þriðjudagur, 16. ágúst 2011

Reykjavíkin mín.


Senn fara laufin að falla og það lítur út fyrir að ég muni upplifa enn eitt haustið í Reykjavík. Eftir sveitasæluna ákvað ég að flytja aftur í bæinn og fara að leigja með elskulegri vinkonu minni, sem einnig er fífl og er það alls ekki ókostur nema síður sé.

Ég man þegar ég var í MA og fór stundum að heimsækja systur mína alla leið til höfuðborgarinnar. Alltaf þegar ég starði ofan á marglit húsþökin úr flugvélinni fékk ég þá tilfinningu að þarna ætti ég heima. Ég ritaði ekki alls fyrir löngu nokkuð langan pistil um það að sveitin mín væri alltaf ,,heima", en það má samt sem áður segja að Reykjavík sé ,,heima" mótunaráranna eftir tvítugt. Nú vilja nú kannski margir meina að maður sé varla enn að mótast svona þegar farið er að slá í þrítugt, en ég er misþroska og Reykjavík verður hluti af þessari mótun enn um sinn.

Það hefur oft verið mér erfitt að búa í Reykjavík. Nú hljóma ég kannski eins og ég álíti Reykjavík Harlem Íslands en það er alls ekki svo. Það eru þess dæmi að ungt fólk af landsbyggðinni, sem hefur komið til Reykjavíkur í háskólanám, hefur einangrast í einu skitnu herbergi, eigandi engan að og endað með að flýja aftur heim. Það reyndist mér ekkert sérstaklega auðvelt að eignast vini í mínu námi. Ég hafði ekki verið í MH eða MR, var ekki úr Vesturbænum, var ekki með rauðan varalit dagsdaglega og hafði aldrei farið í málaskóla til Frakklands. Auðvitað átti ég systur mína að og þáverandi kærasta og hefði sennilega drepist úr leiðindum ef þeirra hefði ekki notið við. Loksins fór ég að hanga með tveimur stelpum sem féllu ekki undir fyrrnefndar skilgreiningar og staðan skánaði.

Ég fór aftur til Akureyrar veturinn eftir þetta, harðákveðin í að dissa bókmenntafræðina í bili. En, ég hafði ekki gefist upp á Babýlon. Dreif mig þangað í mars 2006 þegar bókabúðin sem ég vann í var lögð niður, og vann á leikskóla og á pítsurestauranti fram í miðjan september. Ég eignaðist vinkonu í samstarfsfélaga mínum á leikskólanum, en svo skemmtilega vildi til að hún reddaði mér vinnunni á pítsustaðnum. Þarna var skrautlegt lið sem ég hefði annars aldrei kynnst og ég skemmti mér konunglega á hverri einustu vakt. Ég komst að því að ungir Reykvíkingar voru töluvert reynslumeiri þegar kom að fíkniefnum en landsbyggðarpakkið og saup hveljur. Ég djammaði villt (tek það fram að ég tók ekki Reykvíkinginn alla leið með því að byrja að sniffa kók eða neitt soleiðis), var flottasta gellan á svæðinu (að eigin mati) og átti dúndurmeðleigjendur. Ég var að sanka að mér reykvískri lífsreynslu og það þýddi ekkert annað en að skemmta sér í leiðinni.

Eftir miður skemmtilega veru í dönskum lýðháskóla, þar sem inntak námsins var fólgið í kennslu í ræstitækni, kom ég aftur á Frónið og þá kom ekki annað til greina en að fara til Reykjavíkur. Þær landsbyggðarvinkonur sem ekki voru í útlöndum voru þar og ég fékk vinnu á Borgarbókasafni Reykjavíkur og átti það eftir að verða örlagaríkt. Á einu sumri eignaðist ég fjórar vinkonur sem voru hlýjar, feimnar, galsafullar, klikkaðar, tjáningaríkar, listrænar, gáfaðar og fallegar, allt í senn. Orðið ,,bókasafnsstelpurnar" var nú orðinn sjálfsagður hluti af orðaforða mínum, eins algengustu samtengingar íslensks máls. Smám saman myndaðist sjálfshjálpargrúppan ,,Púrtvínsklúbbur þjáðra kvenna" en þar voru framtíðardraumar okkar reifaðir, dramaköst tekin og ástarmálin rædd af þunga. Ein féll kannski í gólfið af hreinni angist, og önnur talaði fyrir munn okkar allra þegar hún æpti upp yfir sig ,,Þetta helvítis líf!". En það var mun meira hlegið en grátið og inn á milli var pískrað á milli bókastafla eða brosað í gegnum auð pláss í bókahillunum. Kaffi eftir vinnu, reykingapásur (nema ég norpaði bara með kaffi, sígópásur eru bara svo félagsleg athöfn), vinnudjömm, umræður um hvar í stafrófsröðinni okkur fyndist leiðinlegast að raða bókunum upp, rithöfundadraumar, tónsmíðadraumar, ævintýragirni og metnaður. Ég sá, heyrði (að því marki sem ég get séð og heyrt. Nota nefnilega bæði heyrnartæki og gleraugu.) og fann heimspeki og leikræn tilþrif Sunnu, ferðasögur og ævintýraþorsta Gunnu, blíðan trega og tilvistarvangaveltur Tinnu og rökvísi og ótrúlegt næmi Ingibjargar. Þessar stelpur björguðu mér frá sjálfri mér. Þegar allt siglir í strand og ,,litlu" Þórunni finnst kuldalegt í höfuðborginni, þá eru þær til staðar.


Það sem Reykjavíkin hefur fært mér eru bókasafnsstelpurnar. Þá fyrst fór ég að una mér vel í þessari vætusömu borg. Við eigum allar ólíkan bakgrunn þannig að við höfum margt lært af hver annarri. Ég bíð spennt eftir að stíga fæti inn í ljótustu flugstöðvarbyggingu Íslands og vita að ég eigi eftir að hitta stelpurnar (og auðvitað alla hina vinina, það þarf annan pistil um þá). Staðurinn er fólkið sem hann byggir. Reykjavíkin mín er falleg og bókasafnsstelpurnar eiga stóran þátt í þeirri fegurð.

1 ummæli:

ingibjorgosp sagði...

Ég fékk kökk í hálsinn við lesturinn. Mikið er ég ánægð að eiga ykkur að og sérstaklega þig Lóba mín.