sunnudagur, 14. nóvember 2010

Hin sanna og góða trú, eða hvað?

Er guð algóður? Er guð til af því að við trúum? Er trú bábilja og vitleysa fundin upp til að ráðskast með fólk, rugla það, jafnvel afvegaleiða frá röklegri tilveru?

Er til rökleg tilvera?

Nú er ég öll í rússneska rithöfunda Tolstoj því ég er að gera verkefni þar sem hann og trúarkreppa hans koma við sögu. Þar styðst ég við útvarpsþátt Árna Bergmanns en hann má finna hér

Tolstoj segir: trúin er ekki til góðs af þvi hún er sönn, hún sönn vegna þess að hún er góð. En nú er spurningin hvort að trúin sé yfirhöfuð góð, eða að fólk verði gott af því að iðka hana. Vantrúarmenn eru vantrúaðir. Það má sjá hér

Þegar ég dvaldi í Kenýa fór trúarhitinn óskaplega í taugarnar á mér, enda má lesa færslu hér frá dvölinni. Smám saman komst ég þó að því að það er ástæða fyrir trúnni og þótt það megi segja að vestræn kirkja hafi notfært sér bága aðstöðu Afríku til að komast til valda, komst ég í kynni við siðferðisvitund hjá kenýskum bbörnum sem ég hef aldrei kynnst í þeim íslensku. Ég fór sjálf að finna tengingu við eitthvað sem gæti kallast æðri máttur (þótt ég sé ekki fyllilega sannfærð) þegar ég fann að hann varð að mætti til að lifa af fyrir þetta fólk og að vera þakklátur fyrir það litla sem maður hefur. Tolstoj segir ennfremur að meirihluti mannkyns, eða allir fyrir utan nokkra hvíta karlmenn í forréttindahópi á Vesturlöndum (á þeim tíma) beri ekki bara byrðir sínar, heldur einnig hinna ríku og máttugu. Fólkið í Afríku þarf að þjást fyrir græðgi Vesturlanda, sem sankar að sér auðlindum þeirra. Það þjáist jafnvel fyrir hjálparstarf Vesturlanda, sem oft er heimskulega skipulagt og eyðileggur framfarir og sjálfsbargarviðleitni viðkomandi þjóða. Þetta er sú byrði sem meðal annars fólkið sem ég dvaldi hjá þurfti að bera. Ef ekki væri fyrir þetta fólk hefði ég kannski aldrei getað veitt mér þann munað að ferðast til landsins. Og þau voru þakklát fyrir komu mína, að ég léti svo lítið að heimsækja þau. Ég var talin gjöf guðs til Paranai, stelpunnar sem ég bjó með! Þau gáfu mér allt sem þau áttu til, góðvild og kærleika og alltaf var viðkvæðið að örlög okkar væru í höndum æðri mátts, þau vonuðu að hann veitti okkur þá ánægju að ég gæti hitt þau aftur.

Hvort trúin sé sönn og góð má eflaust deila um, en ég get samt ekki annað séð en að trúin á guð leiði til góðra verka í sumum tilvikum. Vissulega þótti manni hræðilegt að upplifa viðhorf til samkynhneigðar þarna suður frá enda talar Tolstoj um að því miður sé kirkjan ekki jafn fús til fyrirgefningar á öllum hlutum.

Er hægt að taka bara valda kafla úr biblíunni og trúa þeim eða fara eftir fordæmi hennar í ákveðnum málum? Það er spurning sem brennur á mörgum. Allt snýst það um hvort sumir kaflar hennar stangist á við manns eigin sannfæringu um hvað er gott og rétt. Því betur hefur þó kannski lestur hennar um aldir alda vakið upp spurningar um hvað er gott og hvað er slæmt. Hvernig getum við breytt rétt, hver er siðferðilegur mælikvarði mannkynsins? Því miður komumst við varla til botns í þessum málum en umræða síðustu vikna mun vonandi opna fyrir víðsýni og sókn fólks í upplýsingar um trú. Hvers virði hún er fyrir samfélag okkar og hvort hún komi að gagni.

Ég veit ekki hversu langt á að ganga í því að banna trúarlíf í skólum. Hvað ef að barn í skóla deyr? Mega prestar, sem eru sumpart menntaðir í sálgæslu, koma í skólann og tala við krakkana um líf og dauða? Hversu hlutlaust á það tal að vera? Eigum við frekar að fá heimspeking eða sálfræðing? Eða allt í einum pakka?

Ég vil endilega fræðast meira um trú til að öðlast lítilsháttar skilning á fyrirbærinu. Sumir menn trúa ekki aðeins á guð, það eru líka þeir sem trúa á sjálfa sig. Svo eru það þeir sem trúa á peninga. En hvað tekur við þegar musteri Mammons fellur? Til dæmis skapast reiði, gríðarleg reiði. Og við beinum reiðinni að guði, því hann hefur ekki staðið sig við að veita okkur hjálp. Því miður er ekki bara hægt að trúa þegar manni hentar. Þjóðin verður að taka afstöðu til þess hvort hún sýni trú umburðarlyndi eða ekki, sama hvaða trú er um að ræða. Við munum alltaf hafa mismunandi gildi og viðmið. Mestu máli skiptir að lifa í sátt við hvert annað.

3 ummæli:

Halla sagði...

Mín skoðun á trú er sú, að hún sé góð fyrir einstaklinginn inn á við, þ.e. það getur verið gott fyrir einstaklinga að hafa trú á einhverju æðra manninum, einhverju sem gefur von. Hins vegar er ég ekki hlynnt milligönguliðum, þ.e. kirkjunni. Nú hef ég ekkert sérstaklega á móti prestum sem slíkum, þetta er jú vinna eins og hver önnur og fullt af góðum verkum sem þeir vinna. En kirkjan hefur í gegnum tíðina notað trú almúgans sér í hag, nú eða yfirvöldum. Hversu mörg samfélög eru heilaþvegin af prestum sem tala máli æðri máttarvalda og bæla niður gagnrýna hugsun? Í heimildamynd sem ég sá eitt sinn var einmitt tekið fram að trúarbrögð væru uppfinning mannkynsins og hefði verið notað af aðlinum til að halda almúganum stilltum. Mér þótti mikið til í þeirri staðhæfingu.

En ef við horfum framhjá slæmum áhrifum trúar, þá getur trú verið afar falleg og mikið af góðum gildum til að bæta siðferði mannsins. Mín skoðun er þó sú að ekki þurfi nein trúarbrögð til að kenna slíka hluti, ekki myndi ég leita til prests í áfalli, heldur myndi ég heldur leita til sálfræðings. En mér er nokk sama hvaða trúarskoðun annað fólk hefur, svo lengi sem ekki er verið að troða því upp á mig eða nota trúna sem skálkaskjól ofbeldis og stríða. Ég get bara ekki séð að það sé mikill munur á trúarbrögðum, því get ég ekki valið hvort minn guð eigi að heita Allah, Guð eða Óðinn. Ég kaus því að trúa á náttúruna, sjálfa mig og hið góða í manninum. Ef til vill er til afl æðra manninum, en ég er ekki tilbúin að persónugera það á þann hátt sem trúarbrögð gera.

Nafnlaus sagði...

Einlægur og fallegur pistill. :)
Prestar eru misjafnir og ekki allir jafn menntaðir í sálgæslu þótt þeir séu eflaust góðir huggarar. Það kom upp sorglegt mál í skóla sonar míns og bæði prestur og sálfræðingur kallaðir til. Presturinn var á undan, skilst mér, og tók strax undir óttalegt bull hjá nokkrum börnunum sem voru við það að missa sig í æsingi. Um leið og sálfræðingurinn kom náði hann að stoppa þetta og börnin róuðust. Það segir mér að fagmenn eigi að vera kallaðir til, ekki prestar, nema fyrir fólk sem finnur huggun í trúnni.
Ég hafði ekkert slæmt af trúboði í skóla en mér dettur þó ekki í hug að halda því fram að þar með hljóti önnur börn líka að hafa gott af því. Svo mikið trúarstarf er í gangi fyrir börn að það ætti að nægja. Persónulega finnst mér trúin vera einkamál hvers og eins og á valdi foreldra að beina börnum sínum þá leið sem þeir vilja.
Með bestu kveðju og þökk fyrir góð skrif.
G.

Þórunn sagði...

Já heyrðu ég á eftir að kommenta hér. Takk fyrir báðar tvær, ég þarf að fara yfir þetta og skoða. Svona þarfnast umhugsunar, nú er dramað mitt búið og þá get ég haldið áfram að hugsa ;)