sunnudagur, 31. október 2010

Myndhverfingar hjartans

Jæja. Frábært matarboð afstaðið og við Ásthildur borðuðum allan afganginn í dag. Erum sérlega saddar og sælar núna. Það sem setti punktinn yfir i-ið var svo vídjógláp. Il postino varð fyrir valinu. Hún er um ítalska póstmanninn sem verður ástfanginn og fær aðstoð frá chilenska skáldinu Pablo Neruda við að heilla til sín hina fallegu Beatrice, barmikla dökkeyga stúlku með hrokkið hár og ósvífna framkomu. Kvikmyndin fjallar þó fyrst og fremst um sérstak samband rithöfundarins og póstmannsins og þau áhrif sem sá fyrrnefndi hefur á líf þess síðarnefnda, og hvernig skáldskapurinn hefur áhrif á líf okkar.

Neruda hóf að kenna póstmanninum um myndhverfingar. Smám saman fyllast samtöl hans við skáldið og bréf hans til stúlkunnar af fallegum myndhverfingum. Myndin er falleg, um einfaldan mann sem lærir að orða tilfinningar sínar, og lýsa hinni flóknu ást á tungumáli sem allir geta tengt sig við og ímyndað sér. Að hár stúlkunnar sé fullt af stjörnum, að nakinn líkami hennar sé einfaldur líkt og hönd hennar og svo framvegis.

Ég tók fyrir ljóðlist í tíma þegar ég var sjálfboðaliði í grunnskóla í Kenýa í sumar. Ég tók fyrir textann við lag Emiliönu Torrini, Fisherman's Woman. Ég er ekki mjög kunnug ljóðum almennt en fannst ég geta útskýrt þetta þokkalega fyrir þeim, fremur en eitthvað sem væri of háfleygt.
Ástmaður ljóðmælanda er dáinn og ég reyndi að láta þau lesa í það og hið dæmigerða myndmál. Konan þekkir sjómannskonu sem er skylmingarþræll allra sjómannskvenna. Ég útskýrði einnig fyrir þeim orðið grasekkja og tengdi það við innihald textans. Við töluðum um bát mannsins sem andar og blóðrauðan varalit stúlkunnar sem gæti merkt blóð, ástríðu eða líf. Ég veit ekki hvort þau tóku nokkuð af þessu inn, en Paranai mín lagði oft saman tvo og tvo. Hún uppgötvaði að maðurinn sem sungið var um væri dáinn. Hún tengdi við merkingu rauða litarins og var virkilega snjöll þótt hún hefði aldrei lært að hugsa svona óhlutbundið. Seinna sagði hún mér að hún gæti aldrei nokkurn tíma ort svona ljóð. Hún sagði að það væri of fjarri sér, svo draumkennt og skrítið. En ég vona að þessar línur hafi hreyft við þeim. Alltént voru þau andaktug yfir þessu og ég hafði virkilega gaman af.

Hér er Emiliana og söngurinn um konuna sem vildi óska að hún væri sjómannskona:

Engin ummæli: