laugardagur, 25. desember 2010

Kærleikur í verki.

Óska öllum lesendum gleðilegra jóla, friðar og gleði á næstkomandi ári. Takk fyrir lesninguna og ég vona að sem flestir kíki við árið 2011, sem verður mega ár. Bloggið kemur áfram við á vettvangi sjálfskoðunar, enda mikið áhugamál hjá mér, það er að segja ég sjálf, einnig er ætlunin að koma við á ýmsum stöðum hugvísinda, aðallega það sem við getum rakið beint til breytni okkar mannfólksins. Það er að segja hagnýta lífsspeki ;)

Ég ætla að gefa ykkur hugmynd um hugmynd sem verður vonandi að veruleika núna strax á nýju ári. Ætlunin er að halda söfnun fyrir stelpuna mína hana Paranai, sem bjó með mér úti í Kenýa þegar ég dvaldi þar síðastliðið sumar. Hún er fjórtán ára gömul og byrjar í framhaldsskóla núna í febrúar og ætlunin er að styrkja hana til náms. Ég ætla að deila með ykkur sögu Paranai og reynslu minni af kynnum mínum við hana. Hún er einstök stúlka sem á allt gott skilið. Vonandi kemst hún hingað til Íslands einhverntíma svo einhver ykkar getið fengið að kynnast henni.

Söfnunin verður með ýmsum hætti og vona ég að sem flestir taki þátt, hvort sem þeir auglýsi hana, gefi ýmsa muni, sem ætlunin er að selja á sérstökum basar, eða styrki stúlkuna beint með peningagjöfum. Ætlunin er um leið að vekja fólk til umhugsunar um kröpp kjör fólks um allan heim, sem mun vonandi leiða huga okkar frá eigin vandræðum og hvetja okkur til að rétta þeim sem eru mun verr staddir hjálparhönd. Breyttur hugsunarháttur í þessa hátt mun hjálpa okkur Íslendingum að ég held. Við öðlumst vitneskju um hvað er mikilvægt og hvað ekki og hvernig við getum, með því að lesa litla sögu af lítilli stúlku með stórt hjarta, farið að hugsa um hvert annað. Þrátt fyrir okkar kreppu eigum við svo miklu meiri von en margir þarna úti og með okkar frægu sjálfsbjargarviðleitni ættu allar dyr að standa okkur opnar. Gleymum því ekki hvað við erum heppin.

Með þessum hugleiðingum sendi ég jólakveðjur til ykkar allra. Geymum jólaandann í hjörtum okkar allt árið, líka í janúar og febrúar þótt kreditkortareikningurinn láti ekki að sér hæða ;)Ekki er allt metið til fjár og hægt er að taka þátt í söfnuninni með ýmsum hætti.

Takk fyrir árið 2010. Hlakka til að heyra í ykkur á næsta ári.

Þórunn

1 ummæli:

Halla sagði...

Falleg hugmynd, Þórunn mín! Ég skal alveg hjálpa þér, ég er t.d. til í að gefa gamalt dót frá Jónatan til að selja á basar :o) Jólaknús!