mánudagur, 16. janúar 2012

Hversdagurinn: allt eða ekkert?


Mikið afskaplega er ég gefin fyrir leikstjórann Mike Leigh. Myndirnar hans koma mér alltaf þægilega á óvart þótt umfjöllunarefnið sé oft á tíðum sorglegt. Raunsæislegur endir gefur hinsvegar til kynna von vegna þess að hún verður einmitt raunveruleg.(skilur einhver hvað ég á við, ég lái ykkur það ekki ef svo er ekki). Kosturinn við myndir leikstjórans er þó kannski sá að þar er ekki um eiginlegan endi að ræða. Kvikmyndin öðlast sjálfstætt líf í framhaldinu og persónurnar glíma áfram við sorg eða fyllast gleði.
Heimspeki annarrar aðalpersónu myndarinnar All or nothing er dálítið í þessa veruna. Hann og kona hans verða fyrir áfalli í tilveru sem einkennist af skömm og þrá eftir ástinni, og virðist daufleg og tilgangslaus. Áfallið sem hjónin verða fyrir mun breyta lífi þeirra, spurningin er bara hvernig.

Leigh tekst á við hversdagslífið eins og við öll. Munurinn er bara sá að hann kemur því að í skáldskap, með meistaralegum töktum. En hvað með okkur? Eigum við stórleik í eigin hversdagslífi? Jú, ef einhverjir eru meistararnir hljótum það að vera við sjálf því leikur okkar að hversdeginum er sannur. Eða hvað?


Og þá sný ég mér að mínum hversdegi, sem hefur ekki einkennst af djúpum pælingum. Ég sneri rúminu mínu og er í óðaönn að breyta til í herberginu mínu. Nýtt upphaf, nýtt herbergi...eða eitthvað. Einhverra hluta vegna var virknin alveg með besta móti hjá mér í dag, þótt ég hafi ekki farið á fætur fyrr en um hádegi. Þegar maður er orðinn alvarlega þunglyndur er það samt ákveðið afrek út af fyrir sig og það að fara í útréttingar, laga til í herberginu, læra, hengja upp þvott og elda er liggur við heimsmet. Verst þegar svona dagar skjóta upp kollinum get ég oft ekki hætt og langar ekkert að fara að sofa. Þá kemur útsaumurinn sterkur inn, ójá. Krosssaumur getur verið afar afslappandi þegar maður nær tökum á honum en að sama skapi afar irriterandi þegar illa gengur.

En maður lætur sig bara hafa það. ,,Life is too short", eins og Phil orðar það í All or nothing.

P.s. Guð, sjáiði hvað Mike kallinn er krúttlegur!