sunnudagur, 23. janúar 2011

Konurnar á bak við tjöldin.

Ég hef svosem ekkert nýtt fram að færa. Nema, ég er byrjuð í heimspeki og mér finnst það gebbað. Verst er að ég er þegar komin eftir á í lestri vegna vinnu og sá mér því ekki annað fært en að hætta í rökfræði. Hún lofaði reyndar góðu, þótt ég hefði þurft að eyða massívum tíma i hana því að hugsa svona er svo gersamlega framandi fyrir mér. Mér finnst samt mótsagnarrökfræðin alveg merguð. Þá geturðu bara bullað einhverja vitleysu og samt er niðurstaðan rökfræðilega rétt.
Dæmi:Þórunni langar að læra rökfræði en langar samt ekki að læra rökfræði.
Niðurstaða: Það er bleikur fíll í forstofunni.

Fyrst forsendurnar meika ekki sens geta þær leitt af sér hvað sem er. Gaman af þessu.

Ég er meira að segja farin að sækja Soffíubúð, kaffistofu stúdenta, þar sem hægt er að fá sjúklega ódýrt kaffi og hanga í sóffanum, bullandi út í eitt. Svo eru kennararnir svona bráðmyndarlegir og skemmtilegir. Lífið gæti vart verið betra.

En letin lætur svosem ekki að sér hæða. Á náttborðinu eru að minnsta kosti fimm bækur: Halastjarna múmínálfanna, Dalai Lama; Lífshamingja í hrjáðum heimi, Hreinsun og Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð. Þá eru ótaldar námsbækurnar eftir Platón, Aristóteles og Decartes. Annars dó víst greyið Decartes því hann þurfti að fara svo snemma á fætur á seinni árum. Hann hafði vanist því að hanga í rúminu fram eftir degi og hafa það gott. Mikill kósýheita maður Decartes. Svo fékk hann starf við hirð Svíadrottningar og þar þurfti hann að fara á fætur klukkan fimm á morgnana til að kenna drottningunni. Það var ekki að sökum að spyrja, þetta rústaði heilsu hans og hann lést úr lungnakvefi skömmu seinna. Frakkar segja því að Svíar hafi drepið Decartes. Jiii!

Eins og ég segi, þetta er mergjað og obboslega gaman að fá smá ævisögulegan vinkil á þessa kalla, enda finnst mér afskaplega gaman að spá í líf annarra og hvers vegna þeir eru nú einu sinni eins og þeir eru. Einhverskonar mannfræðiáhugi þarna á ferðinni.

Ekki síst er skemmtilegt að spá í það fólk sem maður hefði kannski ekki talið sérstaklega merkilegt eða gegna miklu hlutverki í heimssögunni. Hjákonur mikilmenna (ef hægt er að kalla þá það, það er náttúrulega smekksatriði) eru sérstaklega áhugaverðar og hafa án efa átt sínn þátt í að hafa áhrif á þessa menn. Ein er í uppáhaldi hjá mér, hún Lady Ottoline Morrel. Hún átti meðal annars í ástarsambandi við hann Berta Russel, rökfræðing nota bene, og málarana August John og Henry Lamb. Allt framhjáhald að sjálfsögðu. Það er áhugavert að skoða konur á borð við hana því oftast eru þær á skjön við það samfélag sem þær alast upp í, eru listelskar og greindar og láta ástríður sínar taka völdin. Það er líka áhugavert hve oft þessar sjálfstæðu konur, sem oft eru þekktar á eigin forsendum, líkt og Frida Kahlo,, áttu í ástarsamböndum við konur, sem að sjálfsögðu var algjört tabú og gekk gegn öllum gildum samfélagsins.

Sjálfsævisögulegir vinklar geta því gefið okkur hugmynd um hvernig fólk hefur mótast af uppeldi sínu, ástarsamböndum og annarri lífsreynslu. Þeir varpa öðru ljósi á hugmyndafræði manna, þótt að sjálfsögðu eigi þetta allt að vera svo hlutlægt og óháð öllum tilfinningum. Fræði og listaverk eru ekki bara fræði og listaverk, þær eru maðurinn og konan á bakvið þau. Svo sannarlega gömul sannindi og ný, en vert að hugsa um af og til.

2 ummæli:

Bára sagði...

ok nýbúin að ljúka við Halastjörnuna í Múmmíndalnum alveg ágætt alveg hreint, get ekki tjáð mig um rest...
En bleiki fíllinn í forstofunni er ekki galnara en hvað annað

Þórunn sagði...

Halastjarnan er nottla osom. Snabbi með kettlinginn sinn, er nokkuð eins sætt???
Allt rugl er ekki galnara en annað!