miðvikudagur, 1. desember 2010

Amma og Lennon.

Héðan er allt gott að frétta. Ég er jólabarn lítið en fer reyndar til Danmerkur um jólin að hitta minn ástkæra vin Arngrím, og ef til vill endurnýja ég kynnin við hina ástkæru H&M verslun, hver veit.

Ef jólaljósin í Köben og Ásrósum fá mig ekki til að gleðjast eilítið í mínu dapra hjarta þá er guð minn vondur/vond. Nei hann/hún er það ekki, ég talaði við guð í gær, í fyrsta skipti í langan tíma. Þegar ég var unglingur var ég skeptísk á guð en trúði engu að síður á annan heim. Síðar gerðist ég aðdáandi heimspekingsins Spinoza, sem taldi guð vera yfir og allt um kring. Það fannst mér falleg hugsun.

Eftir að amma mín dó fór ég að tala við hana. Það líður enn ekki sá dagur sem ég hugsa til hennar og ef ekki með meðvitund þá í undirmeðvitundinni. Hún var best, hún var góð. Hún kenndi mér að búa til dísætt kakó og lét mig pikka með gaffli í hafrakökurnar áður en hún setti þær í ofninn. Hún lét sokkana mína á ofninn þegar ég kom heim úr ímynduðum leikjum í garðinum og stillti á útvarpið en pabbi var með þætti um íslenskt mál á Útvarpi Norðurlandi sem við hlustuðum andaktugar á. Ég beið alltaf eftir spes kveðju sem hljómað þá eitthvað á þá leið að pabbi kvaddi þá sem á hlýddu og þá sérstaklega dóttur sína sem héti Þórunn ;)

Samhliða ömmubænum bað ég til John Lennon. Margir segja að hann hafi verið fífl en svo var ekki í mínum augum. Hann talaði til mín þar sem hann var misskilinn og einmana; "No one I think is in my tree/I mean it must me high og low." Ólíkari manneskjur hefði ég sennilega ekki getað valið mér til að beina bænum mínum að úr öllum þeim englum sem söfnuðust saman í því sem kallað er himnaríki, ef Lennon hefur þá farið til himnaríkis. Hann sagði nú einu sinni að Bítlarnir væru vinsælli er Jesús!

,,Þú átt alltaf að búast við hinu versta" sagði heimspekingur einn. Þá myndi maður ekki verða fyrir jafn miklum vonbrigðum sjáðu. Þetta vildi ég tileinka mér á menntaskólaaldri. Ég ákvað að ég ætti að hafa hægt um mig. Í dagbók mína skrifaði ég eitthvað á þá leið: ,,Engin farði, svört látlaus föt og engar væntingar í lífinu." ég var búin með kvótann. Áfall lífs míns hafði riðið yfir og von um gleði og hamingju átti ekki lengur rétt á sér.

Ég bið ekki lengur til Lennon, en amma er alltaf þarna, innan um uppáhaldsblómin sín, hrafnaklukkur, með bros á vör og margar sortir á borðinu. Kannski situr Lennon til borðs með henni og afa mínum og hámar í sig hafrakökur.
Þegar ég tala við krabbalækninn hennar mömmu dynja á mér upplýsingar um eitt og annað varðandi krabbameinsgenið blessaða. Það sem ég hélt að væri afneitun og kæruleysi kallaði hann æðruleysi við mömmu. ,,Ég held að yngsta dóttir þín sé svo lífsreynd að hún getur tekið þessum upplýsingum með æðruleysi."

Fallegt.

Það er markmið mitt núna, því mér finnst æðruleysið einmitt skorta hjá mér og óþolinmæði og vorkunnsemi gagnvart sjálfri mér spila enn stóra rullu. En stundum gerist eitthvað í sjálfum okkur, það er að segja við öðlumst eiginleika fyrir tilstilli reynslu okkar, þegar við höfum þroskast við áföll jafnt sem gleðilega atburði og kunnað að meta böl jafnt sem blessun. Einhver hluti af mér hefur öðlast æðruleysi og ég er stolt af því, Nú er að halda áfram að biðja til æðrulausrar ömmu minnar sem á stóran þátt í að gefa mér styrk og von um það sem koma skal.

3 ummæli:

Bára sagði...

ohhh með þeim betri bloggfærslum sem ég hef lesið lengi, rifjar upp ýmislegt sem ég man eftir að hafa heyrt áður.
Get eiginlega ekki beðið eftir að hitta þig þegar ég kem heim og ræða málin almennilega.
kveðja BH

Lóba sagði...

Sömó Bára min :)

Jóna Rún sagði...

Sammála Báru, þetta var yndisleg lesning. Reyndar er alltaf gaman að lesa bloggið þitt :)