mánudagur, 17. janúar 2011

Takk!

Heil og sæl,

Þá er markaðurinn afstaðinn og tókst svona líka frábærlega. Samtals söfnuðust 27.000 kr., í gær bættust tíuþúsund við og von er á meiru. Takk fyrir frábæra fólk sem sýnduð stuðning, með því að gefa föt, styðja framtakið og hjálpa til. Þetta var ómetanlegt. Svo er líka svo ljómandi gaman að halda svona markað, rosa stemmning. Fyrir þá sem vilja leggja inn á styrktarreikning Paranai, þó ekki væri nema örfáar krónur, geta lagt inn á þennan reikning:
Reikningsnúmer: 1110-26-2508
Kennitala: 250883-5019


Ég hef verið að reyna að vinna í heimasíðu um Paranai en er ekki alveg sú sleipasta á tæknisviðinu, þótt ég hafi reyndar komist ótrúlega langt;) Ætla að narra vinkonu mína til að hjálpa mér svo þeir sem vilja geti fylgst með stelpunni.

Á laugardagskvöldið fékk ég svo tölvupóst frá Paranai. Hún er komin með eigið netfang og allt, og virðist hafa lært heilmikið í fingrasetningu af lengd bréfsins að dæma. Hún var næsthæst í bekknum og komst inn í sama skóla og sá hæsti, Silas, sem er með virkilega góðar einkunnir (og ég efast ekki um að einkunnir Paranai séu neitt slor). Hún sagði að henni fyndist þetta ótrúlegur árangur miðað við að faðir hennar lést í haust og því fylgdi óneitanlega sorg og erfiðleikar. Samkvæmt bróður Parnai voru þau í Nairobi, höfuðborginni, og væru að halda heim aftur. Hann ætlaði að skrifa mér um skólann í dag og ég bíð spennt eftir upplýsingum. Allt bendir til þess að Paranai komist í góðan skóla, og það sennilega í Nairobi fyrst þau voru þar í síðustu viku. Það var líka draumur Paranai að komast í skóla í Nairobi, enda bestu skólarnir þar og umhverfið spennandi fyrir litla Masaistúlku sem varla hefur ferðast neitt að ráði. Hún verður þó sennilega í mjög vernduðu umhverfi þar, á heimavist og verður sennilega að læra allan sólarhringinn að Kenýabúa sið.

Ég verð að segja að ég varð ansi spennt, enda hef ég ekki heyrt frá Paranai sjálfri síðan ég fór. Það var mér mikið í mun að hún vissi að ég hugsaði til hennar.

Annars er þetta allt frábært bara :) Ég lenti svo á mikilli kjaftatörn um hjálparstarf í gær, kosti þeirra og galla, og hve margt íslenskt fólk væri raunar að vinna að allskyns verkefnum, bæði samtökum og sjálfstætt. Það er virkilega ánægjulegt að margir eru að vinna sjálfstætt að hjálparstarfi, þekkja aðstæður vel og vita hvernig á raunverulega að hjálpa því mörg hjálparsamtök hirða ógn og skelfing af fólki sem vill ekkert gera nema hjálpa, ekki borga undir flugfar á fyrsta farrými fyrir stjórnendur stórra hjálparsamtaka. Að sjálfsögðu eru svo ýmis samtök af þessu tagi að vinna gott starf, eins og ABC og Rauði krossinn. Einhversstaðar verður maður að byrja og þegar maður kynnist innfæddum og þekkir aðstæður betur getur maður farið að móta sína eigin stefnu og unnið að einstökum verkefnum sem eru manni sérstaklega hugleikin. Það er fínt að byrja í hjálparstarfi á vegum samtaka ef maður stefnir í þessa átt að ég held. Annars er ég enginn sérfræðingur en gaman væri að vita af fólki sem er að vinna að eigin verkefnum og fræðast af þeim um hvað hægt er að gera og hvernig. Allar ábendingar vel þegnar :)

Bless í bili og takk :)

Engin ummæli: