessi kvikmynd sem allir verða að sjá, líka þeir sem halda sig of kaldhæðna og listræna til þess.

Funeral Blues

Stop all the clocks, cut off the telephone,
Prevent the dog from barking with a juicy bone,
Silence the pianos and with a muffled drum
Bring out the coffin, let the mourners come.

Let aeroplanes circle moaning overhead
Scribbling in the sky the message He Is Dead,
Put crêpe bows round the white necks of the public doves,
Let the traffic policemen wear black cotton gloves.

He was my North, my South, my East and West,
My working week and my Sunday rest,
My noon, my midnight, my talk, my song;
I thought that love would last forever: I was wrong.

The stars are not wanted now; put out everyone;
Pack up the moon and dismantle the sun;
Pour away the ocean and sweep up the wood;
For nothing now can ever come to any good.

laugardagur, 7. ágúst 2010

Tru og von

Fyrst vil eg bidjast afsokunar a bloggleysi. Tilfellid er ad eg timi ekki og hef ekki tima til ad fara a netid i baenum plus thad ad eg hef nu arangurslaust morg skipti i rod reynt ad fara a netid i framhaldsskolanum fyrir nedan grunnskolann en thad er alltaf eitthvad sem virkar ekki.
Nu jaeja, ad sjalfsogdu er heilmikid buida ad gerast en eg veit ss ekki hvar skal byrja.
Fyrir thad fyrsta er nyafstadin thjodaratvkvaedagreidsla um nyja stjornarskra. Ekki hafa verid gerdar jafn drastiskar breytingar a skranni sidan landid fekk sjalfstaedi arid 1963. Ad sjalfsogdu voru morg hitamal vidvikjandi henni, svosem leyfi til fostureydinga og einkadomstoll fyrir muslima, kalladur Kadhris rettur. Fyrst helt eg ad leyfa skyldi fostureydingar, en thegar eg ryndi betur i skrana reyndist fostureyding adeins logleg ef um neydartilfelli er ad raeda, th.e. lif modurinnar er i haettu. Samt sem adur var thetta hitamal fyrir kristna sem margir hafa barist med kjafti og klom gegn skranni. Tha er komid ad Muslimalogunum en kristnir voru lika a moti theim, sogdu ad thad myndi ala a sundurlyndi i landinu osfrv. Eg las ahugaverdan ppunkt i dagbladi fyrir nokkru thar sem ad greinarhofundur benti a ad truin vaeri svo sterk i Kenya vegna thess ad thorf fyrir tru vaeri svo sterk. Fataekt gerir thad ad verkum ad folk tharf ad trua a aedri matt i von um betra lif. I Vesturheimi ma segja ad peningar hafi komid i stadinn fyrir gud, visindin hafa leyst truarbrogdin af holmi, en thad thydir ekki ad folk thurfi ekki von og styrk. Fordomar minir gagnvart trumalum komu sterkt fram i byrjun dvalar minnar. Thott faerslan her ad nedan hafi nu mestmegnis verid grin fannst mer eg oft vera ad kafna i predikunum og og gapandi folki yfir ovissu minni um gud. Smam saman hef eg skilid hvers vegna folk truir. EF undan er skilin afneitun samkynhneigdar (Ekki fannst Paranai nu gott ad forsaetisradherra Islands vaeri lesbia!) vill thetta folk gera odrum gott. Thad laetur orlog sin i hendur guds (ef gud lofar, er algengt ordtak her, og talad er um fyriraetlanir guds) og reynir ad lifa dyggdugu lifi. Thad sem mer fannst svolitid snidugt er ad i skolanum fengu stulkur serstaka fraedslu um hvernig hondla ma lifid betur, um menntun, hvernig stulkur odlast jafnretti og god rad vardandi fjolskyldu. Thad var prestur sem fraeddi og sjalfsagt hafa komid upp mal eins og fostureydingar og samkynhneigd, en tharna hafa komid godir punktar inn a milli og er eg viss um ad krakkar a Islandi hefdu gott af sma sidfraedi a thessum notum.
Ae eg get ekki haft thetta lengra ad sinni. Segi ykkur fra ferd minni til Mombasa naest en eg er einmitt stodd thar i borg nuna. Et stanslaust kebaba og sotradi besta kaffi sem eg hef smakkad i gaer. I dag er svo stefnan sett a strondina og a manudag er mer bodid i risahadegismat til muslimafjolskyldu, en eg kynntist fjolskyldufodurnum thegar eg leitadi logandi ljosi ad mosku nokkurri. Hadegisverdurinn verur stor thvi ad fastan er ad byrja og tha tharf folk forda til ad endast ;)Thetta er hreint dasamleg ferd og eg maeli nu bara med ad ferdast einn thvi tha faer madur taekifaeri til ad kynnast folki thott madur thurfi ad sjalfsogdu ad velja vandlega ur.

Baejo i bili
Loba

þriðjudagur, 6. júlí 2010

Mzungu in trouble

Helgin var, tja vid skulum segja vidburdarrik...
A laugardaginn for eg semsagt i lengstu messu a minni stuttu aevi i kirkjusokn Paranai. I ofanalag voru pinlegar uppakomur thar sem eg kom vid sogu mjog tidar. Fyrst voru allra augu a mzungu (hvit manneskja) og ein stelpan horfdi svo fast a mig ad thad var engu likara en hun vaeri ad saera ur mer djofulinn sjalfan. Mzungu var latin standa upp og kynna sig og presturinn beindi reglulega spurningum ad mer, sumar skildi eg nu ekki alveg, adrar vordudu sidferdi a Islandi. Megininntak raedunnar var ad vegir guds eru orannsakanlegir og vid getum ekki sed fram i timann. Hvad skyldu islenskir midlar segja vid thessu? Paranai fletti nyja testamentinu fyrir mig i grid og erg eftir thvi sem visad var i og thvi var erfitt fyrir mig ad lesa Korintubrefid sem hefur ad geyma textann vid lag Johanns G., Kaerleikur. Er ad spa i ad lata krakkana syngja thetta og var ad tekka hvort enski textinn passadi vid lagid. Ja skamm skamm, en madur verdur nu ad sinna vinnunni!

Eg verd ad segja ad eg datt stoku sinnum ut thratt fyrir ad elskulegur presturinn flytti hluta raedunnar a ensku serstaklega fyrir mig. Ein spurningin sem borin var a bord fyrir mig tengdist einhverju sem eg hafdi ekki hlustad a. Ups! Presturinn kom ad mer med krepptan hnefann og spurdi mig akvedinn hvort thad sem hann heldi a i lofa sinum vaeri lifandi eda dautt. Fyrst yppti eg oxlum, enda hafdi eg ekki hugmynd um hvad madurinn var ad tala. Svo giskadi eg hafleyg a ad hann heldi "a living spirit:! Madurinn thraspurdi og sagdi ad lokum ad svarid sem hann hafdi vonast eftir vaeri einfaldlega ad eg vissi thad ekki. Fari thad grabolvad! Vid munum ss adrei vita hvad naesti madur hefur i hendi ser ganvart lifinu thvi thad er hans personulega mal. Ok, eg get fallist a thad.

Eftir messuna kynnti prestuinn sig sem James og reyndist hann vera eiginmadur adstodarskolastjora Shartuka. Nu thau hjonin budu okkur i mat, baunakassu sem eg hafdi ss enga serstaka lyst a. Svo tok myndasyningin vid. Gud minn godur svo eg leggi nu nafn hans vid hegoma. Kallinn var med thykkan stafla af myndum en myndefnid var ad mestu hid sama. Nu hann dro svo fram annan stafla og eg fann ad Paranai var farin ad okyrrast enda aetludum vied ad eyda eftirmiddeginum med foreldrum hennar. Eg helt ad eg yrdi ekki eldri thegar ad kallinn dro fram thridja staflann, hnausthykkan. Paranai var nu farinn ad hrifsa myndirnar af mer til ad hrada syningunni. I midri syningu a stafla nr thrju gerdist eg svo djorf ad segja ad vid yrdum ad drifa okkur ef vid aettum ad komast heim fyrir myrkur. Presturinn fellst a thad og eg dreif mig ad thakka fyrir mig, en nei. "Wait, wait, wait" sagdi presturinn med akafa< "Let us pray" Tharf eg ad segja meira?

Loksins komumst vid til mommu Paranai. Eg var daudfegin og hamadi i mig gomsaetan kjukling og tvo bolla af chai. Litil brodurdottir Paranai, um eins ars, var a stadnum. Undarlegt nokk var hun ekki hraedd vid mig og vildi vera hja mer. Ad lokum sofnadi greyid i fanginu a mer. Vid Paranai vorum dressadar upp i hefdbundin Masaifot og svo voru teknar myndir. Eg leit ut eins og fill i munderingunni!

A sunnudaginn forum vid svo i skrautferd med tvitugum strak ad nafni Lemisho, sem hefur thann starfa ad hlada sima. Lesimoh elskar sudur-ameriskar sapuoperur, so nice segir hann. Fullkominn kandidat til ad horfa a Grey's anatomy med ;) Svo kallar hann mig "lovely, dear Thorunn" og mamma hans kallar mig "beautiful Mzungu" Eg er nokkud anaegd med thau maedgin. vid Lesimoh erum mjog fyndin ad okkar mati og vorum ad spa i ad hanna hringiton i sima sem inniheldi "how are you, how are you?" eins og krakkarnir skraekja si og ae ad mer. Slikur hringitonn myndi nu endanlega fara med mig!

Nog i bili

Loba

mánudagur, 28. júní 2010

Eg er semsagt i Nairobi nuna til ad lata laga heyrnartaekin en annad var alveg dautt. Eg var satt ad segja ekki vongod um ad thetta mal myndi leysast en viti menn, vid fundum heyrnarserfraedinga sem komu taekinu i lag og haekkudu i theim badum ad auki. Annar var agalega huggulegur ungur madur med gridarlong augnhar en hinn var ollu eldri med risastor gleuraugu. Afskaplega naes badir tveir. Eg held svo aftur til Shartuka i fyrramalid og verd ca 8 tima a leidinni. Jibbi!

Nema hvad... Masai Mara var frabaer stadur ad ollu leyti. Reyndar hofdu kennararnir sagt mer ad eg myndi fa herbergisthjonustu og thad yrdi pool a stadnum! Uhh eg var nu heldur skeptisk a thad svona midad vid ad thetta var skipulogd ferd fyrir fataeka sjalfbodalida, enda kom i ljos ad vid gistum i tjaldi, reyndar mjog storu og huggulegu, slatti af kongulom deildu med okkur herberginu og herbergisthjonustan stod nu eitthvad a ser ;) En thad var sturta og klosett og harid a mer var hreint i fyrsta skipti i 3 vikur. Ef thad telst ekki luxus tha veit eg ekki hvad.

Vid heldum i skodunarferdir snemma a morgnana og saum ljon, buffaloa, giraffa, hraegamma, sebrahesta og margt fleira. Giraffarnir voru oneitanlega i uppahaldi hja mer. Ad sja tha standa upp ur trjanum eins og alfar ut ur hol var alveg oborganlegt. Eg nadi lika myndum af sebrahestarossum sem mer fannst einkar skemmtilegt ad festa a filmu. Ljonsungar eru hryllileg krutt! Treysti mer samt ekki til ad skella mer ut og knusa einn svona upp a mommuna ad gera!
A thridja degi heldum vid enn af stad og eg verd ad vidurkenna ad tha var min ordin heldur leid a wildlife. Auk thess hofsum vid sleppt morgunmatnum og thad for nu ekki vel i mig ;) Vid eyddum tho ekki nema tveimur klst i thetta sight-seeing og mer var ordid oglatt af hungri thegar eg fekk loks ad gradga i mig pylsur, egg og baunir.

Annars er maginn eitthvad ad strida mer og eg hef verid halfslopp sidan a fimmtudaginn. Eg tel fransbraudsati um ad kenna th.e.geri sem er algengt i braudi. Thar sem ad Paranai smyr handa mer um thrjar samlokur med smjori a hverjum morgni, er kannski ekki nema von ad stadan se svona. Vid erum ad tala um 6 braudsneidar Mimi, og thad er ekki langt fra niu sneidum, thott thad se bondabraud! Hid margfraega ugahli, sem er etid her i oll mal, er lika ur maismjoli og vatni og eg er ekki viss um ad thad se ad gera sig. Nu vantar gomlu godu ab-mjolkina!
Eg veit ekki hvad Paranai min segir vid thessu, serstaklega ef eg fer ad fulsa vid matnum hennar og reyna ollu lettara faedi. Eg er ekki viss um ad hun verdi satt, enda skilur hun ekki matarvenjur minar, th.e. ad eg geti hreinlega ekki bordad a vid hross.

Annars var fint ad komast adeins i burtu thott eg hlakki til ad koma "heim" Eg var ordin svolitid sensitiv thvi krakkarnir eru bardir i skolanum ef their haga ser illa og thegar einn kennari, sem mer likar mjog vel vid, reyndi ad faera rok fyrir thessu med thvi ad segja ad thad yrdi ad aga Afrikumenn med thessum haetti fekk eg halfpartinn nog og gat ekki horfst i augu vid hann thad sem eftir lifdi dags. Eg verd samt ad laera ad taka thetta ekki inn a mig. Thetta er einfaldlega annars kultur.

Nu aetla eg ad reyna ad finna hafragraut i supermarkadnum og kikja a pils i leidinni. Eg reyni ad utskyra my standard of living Benni i naesta bloggi ;) Vid skjaumst, ha ha :)

Lobs

sunnudagur, 27. júní 2010

Tequila!

Jaeja, eg tharf nu eiginlega ad blogga her dag eftir dag, thvi thad er svo langt sidan eg hef komist i tolvu af viti.

Eg er komin til Nairobi eftir aevintyralega ferd i Masai Mara thjodgardinn um helgina. Held ad eg verdi samt ad hverfa adeins aftur til Shartuka og segja ykkur frettir lidinna daga.

Blessud kennslan gengur nokkud vel fyrir sig nema eg er buin ad komast ad thvi ad eg er svona helmingi verri i ensku en eg helt ad eg vaeri. Eg er ss ad kenna 8 klassa og er bara hreint ekki alveg sjur a malfraedinni! Eins gott ad eg er med kennaramanual med mer! Thad sem er nu skemmtilegast er tho sk creative arts, sem eg kenni adurnefndum 8 bekk og er adeins byrjud ad kenna 3 bekk lika. Thau i thridja bekk eru nottla snillingar. Thau standa idulega upp og oskra "teacher, teacher" thegar kennarinn spyr um eitthvad, oll naudarokud og skitug. vid tokum nu gamla goda Hoki poki i fyrsta timanum sem eg kenndi theim creative arts. Veit ekki hvort thad thykir mjog menningarlegt en thad skemmtu ser allavega allir supervel. Vid tokum sma leiklistaraefingu lika og tha voru mikil laeti.

Attundi bekkur er i adeins odruvisi gir enda ekki nema von.Vid erum buin fara i gegnum leiklistina thar sem eg let thau medal annars leika dyr og dialoga thar sem hver og einn fekk akvedna tilfinningu til ad tulka. Einn var ooruggur a spjalli vid einn mjog svo sjalfsoruggan, annar var aesispenntur ad peppa upp fylupuka og svo tokust a dramatisk manneskja og komisk. Tilfinningin sem vakti tho einna mesta lukku var astin. O ja, thessi feimnu krakkar sem thora ekki einu sinni ad snerta hvert annad fylgdust spennt med samtali tveggja astfanginna einstaklinga, og thad thurfti meira ad segja ad skipta ut leikurum oftar en einu sinni til ad endurtaka leikinn. Thetta gladdi mitt gamla romantiska hjarta, en eg hafdi samid agalega vaemid samtal, thar sem hikandi, blidur drengur faer ad heyra ad stulkan se astfangin af honum. Eg lagdi mikla aherslu a mykt drengsins, enda sagdi eg margoft ad mjukir menn vaeru sterkir af thvi ad their thekktu tilfinningar sinar, ha ha.

Vid forum svo ut i dansinn naest og eg tok audvitad gomul skref ur danskennslunni i Storutjarnaskola til ad kenna ungmennunum! Ja mambo var thad heillin en tha vandadist reyndar malid. Adalvandamalid voru ekki sporin sjalf, (thott strakarnir hafi sidur en svo nad tokum a theim ;)) Heldur su stadreynd ad i thessum dansi thurftu strakar og stelpur ad snertast. Haldidansinn var ekki ad koma vel ut. Thau hlogu thegar eg tok einn strakinn ut og helt fast i hann og let hann dansa vid hann. Thad ad greyid thurfti ad halda utan um mittid a mer for alveg med hann. Auk thess sprungu thau ur hlatri thvi i hita leiksins hofdu naerbuxurnar gaegst upp ur buxunum hja mer, enda eru thaer ordnar ansi storar a mig og leka sifellt nidur! Ja madur er ordinn eins og sumir i kennslunni, their sem til thekkja vita sennilega hvad eg a vid;) Nu ekki vildi eg thvinga krakkagreyin i eitthvad sem thau vildu ekki og stakk tha upp a ad thau myndu alls ekki snertast bara dansa sporin a moti hverju odru. Nei, thetta gekk ekki heldur og ad lokum donsudu strakar vid straka og stelpur vid stelpur.
Thegar thad var loksins komin nidurstada i thetta mal, tok min ad humma mambolagid fraega "Tequila" og greyin urdu bara ad saetta sig vid mina fogru songrodd thvi enginn er geislaspilarinn. Thad hofdu tho allir gaman ad thvi thegar eg stodvadi dansinn til ad retta upp hond og kalla "Tequila" og thau hermdu sidan eftir mer thvi aldrei komust thau inn i taktinn, en thad var nu kannski ekki nema von eftir tveggja tima kennslu.

Svo nu er eg komin til Nairobi og Silas vinur minn ur 8 bekk vidurkenndi nu feimnislega fyrir mer ad thau myndu sakna min thessa daga sem eg yrdi i burtu. Eitthvad skemmtir fiflaskapurinn theim og mikid lifandi skelfing er thad gott. Gott ad madur veki allavega katinu medal nemendanna.

Eg blogga svo sennilega um Masai Mara ferdina a morgun eda hinn.
Godar stundir
Madame Loba

mánudagur, 14. júní 2010

Paranai

Jaeja nu er madur kominn a veraldarvefinn sem dettur stodugt ut her i Kilgoris. Reyndar bidur motorhjolagaeinn sem a ad skutla mer heim eftir mer, en their eru nu svo slakir herna ad hann getur varla verid mj stifur a thvi. Enda hafa kenysku sjalfbodalidasamtokin att i vandraedum med Thjodverja. Passa ekki alveg inn i rythmann ;)

Eg hef eignast vinkonu. Hun er 14 ara. Ok ok eg veit thad er pinu aldursmunur en okkur kemur virkilega vel saman. Hun heitir Paranai og byr med mer i litla husinu og eldar ofan i mig og thvaer af mer og eg veit ekki hvad og hvad. Reyndar reyni eg nu ad taka thatt i thessu annars mjog kosy heimilishaldi en Paranai virdist vera a undan mer i ollum athofnum og sinnir husverkunum af natni og alud. Vid bidjum svo fyrir maltidirnar og einu sinni atti eg ad bidja en su baen var ansi stutt thvi eg vissi ekki alveg hvad eg atti ad segja. Vid fengum frosk i heimsokn og rekstur hans ut veitti okkur mikla skemmtan. Paranai segist vera hraedd vid froska og frikadi ut thegar eg sagdist geta tekid hann og skutlad honum ut. Hun bara hlo og hlo og fannst thetta uppataeki mitt ansi furdulegt. Ad lokum nadum vid ad reka kvikindid ut med sopinn ad vopni.

Eg heimsotti fjolskyldu Paranai i gaer og var thad heilmikid upplifelsi. Fyrir thad fyrsta a kallinn pabbi hennar 4 eiginkonur. Tvaer theirra eru nagrannar en hinar bua lengra i burtu. Eg spurdi kallinn hvort hann faeri tha hvort hann ferdadist a milli og ju ju, hann tharf ad sinna thessu og ollum thessum 24 bornum sem hann a! Thad vantadi nu samt ekki almennilegheitin og thad var trodid ofan i mig storum skammti af sodnum bononum og nottla eins miklu chai tei og haegt var enda tjodardrykkur her i landi. Eg fekk nett sjokk thegar eg kom til mommu hennar. Thaer maedgur bua i tveimur husum byggdum ur drullu og i flestum herbergjum var ottalegt rusl og konguloarvefir allstadar, Paranai er samt sem adur mj thrifin en veit ekki alveg med mommuna, sem heitir by the way Mini, bara svona ef Mimi skyldi vilja vita. Thvi betur hef eg alltaf truad ad akvedid magn af drullu styrki onaemiskerfid og er ekki med hreinlaetisarattu, en samt sem adur hugsadi eg mig pinu um adur en eg bragdadi a thessum finu bononum sem eg klaradi fyrir rest. Her er svoleidis trodid i mig ad islenskra husmaedra sid og beinlinis sagt "you have to eat" Svo madur gerir ekki annad en ad hlyda. I ofanalag er thetta allt kolvetni. Eg kem heim eins og tunna!

Thegar kom ad "my third mother" eins og Paranai kalladi thridju eiginkonu fodur sins, tha voru thar ekkert nema born. Kallinn var mj anaegdur med ad eg skyldi taka svona vel a moti Paranai og thakkadi mer i bak og fyrir svo eg vard halffeimin, enda ser Paranai algjorlega um mig svo thad er mitt ad segja takk. Eg er nu farin ad heilsa a Masaimali, eda thad sem kallast Maa mal. Allir nottla aenagdir med thad. Tharna var lika albrodir Paranai sem eg heldt ad vaeri giftur og aetti born og spurdi hvar krakkarnir hans vaeru. Humm hann sagdist nu vera ogiftur. Seinna kom i ljos ad Paranai telur hann vera um 17 ara! Eg var buin ad tala heilmikid vid hann og var glod ad finna "jafnaldra" minn. Humm spur ning hvort okkar er throskadra ;)

Thegar eg spuyrdi svo um toilettid kom i ljos ad thad var ekki til stadar. Oh Thorunn fiflid thitt!

Ekki meira i bili, verd ad tekka a farinu.

Baebs
Loba

föstudagur, 11. júní 2010

Shartuka

Jaeja, taeplega vika lidin a nyja stadnum og eg get ekki sagt annad en eg hafi thad storgott. Med odrum ordum: thetta er aedi! Skolastjorinn i Shartuka Primary School tok a moti mer med virktum og ser akaflega vel um mig. Eg mun bua hja honum og fjolskyldu hans, en konan hans hefur verid veik og eg hef hingad til buid i litlu husi vid skolann, thar sem mer er faerdur matur og vatn a hverjum degi.

Fyrir thad fyrsta eru allir mjog almennilegir. Her heilsast folk med handabandi nanast i hvert sinn sem madur hittir thad og flestir theirra eru mer okunnugir (audvitad voru allir mer okunnugir i fyrstu en madur hefur nu kynnst kennurunum adeins). Einu sinni hef eg heilsad ad Masai sid en thegar madur heilsar gomlum Masaia beygir madur hofudid fram og hann leggur hond sina a thad. Thad thykir okurteist ad horfa beint i augun a gomlum Masaia, allavega medal theirra sem halda fast i hefdirnar. En meira um Masaia sidar.

Thad sem er kannski skritnast og erfidast ad venjast er thad ad madur er halfgert celeb a stadnum. Hello, how are you, kemur ur ollum attum og pinulitlir krakkar elta mig og skrikja og finnst thessi storskritna kona bradskemmtileg a ad lita. Ekki eru their fullordnu skarri thvi stundum er komid fram vid mig eins og eg se konungborin eda thad finnst mer allavega. Eg fae ad sitja fremst asamt domurum i storri tonlistar- og danskeppni medal krakkana, er faert kok og deduad vid mig a allan mogulegan mata. Athyglin er samt alls ekki neikvaed en fyrstu dagan fannst mer eg thurfa ad brosa svo mikid ad eg var komin med verk i kjalkana!

Kennslan gengur nokkud vel. Eg er ekki ordin mjog sjoud enn en thetta sma kemur. Eg kenni elsta bekknum thar sem krakkarnir eru a bilinu 13-15 ara. Eg vonast samt til ad fa ad kenna smaskottunum adeins thvi thau eru svo skemmtileg. Unglingarnir eru gerolikir islenskum unglingum. Thau eru afar stillt thott thad taki thau timann sinn ad byrja a verkefni og her er til sids ad thau standi upp thegar kennarinn kemur inn i stofuna og eftir ad thau hafa klappad fyrir kennslunni bida thau hljod vid bordin sin thangad til eg er komin ut. Eg er kannski ekki mjog hefdbundin i kennslunni ad ollu leyti, eg hef reyndar aldrei sed hina kenna, en eg byst vid ad thetta se ollu frjalslegra hja mer, svona ad islendkum sid. Eg var alveg lost i thessu klappi og thessu ollu saman og spurdi hvort thau aetludu ekki i friminutur thegar timinn var buinn, eg drattadist svo loks ut og skildi hvernig i malinu la. I ensku fengu thau thad klisjukennda verkefni ad skrifa eina sidu eda svo um hvernig thau haldi ad lif theirra verdi eftir 30 ar. Sum theirra skildu ekki verkefnid og attu erfitt med ad nota skopunarkraftinn. Thad er skiljanlegt thvi thau bua vid allt adrar adstaedur og lita svo a ad theirra bidi frekar hefdbundid lif sem tharf ekki ad fjolyrda um.

Vardandi klosettmal sem eg veit ad er alltaf vinsaelt umfjollunarefni tha gengur thetta ss agaetlega ;) Madur gerir tharfir sina i holur sem eru venjulega mjog daunillar og osnyrtilegar a allan mata. Eg pissa reyndar alltaf ut fyrir, en um adrar adgerdir aetla eg ss ekki ad fjolyrda en haegt er ad segja ad thad gangi skammlaust fyrir sig ;)

Jaeja eg aetla ekki ad hafa thetta lengra i bili en thad er ymislegt fleira ad fretta sem eg rek i naesta pistli sem verdur vonandi ekki eins skyrslulegur.

Bless og takk og ekkert snakk
Loba

laugardagur, 5. júní 2010

Kilgoris

Jaeja, nu a eg bara eftir lokasprettinn til Transmara thar sem eg mun dvelja naestu tvo manudina. I augnablikinu er eg stodd i Kilgoris sem er sa baer sem er naestur stadnum. Thad er ofsogum sagt ad Kilgoris se saetur baer. Her uir og gruir i sjoppum hverskonar og hotelum, sem eg skil ekki alveg thvi ibuafjoldi er um 4.500 (a staerd vid Isafjord) og her a ekki nokkur kjaftur leid um! Kilgoris hefur tho sinn sjarma. Eg og Elizabeth sem fylgir mer gistum a thessu fina hoteli, eda ja tja svoleidis. Allstadar er ljosturkisblar litur sem mig langar ognarmikid ad mala eldhusid mitt i, svona i framtidinni. Spurning um ad spyrja hvar their na i alla thessa malningu.

Thad er talid ad enginn buss fari a stadinn, og their voru lika haettir ad keyra thegar vid komum i gaer. Astaedan er su ad logreglan herjar a bussana og pikkar ut hvert smaatridi sem their telja ologlegt til ad hirda pening af bilstjoranum. Polisid er mjog fegradugt her um slodir og notar hvert taekifaeri til ad na ser i aura!

Thad er thvi upp a teningnum ad vid forum a motorhjolum. Gud minn almattugur, eg a motorhjoli. Eg sem keyrdi skellinodruna hans Ella upp i skafl saella minninga!

Thad er liklega ekkert ragmagn a stadnum sem eg by a og madur verdur ad thvo ser med thvi ad skvetta a sig vatni ur bala. Harid a mer verdur liklega skitugt i allt sumar! Klosettid er hola en fjolsk min mun kaupa klosettpappir handa mer, annars skeina menn sig med dagblodum.
Eg mun lifa a medal Masaia, folki sem er afar annt um arfdleifd sina og madur ma passa sig ad adlagast og modga ekki neinn. Thad er akvedid dresscode. Thad mesta sem ma syna er stuttermabolur og pils sem naer nidur fyrir hne

Jaeja aetla ekki ad lata Elizabeth bida, naest er thad motorhjolid!

Baejo spaejo
Loba

fimmtudagur, 3. júní 2010

Af klosettholum, ondum og fleiru

Dagurinn i gaer var ansi litrikur. Slummid var otruleg sjon og madur bara gapir yfir tholgaedi thessa folks sem byr vid eins hormulegar adstaedur.

Allavega. Umferdin her i Nairobi er nottla alveg met. Thegar madur fer yfir gotu gildir frumskogarlogmalid ( haha, gaman ad minnast a thad her i Afriku), her eru engar oh man ekki hvad thad heitir a isl, ja sko zebra walkings, nema i midborginni, og madur tharf ad passa sig a bilunum eins og pabbi nefndi vid mann thegar madur var ad fara til Reykjavikur her i denn.
Thad fyndna er ad thad virdist engu skipta ad thar sem ad eru zebra walkings tha er ekkert verid ad fara eftir graena og rauda kallinum. Gangandi folk og akandi eru i stridi vid hvert annad og ad bill stoppi fyrir vegfarandi er ekki til i daeminu.

Hapunktur dagsins i gaer ( fyrir utan slommid) var samtal mitt vid hann Eric, lettadrenginn hja samtokunum. Hann sotti mig a rutustodina eftir arangurslausa ferd i baeinn til ad taka ut pening i hradbanka (fiflid gleymdi kortinu!). Thad fyrsta sem Eric blessadur gerdi var ad kaupa handa mer berjasafa algjorlega oumbedinn (an thess ad aetla ad vera vanthakklat tha fekk eg nb ekki ad velja). Svo hofst samtalid thar sem ad Eric, med sinum sterka afriska hreim, byrjadi ad tala um lifid og daudann og samlyndi mannanna. Eg skildi ekki helminginn en let mer naegja ad kinka kolli og segja yes. I stuttu mali, eda thad sem eg skildi, var inntakid thetta: Eg elska alla menn, eg elska landid mitt. Vid erum adeins andar sem flogrum um utan likama okkar. Andinn fer ekki upp til himins heldur heldur afram ad svifa. Eg elska alla menn, hvort sem their eru svartir eda hvitir thvi i grunninn erum vid oll eins.
Svo sannarlega falleg skilabod hja honum Eric og eg velti fyrir mer hvort hann se algydistruar, vid komumst hinsvegar ekki svo langt i umraedunni.

Ekki meira i bili.

Baejo spaejo
Loba

miðvikudagur, 2. júní 2010

Vesen

Ok, nu er vesen. Thetta kemur ekki a ovart en eg heyri ekki neitt! Nu a ad fara med mig til einhvers heyrnaserfraedings her i Nairobi og einhvernveginn efast eg um ad thad muni bera arangur. Auk thess gleymdi eg ad tryggja mig, en mamma er nu ad vinna i theim malum. Veit samt ekki hvernig thetta a eftir ad enda. Tharf sjalfsagt ad borga fulgur fjar, en mer er eiginlega alveg sama, bara ad eg heyri eitthvad!

Annars var heljarmikid orientation i dag, med klapp og nafnaleikjum og laeti! Ekki eitthvad sem eg er god i ;) Svo forum vid i slummid og thar var nu ymislegt ad sja, othefur i lofti og krakkar sem brostu allan hringinn og sogdu how are you, how are you? Enginn var ad reyna ad troda neinu upp a mann eda bidja mann um pening og folkid var vel klaett ekki i rifnu og virtust thvo ansi vel af ser midad vid allar thvottasnururnar, en jaeja verd ad drifa mig

baejo spaejo, Loba

þriðjudagur, 1. júní 2010

Ferdin er hafin

Jaeja, tha er Loba komin til Kenya og buin ad komast ad ymsu.

1) I Kilgoris, thorpinu sem eg verd i, eru engir adrir sjalfbodalidir! Thetta thydir ad eg hefdi ekki thurft ad kaupa lundabangsa og stela osku ur Eyjafjallajokli ur vinnunni hennar Astyar thvi thad verda engin culture nights...

2) Sidasta manudinn (agust) er sumarfri i skolum svo tha haetti eg ad kenna grislingunum og fer i workshop med odrum sjalfbodalidum og eg fae ad velja thad verkefni. Thar med er einangrun minni lett!

3) Thad er svo sannarlega til eitthvad sem heitir African time thvi allt tekur oratima her.

4) Thad er allt fullt af Masaium i thorpinu minu og madur ma ekki vera faklaeddur sem eg hafdi ss ekki hugsad mer ad gera, hlyrabolir eru thar med a bannlista.

5) Her er bara Islandsvedur, ekki svo heitt sko.

6) Thad er ekki haegt ad gera blikkkall a tolvunum herna, sem er slaemt thar sem eg nota tha otaepilega!

Er ss stodd i Nairobi nuna og fer til Kilgoris a fimmtudaginn. Ferdin tekur NIU tima, og eg ekki med mp3 spilarann minn! Eg dey...
Annars eru allir voda indaelir. Hef mest verid med Emily sem fylgir mer ut um allt og Rose sem kynnti fyrir mer hvernig lifid yrdi naestu 3 manudina. Aetla ekki ad fara ut i details en madur ma vist vara sig a folki og eyda ollum sinum tima i eldhusinu med fjolskyldu sinni. Ef madur fer thadan an thess ad utskyra neitt er madur algjor doni.
Annars haldid upp a 47 ara afmaeli sjalfstaedis Kenya i dag, thad er ss 17. juni her! Jaeja vona ad eg geti skrifad eitthvad thessa 3 manudi, ef ekki, tha verd eg einhversstadar fost i eldhusi ;) Nau nau, tharna kom blikkkall :)

Baejo spaejo
Lobster

föstudagur, 14. maí 2010

Það styttist...

Smá test hérna. Hér á að vera smá blogg um veru mína í Kenýa, landi Masaia og Karen Blixen. Ég er orðin spennt en jafnframt skelfingu lostin! Minna en mánuður þangað til ég fer. Þarf að hafa með mér harðfisk og lakkrís og helst eitthvert hljóðfæri! Tekur maður ekki bara með sér hina þýðu söngrödd? ;)
Ég vona að ég komist í tölvu reglulega til að miðla af fróðleik mínum um land og þjóð, og hvernig ljóskan Lóba höndlar þetta allt saman. Endilega verið dugleg að kíkja :)