föstudagur, 29. október 2010

Satie og skjáaulýsingarnar

Endrum og eins koma minningarbrot upp í hugann, oft einhver sem tengjast undarlegu andrúmslofti í hversdeginum. Maður er staddur mitt í þessum gráa hversdagsleika og þá vekja hljóð, myndir eða skynjanir af einhverju tagi upp einhverjar ákveðnar tilfinningar. Þessar tilfinningar láta svo á sér kræla í hvert skipti sem við heyrum, sjáum, brögðum eða finnum lykt af þessum tilteknu hlutum. Og minningin lifnar við aftur, og breytir kannski um mynd.

Það muna allir eftir gömlu góðu skjáauglýsingunum er það ekki? Mér fannst ekkert eins niðurdrepandi í öllum heiminum geiminum og skjáauglýsingar þegar ég var unglingur. Þær minntu mig á mitt auma unglingslíf (því allir eiga sér einhverntímann aumt unglingslíf) þar sem mér fannst ég oft hvorki komast lönd né strönd, hvorki bókstaflega (þar sem ég er alin upp í sveit) né andlega. Einhvernveginn skýtur minningin um skjáauglýsingarnar alltaf upp kollinum af og til. Ég man til dæmis að ég sat í svokallaðri ömmustofu (því amma bjó á neðri hæðinni heima og þar var þessi tiltekna stofa) og horfði út um gluggann undir skjáauglýsingalaginu. Það var skafl fyrir utan, snjór á rúðunni og kolsvarta myrkur úti. Ég horfði út og stundi, og ekki bætti músíkin úr skák; lag leikið á píanó af öllum þeim þunga sem píanóleikarinn átti til. Neðri nóturnar virtust draga þær efri og léttari með sér í hverju tónfalli og ég fann hvernig ég lamaðist að innan. Úff. Ég held að þetta sé mér svo minnisstætt vegna þess að þarna fann ég tilfinningu sem ég átti eftir að finna svo oft seinna og sameinaðist í bullandi þunglyndi og trega. Mennirnir eru nú þannig gerðir að þeir eru misléttlyndir og ég sá þegar ég rakst á lagið á youtube að hjá sumum vekur það góðar tilfinningar: ,,Ég hugsa alltaf um eitthvað fallegt þegar ég hlusta á þetta lag" skrifaði einhver. Ja, ég hef alltaf hugsað um eitthvað drepleiðinlegt þegar ég hlusta á þetta lag, eins og snjóskafla og íslenskt myrkur sem gleypir orku þunglyndissjúklinga um allt land. Gemmér brasilískt bossanova og þá erum við í góðum málum.

Síðar komst ég að því að ógislega skjáaulýsingalagið er eftir Erik Satie, virt tuttugustu aldar tónskáld, þótt sumir hafi nú eitthvað hnýtt í hann og talið hann ómerkilegan. Þessi bútur heitir réttu nafni Gymnopédie No. 1 og er fyrsti þáttur af þremur gymnopédieum Saties. Samkvæmt einhverjum snillingnum þarna á tube-inu, og nú sel ég það ekki dýrara en ég keypti það, hugsaði Satie oft tónlist sína sem einskonar bakgrunnstónlist, ef til vill það sem hefur verið kallað lyftutónlist. Passar vel við hversdagslega hluti eins og skjáauglýsingar, en rífur í sundur á manni hjartað um leið í niðurdrepandi einfaldleika sínum (ókei, þetta var kannski ekki svona dramatískt, en það var stundum erfitt að vera unglingur í sveitaskóla ásamt fimmtíu öðrum nemendum og með Akureyri city í 45 kílómetra fjarlægð. Og eina leiðin til að ferðast þangað sjálfstætt var að fara með rútunni um morguninn og vera kominn heim að ristahliði seinnipartinn).

En ég verð nú að gefa þessari undurblíðu og fallegu músík meira kredit en svo. Ég hef nefnilega sæst við skjáauglýsingalagið. Þið þekkið það öll þegar þið heyrið það. Gjöriði svo vel Gymnopédie No. 1 eftir Erik Satie.


2 ummæli:

Bára sagði...

Veistu, eins vel og ég man eftir skjáauglýsingunum þá er ég alls ekkert að tengja þær við þetta lag, spes eins mikið og mér leiddist þær... Það eina sem mér dettur í hug við skjaáuglýsingarnar er þegar auglýsingasjúk 3ja ára systir mín trompaðist við mig þegar ég kallaði á hana til að láta hana vita að auglýsingarnar væru að byrja og svo voru það bara skjáauglýsingar...

Lóba sagði...

Ha ha. Lítið annað við að vera í Lýdó en að skemmta sér yfir auglýsingunum semsagt ;)