sunnudagur, 17. júlí 2011

Heima.

Ég er á leið heim. Ekki í enn eina leiguíbúðina, heldur heim. Mazdan bryður mölina þegar ég ek upp heimreiðina eftir vinnudaginn. Nokkrar vinkonur hafa safnað sér saman í túninu og líta letilega upp þegar bíllinn nálgast, en spyrjandi jarm leiðir þær til afkvæma sinna fjær veginum. Það er sólskin, eins og alltaf í minningunni
um sumrin sem ég upplifði í æsku og hóllinn minn blasir við mér með hárið gulleitt og rytjulegt eftir snjóinn sem dvaldi langdvölum þetta vorið.

Maður tekur æskuslóðirnar með sér hvert sem maður fer, en þær gleymast
stundum í hversdeginum, og það er ekki fyrr en maður finnur lykt af
nýslegnu grasi og skuggar trjánna mynda verndandi hjúp um mann, að
maður endurupplifir, þótt ekki sé nema eitt andartak, tilfinninguna fyrir
að eiga heima einhversstaðar og vita um leið að þessi tilfinning er
samofin heimilinu. Hún er heimilið sjálft.

Ég þurfti svolítinn tíma til að ná mér niður eftir veruna í höfuðborginni
þegar ég kom aftur. Ég vissi ekki hvort ég myndi bilast af því að hafa
ekki vinkonurnar í næsta húsi til að skreppa með á kaffihús en vissi innst
inni að þetta var nákvæmlega það sem ég þurfti að gera. Þess vegna sótti ég
um vinnu á Húsavík í sumar, fékk hana og flaug norður við fyrsta tækifæri
til að takast á við sauðburðinn. Svo bilaðist ég svolítið á honum
og eftir fjórar vikur skellti ég mér til kóngsins Köbenhavn að heimsækja
Kristínu Maríu frænku, alveg eins og ég gerði þegar ég var sjö ára. Í
þetta skiptið slepptum við þó tívolíinu og dáðumst í staðinn að fallega tveggja
mánaða drengnum hennar, sem varð mánuðinum eldri í síðustu viku. Allt í einu eigum við að heita fullorðnar en samt er minningin um þegar við svifum á Töfrateppinu svo nálæg, eða þegar við skreyttum borðið í drullubúinu með rifnum dúk og hrafnaklukkum og sóleyjum í vasa.

Núna lullar Mazdan til Húsavíkur og aftur til baka alla virka daga, og ég rigsa inn á skrifstofu í háum hælum (læt þó vera að keyra í þeim) eins og ég hafi
aldrei gert annað. Ég skipulegg ég máltíðir í gríð og erg og við pabbi borðum saman á hverju kvöldi, oftast eftir veðurfréttir. Vanalegar spurningar, eins og hvernig
hafi verið í vinnunni og hvort ég hafi heyrt í mömmu, skapa reglubundinn
takt samræðna sem svo leiðast kannski út í eitthvað annað, eins og um þennan
fádæma vitleysisgang við Múlakvísl og hvernig Íslendingar hafi gleymt
því að þeir stjórna ekki náttúruöflunum. Ég veit fyrir víst að ég var
mestan part búin að gleyma landslaginu innan í mér. Hugur minn er byrjaður að tölta aftur á jöfnum hraða þótt það að villast upp í Mývatnssveit með tvo belgíska puttalinga þegar maður ætlaði aðeins með þá hálfa leið upp í Reykjadal, setji daginn örlítið úr skorðum.

Ég legg Mözdunni eins mjúklega og ég get og hlusta á þreytulegt andvarp hennar þegar ég sný lyklinum í svissinum. Ég geispa svolítið og stend upp úr bílnum, teyga að mér loftið og hristi úr mér norðangarrann. Ærnar hafa fært sig nær hlaðinu og horfa löngunaraugum á grasið í garðinum. Ég renni augunum snöggt rúntinn: Staðarfell, Hrifla, Lækjamót, Borgartún og svo framvegis. Allt er á sínum stað og hugsanir mínar eru fullkomlega öruggar hérna upp í hlíðinni. Það er gott að vera komin heim.

2 ummæli:

Erna Skúladóttir sagði...

Þú ert yndisleg :) núna hlakkar mig ennþá meira til að koma heim.

Þórunn sagði...

Og þá verður gott að knúsa þig :)