fimmtudagur, 18. ágúst 2011

Réttu konunni dótið.

Flestar, ef ekki allar konur hafa einhverntímann tekið þátt í umræðunni ,,Og ég var þúst að afgreiða/versla ect, og þá sagði maðurinn/konan bara við barnið sitt ,,Réttu konunni þetta." og ég bara þúst...!". Þegar orð í þessum dúr falla í vinkvennahópi súpa þær flestar hveljar og engjast um af hneykslun. Það virðist vera að hvort sem maður er níu ára eða níræður þá Á að kalla mann stelpu. Að verða kona er það sama og verða gömul, að verða kjelling sem hefur ekki snefil af kynþokka eða tískuviti.

Af hverju viljum við ,,stelpurnar" láta kalla okkur stelpur svona lengi?
Hvað þýðir að vera stelpa?

1.
stelpa - Stafsetningarorðabókin
stelpa -n kv. stelpu; stelpur, ef. ft. stelpna stelpu·hnokki; stelpu·skott.

2.
stelpa no kvk - Stóra orðabókin um íslenska málnotkun
stelpu-gæs. stelpu-skita. stelpu-skjáta. stelpu-skoffín. stelpu-tík. stelpu-tuðra. stelpu-fífl. stelpu-fjandi. stelpu-gála. stelpu-gopi.

3.
stelpa no (lykill) - Stóra orðabókin um íslenska málnotkun
stelpa no (lykill). ... myndarleg, lagleg, sæt, viðkunnanleg, skemmtileg, fín, góð; rösk, tápmikil, dugleg stelpa.

1.
Vísar til einhvers sem er lítið.

2.
Vísar til fáráðlings, fífls og druslu.

3.
Vísar til útlits, innrætis og vinnusemi. Allt á jákvæðum og penum nótum.

Ojæja, ég fer ekkert að fletta upp orðinu ,,kona" í orðabók að sinni en í minni eigin merkir orðið sjálfstæð og fullorðin. Svo einfalt er það.

Það er auðvitað fallegt að vera stelpa. Raunar blöskrar mér þessi samsettu orð í lið 2. sem öll eru neikvæð, og allavega tvö þeirra vísa, alltént núorðið, til lauslætis. Er nokkuð til orðið strákdrusla? Hélt ekki.

En pirrum okkur ekki á því í bili. Eins og áður segir; það er fallegt að vera stelpa, á því leikur enginn vafi. Hinsvegar voru allar konur stelpur þegar þær voru litlar. Að óska þess að vera alltaf stelpa í augum fólks, jafnvel þótt þú sért að nálgast þrítugt, virðist mér vera löngun til að vera verndaður, að hafa eitthvert autoritet yfir sér, að vera einhver stelpulingur: að vera litla, sæta stelpan sem þú varst. Verða ,,strákar" rosalega svekktir þegar þeir eru kallaðir menn? Ég hef aldrei heyrt þá kvarta undan því.

Ekki það að ég mun alltaf kalla vinkonur mínar og systur ,,stelpurnar" og ég mun án efa tala um ,,strákana" líka. En það er á jafningjagrundvelli.
Nú erum við, því miður hugsa sumir, orðnar stórar stelpur. Við erum loðnar, af okkur er svitalykt, við fáum bólur, við erum á blæðingum og svo framvegis. Það er ekkert lítið og sætt við okkur lengur, þótt við getum blekkt okkur með því að raka á okkur píkuna og grennt okkur niður í ekki neitt, neitt. En ég neita því ekki að ég er orðin að myndarkonu. Ég er gáfuð, sjálfstæð og axla ábyrgð. Ég er fullorðin.

En stundum fíla ég mig misþroska. Ég kallaði mig það meira að segja í síðustu bloggfærslu. Ennþá blundar í mér stelpan sem vill láta vernda sig, sem sér sig litla og þar með ekki fullgilda í samfélaginu, og þannig líður fjölmörgum konum. En...ég er byrjuð að ,,hlýða" nafninu Kona. Ég er kona, fjandakornið. Og það er hreint ekki svo slæmt.

Engin ummæli: