mánudagur, 8. nóvember 2010

Stattu þig stelpa, og strákur.

Stundum er mikilvægt að standa á sínu. Reyndar er það alltaf mikilvægt en ég hef ekki alltaf gert það.

En þegar ég gerði það var það bara geðveikt og það gaf mér nýja orku. Það kom mér á óvart þegar við vinkonurnar vorum að tala saman um daginn og hún talaði um að sumt fólk stundaði einfaldlega ekki sjálfsskoðun. Ha?! Ertu ekki að grínast, ég byrjaði í vöggunni. Og sjálfsskoðunin hefur falið í sér sjálfsgagnrýni oft á tíðum og skömm yfir að vera eins og ég er. Ég afsaka mig ennþá stundum, alltof oft reyndar. En ég fattaði um daginn að ég er frábær! Alveg hreint einstakt eintak haha. Og svo er ég líka mjög sæt ;) Taka aðeins hégómann á þetta!

Að taka af skarið. Skelfilega er það erfitt. Að tala hreint út. Ekki nokkur leið. Að standa á sínu. Alveg hreint voðalegt!

Ég er eins og ég er. Það snýst allt um það. Meðal þeirra galla sem ég tel mig hafa er sjálfsniðurrif. Ég er líka stundum of gassaleg og óþolinmóð, sérstaklega gagnvart öðru fólki. Svo er ég feimin, ótrúlegt en satt og fjandanum viðkvæmari. Ég á erfitt með að fá heildarsýn og er of eftirgefanleg. Ég er löt og gefst oft upp fyrir sjálfri mér.

En mér finnst gaman að dansa. Ég á auðvelt með að vera ein...og dansa. Ég er góð manneskja, stundum of góð. Ég er nokkuð næm á tilfinningar annarra og nærgætin. Og svo uppgötvaði ég að ég er sterk og læt ekki bjóða mér neitt kjaftæði. Og þegar ég hafði neitað kjaftæðinu var ég svo glöð að ég setti í þvottavélina í fyrsta skipti í þrjár vikur. Og býst við að byrja á spennandi verkefni strax í kvöld.

Ég á svo helling af góðu fólki í kringum mig. Fjölskyldu sem á sér enga aðra líka og vinkonur og vini sem eru alltaf til staðar og peppa mig upp.

En aðalatriðið er: ég fann einhvern styrk í sjálfri mér sem ég vissi ekki að ég hafði og ég veit að himinn og jörð munu ekki farast þótt hlutirnir gangi ekki alltaf upp. Ég hef reyndar fundið þennan styrk áður þegar allt var á vonarvöl en hann kom ekki jafn greinilega fram heldur hægt og bítandi.

Að vera með sjálfsmeðvitund án þess að illa fari er mikil list. Það er að segja að vera meðvitaður um sjálfan sig sem góða manneskju sem með hverju áfalli og hverjum sigri nær að þroska sjálfan sig og hafa áhrif á annað fólk í kringum sig. Það er ég að læra og þakka það ekki síst Afríkuferð minni nú í sumar.

Ég er ekki bölsýn í dag en það getur vel verið að ég verði það á morgun. Þið vitið þetta með dans á rósum. Ekki alltaf þannig. Djöfull getur maður líka dansað á grjótinu, það er alveg víst. En þá er að bíta á jaxlinn og halda áfram því maður er svo gáfaður og sniðugur og skemmtilegur...og þið vitið.

Að lokum: ég er að hugsa um að vera með rauðan varalit í kvöld.

Engin ummæli: