fimmtudagur, 18. nóvember 2010

Drama II

Hummm, dramað er hætt. Ég er heil...í bili. Samt hættir dramað aldrei alveg. Þá væri lífið ekkert skemmtilegt og ekkert til að gera grín að.

Svona heilt á litið er ég frekar barnaleg. Já eiginlega mjög, en það hefur lagast mikið. Frænka mín og vinkona, sem er í læknisfræði, sagði mér skýrt og skorinort að frumubreytingar væru ekkert til að hafa áhyggjur af, þetta væri það algengasta í heimi og krabbamein verður ekki til nema fyrir tilstilli hinnar ágætu HPV veiru, sem ég held nú alveg örugglega að ég sé ekki með.

Skólaverkefnið er búið, tjekk, atvinna er ekki fundin og þaðan af síður framtíðin. Elsku framtíðin. En það er gott að geta vaknað (ekki alltaf á morgnana samt, meira svona um hádegið!) og horft út í grámygluna og hugsað með sér ,,Ég er á lífi, þetta verður allt í lagi..." Svo heldur maður áfram, fer út í gaddinn í leikskólann og lífið og kallar ,,Auðmundur Hólmar!" (frumsamið nafn nb), ,,viltu gjöra svo vel og setjast á teppið!" Svo fer maður á bókasafnið og raðar soldið og hugsar og hlustar á fólk spyrja hvort það geti ,,framlengt bókinni" í staðinn fyrir að segja ,,bókina" og tekur kannski 90's breska spólu á safninu sem maður setur í tækið og tekur fram útsauminn. Og öll ævintýri (og ástarævintýri þar á meðal) geta bara beðið, hér stend ég og get ekki annað.

Og allar þessar vinkonur, jedúddamía. Hvað gerði maður án þeirra og Ölstofunnar og Næsta og ég veit ekki hvað og hvað. Því hvað auðgar meira andann en rauðvínsglas og gott spjall á þessum mætu stöðum og suss það er ekki ómerkilegra að gera þetta en hvað annað. Eins og ég sé ekki búin að sálgreina íslenskt samfélag og Tolstoj í bland í allt kvöld! Nei nú kemur helgin og þá allsherjarafslappelsi. Þá ætti ég að vera að lesa undir heimapróf en mér finnst mjög líklegt að ég geri eitthvað annað, já eða ekki neitt. Getur maður nokkuð gert eftir þvílíkt drama?

Engin ummæli: