mánudagur, 22. nóvember 2010

Góður dagur.

Ef einhver veit um dagvinnu handa mér fyrir hádegi til ca 2 yrði ég mjög þakklát. Ég er að verða despó :(

Ég þarf að geta borgað fyrir hana Paranai mína, stelpuna sem ég bjó hjá úti í Kenýa, og gömul námslán, úff! annars ætla ég að reyna að selja einhverja garma af sjálfri mér og skartgripi frá Kenýa til að hala upp í kostnaðinn. Hún verður að komast í framhaldsskóla stelpan. Hún er svo ofsalega klár!
Ég á mér líka þann draum að hún komi og verði au-pair hjá mér þegar/ef blessuð börnin koma. Ég held það yrði mega stuð!

Lífið er rólegt og gott núna. Friður í sálu en því er nú verr og miður að ekki sé friður á jörðu. Það er alveg spurning um að skúra eldhúsgólfið. Kannski er það of gróft. En matur verður eldaður. Því ég er svo heilbrigð í dag.

Góðar mánudagsstundir :)

laugardagur, 20. nóvember 2010

Trúðurinn

Þegar ég var sautján ára gerðist eitthvað inn í mér sem ég gat ekki útskýrt fyrir sjálfri mér. Ég hafði ekki hugmynd um hvernig einkenni þunglyndis eða kvíða birtust. Ég vissi ekkert hvað þetta var. Auðvitað gerðist þetta ekki á einum degi og ég held að ég hafi þróað með mér svo sterka varnarhætti gagnvart lífinu allt frá barnæsku að einn daginn gat ég bara ekki meir. Ég man eftir að hafa lokað mig inn í herbergi þegarég var lítil ef það komu gestir sem ég þekkti ekki. Ég meikaði bara ekki félagsleg samskipti og hef raunar aldrei gert.

En í kjölfar ýmissa geðrænna kvilla reisti ég annan múr sem var jafnvel enn erfiðara að eiga við. Ég hafði ekki hugmynd um lengur hver ég var í þessu nýja hlutverki einhverskonar sjúklings, eða það að vera í sjúklegu ástandi í því sem mér fannst vera heilbrigt umhverfi kátra krakka í menntaskóla þar sem að þú gast ekki annað en verið hress og tekið þátt í félagslífinu til að vera viðurkenndur sem manneskja. Ég tók því til þess bragðs að búa til ákveðin persónueinkenni sem höfðu raunar ekkert með mig sem persónu að gera og jukust svo að vexti í framkomu minni eftir tvítugt. Ég varð opin, stundum um of miðað við að ég er frekar lokaður karakter að upplagi. Ég sveifst einskis í því að skemmta mér og öðrum (að ég hélt), ég kom mér æ ofan í æ í einhver strákavandræði. Ég ýmist varð ástfangin af kolröngum aðila, ástin var ekki endurgoldin og viðkomandi aðili fór á endanum illa með mig, eða að ég fór illa með þá sem létu heillast að mér, oft á alveg ömurlegan hátt sem skapaðist af sérhlífni og óheiðarleika gagnvart þeim og sjálfri mér.

Allt snerist þetta um að flýja þetta hrædda og ofurviðkvæma barn sem ég var, sem ég skammaðist mín svo fyrir. Ég skammaðist mín svo hrikalega fyrir hver ég raunverulega er. Síðustu tvö árin hef ég róast töluvert. Oft finn ég hvernig ég fell gjörsamlega í mitt raunverulega sjálf þegar ég er fyrir norðan hjá fjölskyldunni eða ein með sjálfri mér að gera það sem ég gerði svo oft þegar ég var yngri, að syngja, skrifa, lesa, pæla og hlusta á tónlist. Svo þegar að eitthvað gerist, þegar mér finnst ég ekki hafa stjórn á tilfinningum mínum stekk ég í varnarhaminn. Ég segi það sem mér sýnist, er oft með eitthvert tómt kjaftæði, blekki sjálfa mig og beiti svo mikilli kaldhæðni að allt verður að einhverri allsherjar skopstælingu, sem er svo tilgerðarleg í eðli sínu að hún nær ekki einu sinni að virka rétt. Ég verð eiginlega að Jóni Gnarr.

Ég er búin að vera afskaplega melódramatísk síðustu vikurnar yfir ýmsu og segi svo margt sem ég meina kannski ekki. Eða ég veit það ekki. Ég held að fólk ruglist stundum í ríminu með mig. Það nær ekki að fylgja eftir vitleysunni í mér, það veit ekki hvort ég er að grínast eða ekki, veit ekki hvort það á að hlæja eða gráta yfir (tilbúnum) vandræðum mínum. En ég get ekki talað fyrir munn annarra og kannski tek ég of hart á mér núna. Kannski er ég í sömu vitleysunni bara, haha.

Og ég ímynda mér að mér líði vel, að ég sé sjálfsörugg að ég sé í eigin skinni. Er þetta allt helber misskilningur. Á ég að viðurkenna og sættast við þessa hlið á mér, jafnvel þykja vænt um hana. Því ég túlka hana sem veikleikamerki og ég er óskaplega viðkvæm fyrir að vera viðkvæm og veik en mjög svag fyrir að vera róleg og skynsöm. Að mér verði ekki haggað. Og þegar ég þarf að taka á öllu mínu til að birtast heil frammi fyrir einhverjum sem ég virði, sem mér er mikið í mun að sýna að ég sé traustvekjandi manneskja, ritskoða ég hvert orð sem ég læt út úr mér eftir á, les í alla varnarhættina og rýni í allar glufur sem sýna viðkvæmnina og veikleikana, veikindin sem hafa hrjáð mig, sem hafa sett mark á mig sem manneskju og allt mitt daglega líf.

Og ég efast í sífellu um að berskjalda mig hér. Samkvæmt eðlinu ætti ég að vera lokuð og dularfull, ekki láta neitt uppi, ekki ,,niðurlægja" mig á þennan hátt´.

En ég hef breyst. Og ég get ekki falið galla mína því ég hef þurft að takast svo oft á við þá, meira en ég hef kært mig um. Í hvert sinn sem ég set upp þessa undarlegu galsafullu varnargrímu, fer í trúðsbúninginn, þarf ég að horfast í augu við sjálfa mig eftir á og þá skömm sem ég finn fyrir að láta svona. Og það er það sem gerir þennan gjörning þess virði. Ef ég væri fullkomin væri ekkert gaman af þessu sennilega.

Ég er hætt núna, ég fer sennilega og set á mig rauða nefið einhversstaðar. Því stundum þarf ég þess, þótt ekki sé nema til að láta mér líða betur um stund.

fimmtudagur, 18. nóvember 2010

Emiliana Torrini - Today Has Been Okay

Drama II

Hummm, dramað er hætt. Ég er heil...í bili. Samt hættir dramað aldrei alveg. Þá væri lífið ekkert skemmtilegt og ekkert til að gera grín að.

Svona heilt á litið er ég frekar barnaleg. Já eiginlega mjög, en það hefur lagast mikið. Frænka mín og vinkona, sem er í læknisfræði, sagði mér skýrt og skorinort að frumubreytingar væru ekkert til að hafa áhyggjur af, þetta væri það algengasta í heimi og krabbamein verður ekki til nema fyrir tilstilli hinnar ágætu HPV veiru, sem ég held nú alveg örugglega að ég sé ekki með.

Skólaverkefnið er búið, tjekk, atvinna er ekki fundin og þaðan af síður framtíðin. Elsku framtíðin. En það er gott að geta vaknað (ekki alltaf á morgnana samt, meira svona um hádegið!) og horft út í grámygluna og hugsað með sér ,,Ég er á lífi, þetta verður allt í lagi..." Svo heldur maður áfram, fer út í gaddinn í leikskólann og lífið og kallar ,,Auðmundur Hólmar!" (frumsamið nafn nb), ,,viltu gjöra svo vel og setjast á teppið!" Svo fer maður á bókasafnið og raðar soldið og hugsar og hlustar á fólk spyrja hvort það geti ,,framlengt bókinni" í staðinn fyrir að segja ,,bókina" og tekur kannski 90's breska spólu á safninu sem maður setur í tækið og tekur fram útsauminn. Og öll ævintýri (og ástarævintýri þar á meðal) geta bara beðið, hér stend ég og get ekki annað.

Og allar þessar vinkonur, jedúddamía. Hvað gerði maður án þeirra og Ölstofunnar og Næsta og ég veit ekki hvað og hvað. Því hvað auðgar meira andann en rauðvínsglas og gott spjall á þessum mætu stöðum og suss það er ekki ómerkilegra að gera þetta en hvað annað. Eins og ég sé ekki búin að sálgreina íslenskt samfélag og Tolstoj í bland í allt kvöld! Nei nú kemur helgin og þá allsherjarafslappelsi. Þá ætti ég að vera að lesa undir heimapróf en mér finnst mjög líklegt að ég geri eitthvað annað, já eða ekki neitt. Getur maður nokkuð gert eftir þvílíkt drama?

þriðjudagur, 16. nóvember 2010

Drama I

Ég er með hjartsláttartruflanir af einhverju stressi og óráðsíu. Í gær virtist ég þó öðlast einhvern part af skynseminni aftur en það kemur ekki í veg fyrir það að ég er að fara að skila skólaverkefni á síðustu stundu. Vinur minn er með gráðu í dramastjórnun frá bréfaskóla, að hans eigin sögn, og hann mun vonandi taka mig í þerapíu. Ég drekk samt kaffi og kók. Í gær drakk ég latte og svona einn lítra af kóki. Þegar hjartslátturinn var kominn upp í, tja ég veit ekki hvað, þá fór ég að taka til í herberginu mínu af miklum ofsa og leitaði svo afslöppunar til systur minnar og fjölskyldu hennar um kvöldið. Þar var það helst fréttnæmt að kötturinn á bænum hafði skitið upp á haus og bjuggust þau við að fara með hann i sturtu. Ég forðaði mér áður en það hófst!

Dramað má sumpart rekja til þess að ég fer í frekari krabbameinsskoðun á morgun eða einhverja speglun. Ég er búin að ákveða, svona í undirmeðvitundinni að ég sé með krabbamein í eggjastokkunum af því að það er líklegra að ég sé með það en aðrir út af blessaða geninu mínu. Ef svo er verð ég bara að bíta í það súra en það þýðir nú ekkert annað að vera bjartsýnn. Hvað á ég svosem líka að vera að barma mér á netinu um eitthvað sem hefur mjög lílega ekki átt sér stað. En ég er kannski ekki enn komin í tilfinningalegt jafnvægi!

Fjárhagur, atvinnuleysi, skólaleiði og mér finnst langt þangað til ég get farið að gera eitthvað skemmtó. Hverrnig á ég líka að klára MA í hagnýtri menningarmiðlun, BA í heimspeki og kennsluréttindi með allan þennan skólaleiða? Hvernig á ég að safna peningum fyrir Kenýaferð tvö? Hvað á ég að verða eiginlega? Verð ég einhverntíma eitthvað?

Hér hefur verið kvartað í dag. Sálarmeinum dagsins hefur verið komið á framfæri takk fyrir. Og hversu smávægileg þau mein eru miðað við allt annað ég veit. En öll höfum við okkar vandræði, stór og smá. Velkomin í drama tvö á morgun.

Verið þið blessuð og sæl!

sunnudagur, 14. nóvember 2010

Hin sanna og góða trú, eða hvað?

Er guð algóður? Er guð til af því að við trúum? Er trú bábilja og vitleysa fundin upp til að ráðskast með fólk, rugla það, jafnvel afvegaleiða frá röklegri tilveru?

Er til rökleg tilvera?

Nú er ég öll í rússneska rithöfunda Tolstoj því ég er að gera verkefni þar sem hann og trúarkreppa hans koma við sögu. Þar styðst ég við útvarpsþátt Árna Bergmanns en hann má finna hér

Tolstoj segir: trúin er ekki til góðs af þvi hún er sönn, hún sönn vegna þess að hún er góð. En nú er spurningin hvort að trúin sé yfirhöfuð góð, eða að fólk verði gott af því að iðka hana. Vantrúarmenn eru vantrúaðir. Það má sjá hér

Þegar ég dvaldi í Kenýa fór trúarhitinn óskaplega í taugarnar á mér, enda má lesa færslu hér frá dvölinni. Smám saman komst ég þó að því að það er ástæða fyrir trúnni og þótt það megi segja að vestræn kirkja hafi notfært sér bága aðstöðu Afríku til að komast til valda, komst ég í kynni við siðferðisvitund hjá kenýskum bbörnum sem ég hef aldrei kynnst í þeim íslensku. Ég fór sjálf að finna tengingu við eitthvað sem gæti kallast æðri máttur (þótt ég sé ekki fyllilega sannfærð) þegar ég fann að hann varð að mætti til að lifa af fyrir þetta fólk og að vera þakklátur fyrir það litla sem maður hefur. Tolstoj segir ennfremur að meirihluti mannkyns, eða allir fyrir utan nokkra hvíta karlmenn í forréttindahópi á Vesturlöndum (á þeim tíma) beri ekki bara byrðir sínar, heldur einnig hinna ríku og máttugu. Fólkið í Afríku þarf að þjást fyrir græðgi Vesturlanda, sem sankar að sér auðlindum þeirra. Það þjáist jafnvel fyrir hjálparstarf Vesturlanda, sem oft er heimskulega skipulagt og eyðileggur framfarir og sjálfsbargarviðleitni viðkomandi þjóða. Þetta er sú byrði sem meðal annars fólkið sem ég dvaldi hjá þurfti að bera. Ef ekki væri fyrir þetta fólk hefði ég kannski aldrei getað veitt mér þann munað að ferðast til landsins. Og þau voru þakklát fyrir komu mína, að ég léti svo lítið að heimsækja þau. Ég var talin gjöf guðs til Paranai, stelpunnar sem ég bjó með! Þau gáfu mér allt sem þau áttu til, góðvild og kærleika og alltaf var viðkvæðið að örlög okkar væru í höndum æðri mátts, þau vonuðu að hann veitti okkur þá ánægju að ég gæti hitt þau aftur.

Hvort trúin sé sönn og góð má eflaust deila um, en ég get samt ekki annað séð en að trúin á guð leiði til góðra verka í sumum tilvikum. Vissulega þótti manni hræðilegt að upplifa viðhorf til samkynhneigðar þarna suður frá enda talar Tolstoj um að því miður sé kirkjan ekki jafn fús til fyrirgefningar á öllum hlutum.

Er hægt að taka bara valda kafla úr biblíunni og trúa þeim eða fara eftir fordæmi hennar í ákveðnum málum? Það er spurning sem brennur á mörgum. Allt snýst það um hvort sumir kaflar hennar stangist á við manns eigin sannfæringu um hvað er gott og rétt. Því betur hefur þó kannski lestur hennar um aldir alda vakið upp spurningar um hvað er gott og hvað er slæmt. Hvernig getum við breytt rétt, hver er siðferðilegur mælikvarði mannkynsins? Því miður komumst við varla til botns í þessum málum en umræða síðustu vikna mun vonandi opna fyrir víðsýni og sókn fólks í upplýsingar um trú. Hvers virði hún er fyrir samfélag okkar og hvort hún komi að gagni.

Ég veit ekki hversu langt á að ganga í því að banna trúarlíf í skólum. Hvað ef að barn í skóla deyr? Mega prestar, sem eru sumpart menntaðir í sálgæslu, koma í skólann og tala við krakkana um líf og dauða? Hversu hlutlaust á það tal að vera? Eigum við frekar að fá heimspeking eða sálfræðing? Eða allt í einum pakka?

Ég vil endilega fræðast meira um trú til að öðlast lítilsháttar skilning á fyrirbærinu. Sumir menn trúa ekki aðeins á guð, það eru líka þeir sem trúa á sjálfa sig. Svo eru það þeir sem trúa á peninga. En hvað tekur við þegar musteri Mammons fellur? Til dæmis skapast reiði, gríðarleg reiði. Og við beinum reiðinni að guði, því hann hefur ekki staðið sig við að veita okkur hjálp. Því miður er ekki bara hægt að trúa þegar manni hentar. Þjóðin verður að taka afstöðu til þess hvort hún sýni trú umburðarlyndi eða ekki, sama hvaða trú er um að ræða. Við munum alltaf hafa mismunandi gildi og viðmið. Mestu máli skiptir að lifa í sátt við hvert annað.

þriðjudagur, 9. nóvember 2010

Upptalning.

-Að setja í vél.
-að brjóta saman þvottinn.
-að fara í leghálsspeglun.
-að gera skólaverkefni.
-að fá sorglegar frétti frá fólki sem manni þykir vænt um.
-að passa börn.
-að raða bókum.
-að fara í segulómskoðun.
-að fara í klippingu.
-að takast á við höfnun.
-að takast á við sjálfan sig.
-að elda núðlur.
-að verða reið yfir misrétti heimsins.
-að hringja í mömmu.
-að hringja í pabba.
-að horfa á veðurspána.
-Að leika við systrabörn sín.
-að vera.

Að vera lifandi.

mánudagur, 8. nóvember 2010

Stattu þig stelpa, og strákur.

Stundum er mikilvægt að standa á sínu. Reyndar er það alltaf mikilvægt en ég hef ekki alltaf gert það.

En þegar ég gerði það var það bara geðveikt og það gaf mér nýja orku. Það kom mér á óvart þegar við vinkonurnar vorum að tala saman um daginn og hún talaði um að sumt fólk stundaði einfaldlega ekki sjálfsskoðun. Ha?! Ertu ekki að grínast, ég byrjaði í vöggunni. Og sjálfsskoðunin hefur falið í sér sjálfsgagnrýni oft á tíðum og skömm yfir að vera eins og ég er. Ég afsaka mig ennþá stundum, alltof oft reyndar. En ég fattaði um daginn að ég er frábær! Alveg hreint einstakt eintak haha. Og svo er ég líka mjög sæt ;) Taka aðeins hégómann á þetta!

Að taka af skarið. Skelfilega er það erfitt. Að tala hreint út. Ekki nokkur leið. Að standa á sínu. Alveg hreint voðalegt!

Ég er eins og ég er. Það snýst allt um það. Meðal þeirra galla sem ég tel mig hafa er sjálfsniðurrif. Ég er líka stundum of gassaleg og óþolinmóð, sérstaklega gagnvart öðru fólki. Svo er ég feimin, ótrúlegt en satt og fjandanum viðkvæmari. Ég á erfitt með að fá heildarsýn og er of eftirgefanleg. Ég er löt og gefst oft upp fyrir sjálfri mér.

En mér finnst gaman að dansa. Ég á auðvelt með að vera ein...og dansa. Ég er góð manneskja, stundum of góð. Ég er nokkuð næm á tilfinningar annarra og nærgætin. Og svo uppgötvaði ég að ég er sterk og læt ekki bjóða mér neitt kjaftæði. Og þegar ég hafði neitað kjaftæðinu var ég svo glöð að ég setti í þvottavélina í fyrsta skipti í þrjár vikur. Og býst við að byrja á spennandi verkefni strax í kvöld.

Ég á svo helling af góðu fólki í kringum mig. Fjölskyldu sem á sér enga aðra líka og vinkonur og vini sem eru alltaf til staðar og peppa mig upp.

En aðalatriðið er: ég fann einhvern styrk í sjálfri mér sem ég vissi ekki að ég hafði og ég veit að himinn og jörð munu ekki farast þótt hlutirnir gangi ekki alltaf upp. Ég hef reyndar fundið þennan styrk áður þegar allt var á vonarvöl en hann kom ekki jafn greinilega fram heldur hægt og bítandi.

Að vera með sjálfsmeðvitund án þess að illa fari er mikil list. Það er að segja að vera meðvitaður um sjálfan sig sem góða manneskju sem með hverju áfalli og hverjum sigri nær að þroska sjálfan sig og hafa áhrif á annað fólk í kringum sig. Það er ég að læra og þakka það ekki síst Afríkuferð minni nú í sumar.

Ég er ekki bölsýn í dag en það getur vel verið að ég verði það á morgun. Þið vitið þetta með dans á rósum. Ekki alltaf þannig. Djöfull getur maður líka dansað á grjótinu, það er alveg víst. En þá er að bíta á jaxlinn og halda áfram því maður er svo gáfaður og sniðugur og skemmtilegur...og þið vitið.

Að lokum: ég er að hugsa um að vera með rauðan varalit í kvöld.

sunnudagur, 7. nóvember 2010

Aðgát skal höfð í nærveru karlmanna.

Það er svo ljómandi að lesa Cosmo stundum! Já ég viðurkenni það alveg. Ég gríp eitt og eitt blað með mér af bókasafninu einstaka sinnum til að glugga í á köldum kvöldum þar sem að gefin eru sjóðheit ráð fyrir sjóðheitt kynlíf. Yfir hverju á piparjónkan ég annars að gleðjast?

Og auðvitað er þetta spennandi stúdía, bæði framsetning og þau viðhorf sem koma fram gagnvart samlífi karls og konu, því auðvitað er aldrei fjallað um lesbísk sambönd, tja, nema lesbískir tilburðir geri karlinn óðan.

Svo rakst ég á skemmtilega grein þar sem að gerð er grein fyrir því hvernig konur geti fengið fullnægingu án þess að særa stolt bólfélagans. Já, það er nefnlega alkunna að það er frekar erfitt fyrir konur að fá fullnægingu í venjulegu samlífi. Í fyrsta lagi er það líffræðilega erfitt að fá leggangafullnægingu og er fremur sjaldgæft meðal kvenna. Í öðru lagi kann karlinn ekki nægilega mikið fyrir sér til að fullnægja konu! Já, það er nánast sagt beinum orðum í þessari grein en það er nú ekki bara á þann veginn heldur gildir það um bæði kynin því kynlíf er ekki bara það að ná hæsta tindi hamingjunnar. Það snýst víst einnig um að vera ,,góð hvort við annað", eins og útvarpsmennirnir segja, en meina ,,hvert annað" en förum ekki út í málfræði á þessu stigi málsins.

Greinin gengur út á það að leiða karlmennina áfram í gegnum ástarleikinn með því markmiði að hverfa á vit unaðar eilífðarinnar. Þetta verður þó að gera með nærgætni en ekki hranalegum skipunum svo að karlmaðurinn missi ekki sjálfstraustið. Byrja verður á því að hemja ákafa hans því upplifun konunnar verður þá: "as sensual as walking through an automatic car wash."! Æ, æ, æ, ekki byrjar það vel. Kossarnir verða að vera hægir og dýpka svo eftir því sem á líður. Hann á að geta hermt eftir konunni, til dæmis þegar hún kyssir hann eins og hún vill vera kysst ,,þarna niðri." Hvernig sá koss gengur fyrir sig (það er þar sem hún sýnir honum tæknina) gengur fyrir sig veit ég ekki. Ekki eru gagnkynhneigðar konur mikið að kyssa aðrar konur á milli fótanna!

Hvetja verður karlmanninn áfram með orðum, til dæmis: "I'm about to have the orgasm of my life!" Hinsvegar á að þegja ef atlotin eru ekki að gera sig. Það verður að láta hann vita að maður sé við það að "hitting the peak" og það sé honum að þakka, eða mestmegnis. Eftir samfarirnar á að fara munnlega yfir allt sem manni fannst gott svo þetta stimplist nú ærlega inn í hausinn á manninum og hann gleymi ekki trixunum.

Er greinin ekki niðurlægjandi í heild sinni fyrir karlmenn? Tja, ég er á þeirri skoðun. Nú úir og grúir allt af hjálparhellum í formi kynlífssjálfshjálparbóka sem veita innsýn inn í hugarfylgsni beggja kynja og hvaða blettir líkamans eru næmastir hjá hvoru fyrir sig. Getur ekki verið að karlmenn lesi sér til um þetta líka? Ræða þeir þetta við vini sína kannski? Hafa þeir ekki einhvern snefil af hugmyndaflugi og næmni fyrir því að konan er öðruvísi uppbyggð? Ég held að við verðum að gefa karlmönnum meira kredit en þetta. Og ég held að engin kona fái fullnægingu lífs síns ef hún þarf að leggja svona mikið á sig til þess. Ég meina yrði maður ekki þokkalega meðvitaður um hverja einustu hreyfingu? Þótt kynlíf eigi sér stað í huganum líka ætti nú ekki að þurfa að hugsa svona andskoti mikið um það á meðan því stendur! Eða hvað?

mánudagur, 1. nóvember 2010

Skortur á almennri bölsýni.

Agalega er bloggið búið að vera væmið hjá mér upp á síðkastið. Ég get aldrei verið svona jákvæð með góðri samvisku. Þetta fer í endurskoðun, definately.