laugardagur, 23. október 2010

Nýjar fréttir.

Ég blogga hér af bókakaffihúsinu Glætunni þar sem að ég háma í mig einfaldan latte með MJÓLK og borða massíva súkkulaðitertu með RJÓMA. Þar sem það þykir sýnt að beint samband sé á milli neyslu mjólkurvara og krabbameins er ég í vondum málum. Það hefur komið í ljós að ég hef erft krabbameinsgen. Líkurnar á að fá krabbamein með þetta gen í farteskinu einhverntímann á ævinni er ca 70%. Lucky me. Engar samúðarkveðjur gott fólk, eða ,,aumingja þú" - ekki gefin fyrir það. Og vil þaðan af síður vorkenna mér því ég hef vorkennt mér svo andskoti mikið í gegnum tíðina.

Ég var sallaróleg yfir þessu til að byrja með. Ég vildi fá að vita þetta þótt mig vanti þrjú ár í ,,krabbameinsaldurinn" s.k., þrjátíu ár. Læknirinn talaði skelfilega mikið. Þetta er áhugamál hjá honum og auðvitað er gott að fólk hafi, ja, gaman að vinnunni sinni, þá vinnur það hana betur. Það er að sjálfsögðu hægt að fá viðtal við sálfræðing. Það er líka hægt að fá viðtal við sálfræðing ef maður greinist ekki með genið, vegna þess að maður getur fengið samviskubit yfir því. Spes.

Mamma mín er núna að fara í sína aðra lyfjameðferð á fjórum árum. Við erum búnar að fara saman í brjóstaleiðangur þar sem að hún fékk ný gervibrjóst og næst á dagskrá er, að ég held, hárkolluleiðangur. Þyrftum nú að vera allar þrjár systur í því af betur sjá augu en auga. Og af því að við höfum svo góðan smekk náttúrulega. Hún var alveg ótrúlega brött eftir brjóstnámið og aðra aðgerð þar sem að teknir voru nokkrir eitlar úr henni. Frænka mín út í Bandaríkjunum sem greindist með mein ekki alls fyrir löngu ( er ekki orðin fertug) er komin með ný brjóst, altså eftir aðgerð, og tókst víst vel í þetta skiptið. Ég samgleðst henni og veit að hún hefur verið ofsalega dugleg. Það er auðvitað mikið áfall að greinast svona ungur.

Og duglega konan hún mamma mín. Og líka ofsalega góð kona. Ég held að það komi henni í gegnum þetta. Hún tók því af ótrúlegu æðruleysi þegar að kom í ljós að meinið hafði breiðst útí eitlana eftir að brjóstin höfðu verið fjarlægð.

Ég held að margir sem beri svona gen finnist að þeir beri ábyrgð á því þegar börn þeirra erfa genið. Því finnst það bera eitur til barnanna sinna, og finnstjafnvel að þeir ekki eiga skilið að eiga börn eða vilja ekki eignast þau eftir að hafa fengið fregnirnar. Við töpum oft skynseminni þegar að tilfinningarnar bera okkur ofurliði og það er ekkert óeðlilegt við slíka tilfinningu. En ég get sagt það að ég elska mömmu mína alveg jafnmikið hvort sem ég erfi eitthvert gen eftir hana eða ekki. Það á við um okkur allar systurnar. Og lífið heldur áfram ekki satt? Og ég vil svo sannarlega eignast börn í framtíðinni, ég skal ekki láta þetta hindra mig.

Ég hélt því fram að fregnirnar hefðu ekki haft nein áhrif á mig. Auðvitað er það ekki satt. Maður tekur ekki alltaf inn það sem manni er sagt fyrr en löngu eftir á. Og ég tók það út í ákveðinni reiði. Og það má sjá á færslu hér fyrir neðan. Það var fyrst þá að ég áttaði mig á að það var sorgin sem sýndi sig.

Það verður fylgst vel með mér eftir þetta og ég fer í fyrstu segulómskoðunina 3. nóvember n.k. Það virðist ekki vera algengt að krabbinn skjóti upp kollinum í fjölskyldu okkar. Auk þess er hægt að gera viðeigandi ráðstafanir ef mein finnst eða breytingar koma í ljós. Það þýðir cutting! Já, það þykir sumum vissara að taka annað eða bæði brjóstin strax af ( hvort sem það finnst mein eða ekki! En það er nú aðallega í Bandó sem konum þykja ástæða til þess að fara út í þær aðgerðir þegar engar breytingar hafa orðið) vitandi af geninu. Þar með má koma í veg fyrir upptöku krabbans þótt það þurfi drastískar aðgerðir til. Að því leyti er maður kannski ,,heppinn" að vera með þetta tiltekna gen því víðtækari varúðarráðstafanir eru íhugaðar og gerðar en ella.

Ég veit það ekki. Vildi bara deila þessu með ykkur til að fá ferskari sýn og fjarlægð á þetta mál. Það eru því miður allt of margir sem fá krabbamein og öll þekkjum við einhvern. Auðvitað skiptir stuðningur fjölskyldu og vina máli. Stundum finnst mér ég ekki hafa nægan skilning á þessu fyrirbæri til að geta stutt mömmu mína af fullum krafti. En ég er að læra. Mestu máli skipta þó viðbrögð manns sjálfs. Það er hægt að áorka miklu með jákvæðum hugsunum. Það er auðvelt að segja það þegar maður hefur ekki kynnst því að vera með krabbamein en eftir að vita að það er meiri líkur á að ég fái það en ella veit ég að viðbrögð mín gagnvart þeim fregnum skipta líka máli. Það var gott að fá útrás í stað þess að loka bara á það. Nú vonast ég bara til að öðlast frekari skilning, í krafti þessara frétta, á hvernig mömmu minni raunverulega líður. Og af henni get ég lært heilmikið og verið þar með betur undir það búin að takast á við þennan sjúkdóm. En að sjálfsögðu vona ég hið besta, fyrir hönd mín og annarrar systur minnar sem einnig hefur greinst með þessa breytingu, auk annarra í fjölskyldunni.

Móðir mín er alltaf í huga mér. Þessi færsla er þó einkum tileinkuð manneskju sem mér er mjög umhugað um þótt samband okkar hafi ekki verið mikið síðastliðin ár. Þessi kona er hjartahlýr dugnaðarforkur og húmoristi. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún tekist á við sjúkdóminn af einurð og að því er virðist óttaleysi. Ég hef aldrei heyrt hana kvarta. Þið sem þekkið til vitið öll um hverja er að ræða.
Fjölskyldan hefur verið henni stoð og stytta og ég dáist að manni hennar, rólegur og æðrulaus sem hann er. Ef hún les þessi fátæklegu orð vil ég að hún viti að ég dáist að henni, að hún veitir mér styrk og mörgum öðrum og við hugsum til hennar. Fleiri en hún getur ímyndað sér.

Jæja, ekki ætla ég að þreyta ykkur meira, því öllu má ofgera. En þessir hlutir þurfa að fá pláss líka, því um það snýst líf okkar: meðbyr og mótbyr og hvað við getum lært og öðlast með þessu tvennu. Við djókum næst. En þangað til ætla ég að leyfa mér að hugsa örlítið um hverfulleika lífsins

6 ummæli:

Halla sagði...

Afar falleg, djúp og persónuleg bloggfærsla hjá þér ljúfan mín.

Þórunn sagði...

Þakka þér fyrir Halla mín :)

Bára sagði...

Góð en erfið lesning, sammála Höllu, bið kærlega að heilsa mömmu þinni sendi henni baráttu kveðjur.
Bára

Lóba sagði...

Geri það :)

Mímí sagði...

Falleg færsla Lóba mín og sönn. Greinilegt að þú hefur tekið þér tíma til að hugsa þetta mál sem er gott. Mín aðferð er að gleyma þessu, hugsa ekki um það... held það sé ekki rosalega sniðugt til langtíma litið. Kannski öðlast ég einhvern tímann þroska til þess að takast á við þetta eins og þú :-) En þangað til þá bara hata ég þetta helvítis gen!

Lóba sagði...

Heyr heyr!!!