föstudagur, 10. desember 2010

Inni í snjókúlunni.

Stundum verðum við svo smá. Svo smá að við komumst fyrir í litlu kúlunum sem við hristum svo yfir allt fellur snjór. Þar sitjum við föst inni þar sem að snjóar af og til þegar einhver hristir kúluna og okkur líður eins og Sigurði Guðmundssyni og félögunum í Memfismafíunni. Snjórinn sest á kinnar okkar og umbreytist í tár sem við getum ekki þerrað því snjórinn heldur áfram að falla, miskunnarlaust, og sest á hár okkar og axlir.

Ég er hávaxin kona og ætti að ganga háreist og stolt yfir að vera sú sem ég er, yfir að hafa áorkað svo miklu, yfir að hafa sigrast á sorgum mínum. En svo kemur ný sorg og mér finnst eins og ég þurfi að byrja allt upp á nýtt. Eins og grunnurinn hafi ekki verið nógu og sterkur til að byrja með. Svo hugsa ég um ábyrgð mína sem vinur, sem starfsmaður, sem dóttir og systir og mér finnst ég ekki standa mig sérstaklega vel þar heldur því ég er föst í mínum eigin vandamálum, sem þegar á botninn er hvolft eru svo agnarsmá.

Hef ég rétt á að gráta? Hef ég rétt á að gefast upp fyrir sjálfri mér? Mér finnst ekki, ekki þessa stundina. Því vakna ég á réttum tíma, mæti til vinnu og geri það sem til af mér er ætlast. Ég tek þjófavarnarkerfið af, kveiki ljósin og kveiki á tölvunum. Ég skipti gömlum blöðum út fyrir ný í möppunum og helli upp á kaffi. Ég byrja daginn upp á nýtt þrátt fyrir hjartasár og höfnun. Ég verð að halda áfram og gera viðeigandi ráðstafanir til að verða ekki særð aftur. Þess vegna langar mig að loka hjarta mínu um sinn. Ég veit að það er kannski ekki ráðlegt en þó ætla ég að halda því opnu fyrir fjölskyldu mína. Hún á það skilið, því hún er alltaf hjá mér.

Ég kveki því ljósin og á tölvunum, helli upp á kaffi og rýni út í rökkvaðan morguninn. Ég lifi daginn.

Engin ummæli: