laugardagur, 20. nóvember 2010

Trúðurinn

Þegar ég var sautján ára gerðist eitthvað inn í mér sem ég gat ekki útskýrt fyrir sjálfri mér. Ég hafði ekki hugmynd um hvernig einkenni þunglyndis eða kvíða birtust. Ég vissi ekkert hvað þetta var. Auðvitað gerðist þetta ekki á einum degi og ég held að ég hafi þróað með mér svo sterka varnarhætti gagnvart lífinu allt frá barnæsku að einn daginn gat ég bara ekki meir. Ég man eftir að hafa lokað mig inn í herbergi þegarég var lítil ef það komu gestir sem ég þekkti ekki. Ég meikaði bara ekki félagsleg samskipti og hef raunar aldrei gert.

En í kjölfar ýmissa geðrænna kvilla reisti ég annan múr sem var jafnvel enn erfiðara að eiga við. Ég hafði ekki hugmynd um lengur hver ég var í þessu nýja hlutverki einhverskonar sjúklings, eða það að vera í sjúklegu ástandi í því sem mér fannst vera heilbrigt umhverfi kátra krakka í menntaskóla þar sem að þú gast ekki annað en verið hress og tekið þátt í félagslífinu til að vera viðurkenndur sem manneskja. Ég tók því til þess bragðs að búa til ákveðin persónueinkenni sem höfðu raunar ekkert með mig sem persónu að gera og jukust svo að vexti í framkomu minni eftir tvítugt. Ég varð opin, stundum um of miðað við að ég er frekar lokaður karakter að upplagi. Ég sveifst einskis í því að skemmta mér og öðrum (að ég hélt), ég kom mér æ ofan í æ í einhver strákavandræði. Ég ýmist varð ástfangin af kolröngum aðila, ástin var ekki endurgoldin og viðkomandi aðili fór á endanum illa með mig, eða að ég fór illa með þá sem létu heillast að mér, oft á alveg ömurlegan hátt sem skapaðist af sérhlífni og óheiðarleika gagnvart þeim og sjálfri mér.

Allt snerist þetta um að flýja þetta hrædda og ofurviðkvæma barn sem ég var, sem ég skammaðist mín svo fyrir. Ég skammaðist mín svo hrikalega fyrir hver ég raunverulega er. Síðustu tvö árin hef ég róast töluvert. Oft finn ég hvernig ég fell gjörsamlega í mitt raunverulega sjálf þegar ég er fyrir norðan hjá fjölskyldunni eða ein með sjálfri mér að gera það sem ég gerði svo oft þegar ég var yngri, að syngja, skrifa, lesa, pæla og hlusta á tónlist. Svo þegar að eitthvað gerist, þegar mér finnst ég ekki hafa stjórn á tilfinningum mínum stekk ég í varnarhaminn. Ég segi það sem mér sýnist, er oft með eitthvert tómt kjaftæði, blekki sjálfa mig og beiti svo mikilli kaldhæðni að allt verður að einhverri allsherjar skopstælingu, sem er svo tilgerðarleg í eðli sínu að hún nær ekki einu sinni að virka rétt. Ég verð eiginlega að Jóni Gnarr.

Ég er búin að vera afskaplega melódramatísk síðustu vikurnar yfir ýmsu og segi svo margt sem ég meina kannski ekki. Eða ég veit það ekki. Ég held að fólk ruglist stundum í ríminu með mig. Það nær ekki að fylgja eftir vitleysunni í mér, það veit ekki hvort ég er að grínast eða ekki, veit ekki hvort það á að hlæja eða gráta yfir (tilbúnum) vandræðum mínum. En ég get ekki talað fyrir munn annarra og kannski tek ég of hart á mér núna. Kannski er ég í sömu vitleysunni bara, haha.

Og ég ímynda mér að mér líði vel, að ég sé sjálfsörugg að ég sé í eigin skinni. Er þetta allt helber misskilningur. Á ég að viðurkenna og sættast við þessa hlið á mér, jafnvel þykja vænt um hana. Því ég túlka hana sem veikleikamerki og ég er óskaplega viðkvæm fyrir að vera viðkvæm og veik en mjög svag fyrir að vera róleg og skynsöm. Að mér verði ekki haggað. Og þegar ég þarf að taka á öllu mínu til að birtast heil frammi fyrir einhverjum sem ég virði, sem mér er mikið í mun að sýna að ég sé traustvekjandi manneskja, ritskoða ég hvert orð sem ég læt út úr mér eftir á, les í alla varnarhættina og rýni í allar glufur sem sýna viðkvæmnina og veikleikana, veikindin sem hafa hrjáð mig, sem hafa sett mark á mig sem manneskju og allt mitt daglega líf.

Og ég efast í sífellu um að berskjalda mig hér. Samkvæmt eðlinu ætti ég að vera lokuð og dularfull, ekki láta neitt uppi, ekki ,,niðurlægja" mig á þennan hátt´.

En ég hef breyst. Og ég get ekki falið galla mína því ég hef þurft að takast svo oft á við þá, meira en ég hef kært mig um. Í hvert sinn sem ég set upp þessa undarlegu galsafullu varnargrímu, fer í trúðsbúninginn, þarf ég að horfast í augu við sjálfa mig eftir á og þá skömm sem ég finn fyrir að láta svona. Og það er það sem gerir þennan gjörning þess virði. Ef ég væri fullkomin væri ekkert gaman af þessu sennilega.

Ég er hætt núna, ég fer sennilega og set á mig rauða nefið einhversstaðar. Því stundum þarf ég þess, þótt ekki sé nema til að láta mér líða betur um stund.

2 ummæli:

Míms sagði...

Ég er óttalegur bjáni oft líka :-)

Þórunn sagði...

Haha, gott að hafa þjáningarsystur í þessu ;)